Myndataka Einar Þorsteinsson borgarstjóri dáðist að útsýninu úr parísarhjólinu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar.
Myndataka Einar Þorsteinsson borgarstjóri dáðist að útsýninu úr parísarhjólinu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta var bara óskaplega skemmtilegt. Staðsetningin er góð þannig að maður sér svolítið skemmtilegt sjónarhorn á Reykjavík sem maður hefur ekki séð áður. Þetta var mjög skemmtilegt og gaman að fá smá tilbreytingu í miðbæjarlífið,“ segir …

Ellen Geirsdóttir Håkansson

ellen@mbl.is

„Þetta var bara óskaplega skemmtilegt. Staðsetningin er góð þannig að maður sér svolítið skemmtilegt sjónarhorn á Reykjavík sem maður hefur ekki séð áður. Þetta var mjög skemmtilegt og gaman að fá smá tilbreytingu í miðbæjarlífið,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri um nýja parísarhjólið við Miðbakkann.

„Fyrir nokkru var farið í ákveðna vinnu við það að rýna hvernig við gætum nýtt strandlengjuna og sjóinn betur og dregið fólk í einhvers konar afþreyingu, útivist eða hreyfingu meðfram sjónum og þetta var ein af þeim hugmyndum sem komu út úr þeirri vinnu,“ segir Einar.

Rússíbani ekki efst á lista

Voru aðrar djarfari hugmyndir á borðinu, lagði einhver til rússíbana?

„Nei, það var nú ekki farið svo langt með þetta,“ segir Einar og hlær en hann fór tvo hringi í parísarhjólinu í tilefni dagsins.

„Ég held nú reyndar að það sé alveg örugglega eftirspurn eftir alvöru tívolíi í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðið en það hefur ekki beinlínis verið efst á forgangslista borgarinnar að koma því á fót,“ segir Einar.

Framtíð parísarhjólsins komi í ljós af því hvernig gangi, þó sé erfitt að sjá fyrir sér parísarhjól í appelsínugulri viðvörun.

„Að minnsta kosti er þetta bara skemmtileg tilraun og ég sá það strax í dag þegar parísarhjólið var opnað að þá var komin löng röð af fólki sem var að fara að njóta þess að fara þarna upp. Og líka gaman að geta opnað þetta á 17. júní,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.

Höf.: Ellen Geirsdóttir Håkansson