Úkraínski landsliðsmarkvörðurinn Anriy Lunin bað stuðningsmenn þjóðarinnar afsökunar eftir að Úkraína galt afhroð, 3:0, fyrir Rúmeníu á Evrópumótinu í fótbolta í gær. Lunin, sem ver mark Real Madrid, hefði átt að gera betur í tveimur af þremur mörkunum. Lunin átti frábært tímabil með Real Madrid og átti stóran þátt í því að liðið varð bæði Spánar- og Evrópumeistari. Eftir leik gekk úkraínski markvörðurinn til stuðningsmanna þjóðarinnar og baðst afsökunar. Frammistaða úkraínska liðsins var arfaslök og helstu leikmenn liðsins brugðust liðinu. Úkraína mætir næst Slóvakíu á föstudaginn kemur en liðið er í E-riðli mótsins. Belgía er einnig í riðlinum.