Einar Ingvi Magnússon
Við hittumst vegna stríðsins í Úkraínu. Fundum okkar bar fyrst saman á litlu notalegu kaffihúsi í útjaðri Reykjavíkur. Hún var dökkhærð með sérstakt rólegt sorgarblik í augum. Hún kom frá Kharkiv, annarri stærstu borg Úkraínu, sem var höfuðborg á undan Kiev.
Sorgin í andliti hennar myndaði alla hennar ásýnd. Hún var búin að gráta frá sér öll tár. Hún hafði upplifað slíkar hörmungar í lífi sínu að hún gat ekki lengur grátið. Sprengjuregnið var slíkt í Kharkiv, líkin á götunum, borgarhverfin í rúst, tilveran orðin eitt helvíti þar sem áður var fallegt land, auðugt mannlíf, söngur og dans og á boðstólum þjóðarréttur Úkraínu, borscht, súpan góða. Hún eldaði hana fyrir mig fyrst eftir að hún kom til Íslands. Hafði lengi þráð að elda sér þessa súpu. Fyrir hana var þetta eins og okkar íslenska kjötsúpa, sem mörg okkar myndu sakna ef hráefnið í hana væri ekki fáanlegt.
Þessi fallega unga kona var gjörsamlega þurrausin tárum. Þannig konur geta ekki lengur grátið og þær eru margar í Úkraínu. Bræður voru að berjast við bræður. Fjölskyldur sundraðar, þar sem annað foreldrið var frá Úkraínu og hitt frá Rússlandi. Óskiljanlegar hörmungar og ekki langt síðan að verið var að boða alla í herinn. Göturnar voru auðar, því menn frá 18 til 60 ára voru beinlínis hirtir upp af götunum um alla Úkraínu til að vera sendir í fremstu víglínu. Þegar stríðið byrjaði 2014 vildi hún ganga í herinn en það gerðist ekki og því er hún á lífi í dag. Annars hefði ég aldrei séð fallegt andlit hennar.
Þegar ég ók henni um borgina okkar á Íslandi svaf hún mestallan tímann í bílnum, en í hvert sinn sem hún sá kirkju krossaði hún sig, sem er siður í grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Þegar ég var með henni að aðstoða hana á daginn tók ég eftir titrandi fíngerðum höndum hennar og skjálftanum sem fór um skrokkinn. Þegar við ókum fram hjá endurvinnslugámunum víða um borgina og hún sá alla pokana af fallegum fötum sem Íslendingar voru að henda horfði hún á með undrun. Eitt sinn varð ég að stoppa fyrir hana, því hún sá svo falleg föt. Þau hefðu hvort eð er farið til Úkraínu. Andlit hennar ljómaði.
Við hér á Íslandi björguðum lífi hennar. Hún bjargaði mínu.
Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.