Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lagði áherslu á gildi lýðræðisins, vörn þess og varnir í þjóðhátíðarávarpi sínu á Austurvelli þar sem 80 ára afmælis lýðveldisstofnunar var minnst.
Það var stofnað í skugga heimsstyrjaldar og vitnaði hann til orða Jóhannesar Nordals þá, sem sagði frjálsri menningu stafa helst hætta af vígreifum alræðisöflum og hinum sem væru svo „frjálslyndir“ að þeir veigruðu sér við að taka á móti hinu illa.
„Þessi orð eiga jafn vel við nú, þegar ráðist er með herafli að þeim gildum sem við höfum að verja. Í okkar heimsálfu heyja Rússar blóðugt innrásarstríð, jafnt á eiginlegum vígvelli og á sviði upplýsingahernaðar, falsfrétta og áróðurs þar sem við sjáum hinar myrku hliðar nýrrar tækni. Slíkri framgöngu og tilburðum þarf að mæta af festu.“
Bjarni sagði það frumskyldu að huga enn betur að eigin vörnum og styðja við varnir bandamanna okkar – rétt eins og við treystum á að þeir gerðu væri á okkur ráðist.
Eins græfu falsfréttir og fleira undan opinni, gagnrýnni og málefnalegri umræðu, sem væri lýðræðinu nauðsynleg. Standa yrði vörð um frjáls skoðanaskipti. „Lýðræðið er sverð okkar og skjöldur gegn hvers konar ytri og innri ógn.“