Varnarmaðurinn reyndi Simon Kjær er tilbúinn í slaginn með Dönum þegar þeir mæta Englendingum á EM í knattspyrnu á fimmtudaginn. Kjær missti af fyrsta leik Dana, gegn Slóvenum, á sunnudaginn vegna meiðsla en Morten Hjulmand landsliðsþjálfari sagði í gær að hann væri búinn að ná sér að fullu. Kjær, sem er fyrirliði Dana, 35 ára og leikur með AC Milan, er leikjahæstur í sögu danska landsliðsins með 132 leiki. Vinur hans, Christian Eriksen, lék sinn 131. leik gegn Slóvenum.
Sænski knattspyrnumaðurinn Moutaz Neffati, sem er í láni hjá KR frá Norrköping í Svíþjóð, snýr fljótlega aftur til sænska félagsins. Á heimasíðu þess kemur fram að hann eigi eftir að spila þrjá leiki með KR-ingum en Moutaz hefur komið við sögu í fjórum leikjum þeirra í Bestu deildinni, einum þeirra í byrjunarliðinu, og í einum bikarleik.
Pólverjinn Ewa Pajor, sem hefur verið meðal bestu framherjanna í Evrópufótboltanum undanfarin ár, er búin að semja við Evrópumeistara Barcelona til ársins 2027. Ewa hefur undanfarin ár verið samherji Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá Wolfsburg en hún hefur leikið með þýska liðinu í níu ár, skorað 96 mörk í 121 deildarleik og orðið fimm sinnum þýskur meistari.
Sergio Ramos, varnarmaðurinn reyndi, er farinn frá Sevilla á Spáni eftir aðeins eitt tímabil með félaginu. Ramos, sem er 37 ára, lék með Real Madrid í 16 ár og síðan París SG í tvö ár. Hann skoraði sjö mörk í 35 leikjum í vetur fyrir Sevilla, sem er hans uppeldisfélag en þaðan fór hann einmitt til Real Madrid árið 2005. Ramos er fjórfaldur Evrópumeistari með Real og varð bæði heims- og Evrópumeistari með Spánverjum.
Knattspyrnuþjálfarinn Jonatan Giráldez er farinn frá kvennaliði Barcelona og hefur tekið við Washington Spirit í bandarísku NWSL-deildinni. Giráldez, sem er 33 ára, hefur verið einstaklega sigursæll á þremur árum með Barcelona og unnið tíu titla með félaginu, fjóra þeirra á nýliðnu tímabili. Barcelona varð spænskur meistari öll þrjú ár hans með liðið og vann Meistaradeildina 2023 og 2024.
Ryan Porteous, miðvörður Skotlands og enska liðsins Watford, var í gær úrskurðaður í tveggja leikja bann á Evrópumótinu í knattspyrnu. Hann braut gróflega á Ilkay Gündogen í upphafsleik mótsins gegn Þýskalandi og var rekinn af velli. Porteous leikur því ekki meira á EM nema Skotum takist að komast í sextán liða úrslitin og missir af leikjum liðsins gegn Sviss og Ungverjalandi.
Guðmundur Þórarinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, ætlar ekki að leika áfram með gríska liðinu OFI frá Krít en hann hefur spilað með því undanfarin tvö ár. Hann sagði frá þessu í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin. Guðmundur lék 30 af 33 leikjum OFI í grísku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili en liðið endaði í tíunda sæti af fjórtán liðum.