Aldrei hafa fleiri starfað við fiskeldi hér á landi en nú um stundir. Að sama skapi hafa atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri.
Þetta má sjá í tölum sem Hagstofan birti nýverið um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur, sem eru stærsti hluti atvinnutekna launafólks.
Fjallað er um málið á Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins, þar sem fram kemur að á fyrstu fjórum mánuðum ársins hafi rúmlega 820 einstaklingar fengið að jafnaði greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi í mánuði hverjum.
Þá kemur fram að frá sama tímabili árið 2010 hafi fjöldinn fimmfaldast. Sama sé upp á teningnum með staðgreiðsluskylda launasummu, þ.e. samanlagðar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur alls launafólks innan greinarinnar, sem hér eru nefndar atvinnutekjur. Þær námu um 3,2 milljörðum króna á fyrstu fjóru mánuðum ársins, sem er ríflega níu sinnum hærri fjárhæð að raunvirði en á sama tímabili árið 2010 eftir því sem fram kemur í umfjöllun Radarsins.
Atvinnutekjur á mann í öllum atvinnugreinum samanlagt voru um 776 þúsund krónur á mánuði á fyrstu 4 mánuðum ársins. Líkt og áður voru þær hæstar í fiskveiðum en lægstar í landbúnaði og skógrækt. Atvinnutekjur á mann í fiskeldi voru 974 þúsund krónur á mánuði og er greinin þar með í fjórða sæti yfir hæstu atvinnutekjur á mann hér á landi. Atvinnutekjur í fyrra voru þó um 1.020 þúsund krónur og hafa því dregist lítillega saman. Til samanburðar voru tekjur í fiskeldi þó aðeins um 644 þúsund krónur fyrir tíu árum, árið 2014.