Vladimir Pútín, forseti Rússlands, mun ferðast til Norður-Kóreu í dag þar sem mögulega verður undirritaður stefnumótandi samstarfssamningur við Kim Jong-un, æðsta leiðtoga og einræðisherra Norður-Kóreu.
Bæði ríki hafa mátt þola þungar refsiaðgerðir af hálfu vestrænna ríkja en samband þeirra hefur orðið nánara eftir að Rússar hófu innrás sína í Úkraínu í febrúar 2022.
Heimsóknin, sem stjórnvöld í Kreml hafa kallað „vináttuheimsókn“, kemur á sama tíma og Pútín sækist eftir frekari skotfærum og vígbúnaði fyrir Rússaher í Úkraínu, en stjórnvöld á Vesturlöndum, Úkraínu og Suður-Kóreu hafa ásakað Norður-Kóreumenn um að senda Rússum bæði skotfæri fyrir stórskotalið og eldflaugar, en bæði Rússar og Norður-Kóreumenn hafa neitað þeim ásökunum.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að heimsókn Pútíns sýndi hversu háð Moskva væri einræðisríkjunum til að heyja sókn sína í Úkraínu en Rússland hefur einangrast mjög á meðal Vesturlanda eftir innrás sína í Úkraínu.
Þá lýsti Hvíta húsið yfir í gær að Bandaríkin hefðu áhyggjur af þeim nánu böndum sem virtust vera að myndast á milli Pútíns og Kims.
Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði í gær að mörg mikilvæg skjöl yrðu undirrituð í heimsókninni, þar á meðal mögulegt stefnumótandi samstarfsskjal sem mun vera uppfærð útgáfa af samkomulagi frá sovéttímanum.
egillaaron@mbl.is