Belgrad Snorri Dagur Einarsson á fullri ferð í lauginni í Belgrad í gær þar sem hann náði sínum besta tíma í 100 metra bringusundi.
Belgrad Snorri Dagur Einarsson á fullri ferð í lauginni í Belgrad í gær þar sem hann náði sínum besta tíma í 100 metra bringusundi. — Ljósmynd/SSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Dagur Einarsson var aðeins 25/100 úr sekúndu frá því að komast í undanúrslitin í 100 metra bringusundi karla á Evrópumótinu í sundi í 50 metra laug sem hófst í Belgrad í Serbíu í gærmorgun. Snorri synti vegalengdina á 1:01,66 mínútum og var með 22

EM í sundi

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Snorri Dagur Einarsson var aðeins 25/100 úr sekúndu frá því að komast í undanúrslitin í 100 metra bringusundi karla á Evrópumótinu í sundi í 50 metra laug sem hófst í Belgrad í Serbíu í gærmorgun.

Snorri synti vegalengdina á 1:01,66 mínútum og var með 22. besta tímann af 50 keppendum í greininni, en þetta er hans besti árangur. Sextán komust í undanúrslit og Snorri hefði þurft að synda á 1:01,41 mínútu til að ná þangað. Átjánda sætið hefði dugað því tveir af fyrstu sextán voru þriðju bestu frá sínum löndum en samkvæmt reglum mótsins geta aðeins tveir frá hverju landi farið áfram.

Einar Margeir Ágústsson keppti líka í 100 m bringusundinu og náði líka sínum besta árangri en hann varð í 31. sæti á 1:02,39 mínútum. Einar og Snorri urðu fyrstir í sínum riðlum í undanrásunum en riðlunum er raðað upp eftir árangri keppenda fyrir mótið.

Þess má geta að Íslandsmet Antons Sveins McKees í 100 metrunum er 1:00,21 mínúta, frá því í apríl. Hann hefði verið fimmti í undanrásunum með þeim tíma en Anton einbeitir sér að 200 metra bringusundinu á þessu móti.

Jóhanna í 29. sæti

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir hafnaði í 29. sæti af 42 keppendum í undanrásunum í 100 metra skriðsundi kvenna í gærmorgun og synti á 57,13 sekúndum.

Hennar besti tími er 56,78 sekúndur en Jóhanna hefði þurft að synda á 55,87 sekúndum til að komast í undanúrslit.

Símon Elías Statkevicius hafnaði í 43. sæti af 59 keppendum í undanrásunum í 50 metra flugsundi karla á 24,64 sekúndum. Hans besti tími er 24,45 sekúndur en Símon hefði þurft að synda á 23,78 sekúndum til að komast í undanúrslit.

Ólympíufarar á morgun

Annar dagur mótsins í Belgrad er í dag og Jóhanna Elín keppir í 50 metra flugsundi, Símon Elías í 100 metra skriðsundi og Birgitta Ingólfsdóttir í 100 metra bringusundi.

Á morgun, miðvikudag, er svo röðin komin að fremstu keppendum Íslands en þá keppir ólympíufarinn Anton Sveinn McKee í 200 metra bringusundi og Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sem er nánast örugg með ólympíusæti, keppir í 200 metra skriðsundi.

Höf.: Víðir Sigurðsson