Fjölbreytt dagskrá var um land allt er Íslendingar fögnuðu þjóðhátíðardeginum og 80 ára afmæli lýðveldisins í gær.
Hátíðardagskráin í Reykjavík hófst formlega á Austurvelli þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lagði blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti hátíðarávarp.
Hátíðarhöldin í miðbæ Reykjavíkur hófust svo með skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju niður að hátíðarsvæðinu í Hljómskálagarði þar sem var fjölbreytt dagskrá fyrir Reykvíkinga, unga sem aldna.
Stíf dagskrá var í Hafnarfirði en hátíðarhöldin hófust klukkan átta að morgni. Dagskráin hófst með fánahyllingu í boði Skátafélagsins Hraunbúa og lauk síðan um tíu að kvöldi með tónlistarveislu á Thorsplani.
Þjóðhátíðardagur Grindvíkinga var með öðruvísi sniði en að venju en í tilefni dagsins var myndlistarsýningin „… að allir séu óhultir“ opnuð í Safnahúsinu þar sem Grindvíkingar komu saman og fögnuðu deginum.
Ekki voru hátíðarhöld einskorðuð við höfuðborgarsvæðið því skemmtidagskrá og skrúðgöngur voru um allt land.
Að venju var sól og blíða á Akureyri í gær. Hátíðarhöldin hófust með skrúðgöngu frá Gamla húsmæðraskólanum í Lystigarðinum þar sem var líf og fjör fram eftir degi.
Á Hrafnseyri, fæðingarstað Jón Sigurðssonar, flutti Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hátíðarávarp og var opin smiðja fyrir börn út daginn þar sem þau fengu að prófa að vera forseti Íslands.