Magnaður Frakkinn N'Golo Kanté í baráttunni við Konrad Laimer.
Magnaður Frakkinn N'Golo Kanté í baráttunni við Konrad Laimer. — AFP/Romain Perrocheau
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frakkland hafði betur gegn Austurríki, 1:0, í stórleik gærdagsins á Evrópumóti karla í knattspyrnu í Düsseldorf í Þýskalandi. Frakkar eru líkt og Hollendingar með þrjú stig eftir fyrstu umferð en Austurríki er án stiga líkt og Pólland í D-riðlinum

EM 2024

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Frakkland hafði betur gegn Austurríki, 1:0, í stórleik gærdagsins á Evrópumóti karla í knattspyrnu í Düsseldorf í Þýskalandi. Frakkar eru líkt og Hollendingar með þrjú stig eftir fyrstu umferð en Austurríki er án stiga líkt og Pólland í D-riðlinum.

Sigurmark Frakka var sjálfsmark Maximilians Wöbers sem kom undir lok fyrri hálfleiksins. Þá lék Kylian Mbappé á varnarmenn Austurríkis, gaf fyrir og þaðan fór boltinn af hausnum á Wöber og í netið.

Vörn Frakka frábær

Franska liðið fékk mun fleiri færi en Austurríki en almennt var sóknarleikur liðsins ekki upp á marga fiska. William Saliba kom vel inn í vörn franska liðsins og N'Golo Kanté var magnaður aftast á miðjunni. Ljóst er að hann hefur engu gleymt.

Bakverðirnir Theo Hernández og Jules Koundé stóðu vaktina vel en erfitt er að sjá önnur lið sigra Frakkana þegar vörnin er svona sterk. Bekkur liðsins er líka afskaplega vel mannaður en leikmenn eins og Eduardo Camavinga og Oliver Giroud komu inn á í seinni hálfleik.

Frakkland er komið í góða stöðu í riðlinum en næsta föstudagskvöld er sannkallaður stórleikur þegar liðið mætir Hollandi í annarri umferð riðilsins. Fyrr um daginn mætir Austurríki Póllandi.

Belgar sjálfum sér verstir

Belgía tapaði fyrir Slóvakíu, 1:0, í seinni leik E-riðilsins í gær. Sigurmark Slóvena skoraði Ivan Schranz á 7. mínútu leiksins er hann fylgdi eftir skoti Juraj Kucka. Framherji Belga, Romelu Lukaku, skoraði tvö mörk fyrir Belgíu en bæði voru ólögleg. Í fyrra markinu var rangstaða dæmd á Lukaku þar sem litlu mátti muna og í seinna atvikinu var hendi dæmd á Lois Openda sem sendi boltann síðan á Lukaku.

Gullaldarlið Belga hefur ekki enn staðið undir væntingum á stórmóti fyrir utan á HM í Rússlandi 2018 þegar liðið komst í undanúrslit. Síðasta heimsmeistaramót í Katar var þó versta mót Belga en þeir komust ekki upp úr riðlinum. Var tækifæri í gær til að koma stemningunni upp í landinu en landsliðinu tókst það ekki.

Frammistaða belgíska liðsins var nokkuð góð þrátt fyrir tapið en færanýtingin var ekki til staðar. Belgar eru þó heppnir að vera í fyrir fram slakasta riðli mótsins og geta þeir komið sér aftur á beinu brautina gegn Rúmeníu næstkomandi laugardag.

Slóvakía heldur áfram að koma á óvart og er liðið komið í góða stöðu. Slóvakía mætir Úkraínu í næstu umferð og getur með stigi þar nánast gulltryggt sig áfram í 16-liða úrslit.

Magnaður sigur Rúmeníu

Rúmenar eru þegar komnir í afar vænlega stöðu í E-riðlinum en þeir unnu sannfærandi sigur á Úkraínu í fyrsta leik riðilsins í München í gær, 3:0. Leik sem snerti íslenska landsliðið á þann veg að það hefði með sigri á Úkraínu í úrslitaleiknum í Wroclaw í mars verið andstæðingur Rúmena í München í gær.

Nikolae Stanciu skoraði á 29. mínútu, Razvan Marin á 53. mínútu og loks Denis Dragus á 57. mínútu þannig að Rúmenar voru með sigurinn í hendi sér síðasta hálftímann.

Rúmenía var miklu betri í leiknum og Úkraína var ekki sjón að sjá. Stjörnur liðsins voru hvergi sýnilegar og fór rúmenska liðið í gegnum leikinn án erfiðleika. Slæmu fregnirnar fyrir Úkraínu eru einnig þær að Slóvakía hafi unnið og staðan í E-riðlinum er því nokkuð óvænt eftir fyrstu umferð og er allt galopið. Rúmenar geta haldið góðu gengi sínu áfram með því að ná einhverju úr leiknum gegn Belgíu næsta laugardag.

Í dag hefst keppni í F-riðlinum en þar mætir Portúgal Tékklandi og Tyrkland Georgíu.

Höf.: Jökull Þorkelsson