Hættum að sóa tíma og fé í dellumál

Í liðinni viku svaraði innviðaráðuneytið spurningu Morgunblaðsins um skýrslu um flugvöll í Hvassahrauni á þá leið að hún væri enn í vinnslu, en lokayfirferð stæði yfir. Í framhaldi af því yrði skýrslan kynnt ráðherra, en dagsetning lægi ekki fyrir.

Skýrslan hefur verið lengi í vinnslu og öll sú vinna sem lögð hefur verið í athugun á því að leggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni hefur kostað mikið fé. Það fé hefur komið úr vösum skattgreiðenda og gerir enn þó að öllum megi ljóst vera að flugvöllur verður ekki gerður í Hvassahrauni, í það minnsta ekki næstu árhundruðin á meðan nýjasta gostímabilið gengur yfir.

Með ólíkindum er að sú sóun sem felst í fyrrnefndri vinnu fái að halda áfram árum saman, á sama tíma og gos stendur linnulítið yfir í næsta nágrenni. Innviðaráðherra sem var fyrr á árinu svaraði því til þá að hann vildi ekki taka afstöðu til málsins fyrr en áhættumat lægi fyrir, en velti því þó upp hvort Reykjavíkurflugvöllur væri ef til vill flugvöllur til framtíðar. Auðvitað eru allar líkur á að svo verði og þar sem sá innviðaráðherra er nú farinn að halda utan um ríkissjóð mætti binda vonir við að hann stöðvaði frekari fjárútlát í rannsóknir og skýrslugerð um framkvæmd sem er útilokuð.

En það er ekki bara að flugvöllur í Hvassahrauni sé útilokaður, heldur er fyrirsjáanlegt að nýjum flugvelli í stað Reykjavíkurflugvallar mundi fylgja gríðarlegur kostnaður. Í viðtali Morgunblaðsins við forstjóra Isavia í liðinni viku komu fram tölur sem ættu að slá út af borðinu frekari vangaveltur um lokun Reykjavíkurflugvallar og gerð nýs vallar annars staðar, hvar sem það nú væri. Forstjórinn sagði að nýr alþjóðlegur flugvöllur, en tal um að gera slíkan völl í Hvassahrauni þótti ýmsum réttlæta rannsóknir á þeim vindasama eldsumbrotastað, mundi kosta hundruð milljarða króna, líklega á bilinu þrjú hundruð til fimm hundruð milljarða. Skattgreiðendur geta rétt ímyndað sér hvort niðurstaðan yrði ekki nær fimm hundruð milljörðum og líklega vel yfir ef marka má reynslu af öðrum stórum framkvæmdum. Og til að setja fjárhæðina í samhengi þá nemur hún um fimm milljónum króna fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Líklegt má telja að fjölskyldurnar geti hugsað sér önnur not fyrir slíkt fé.

Einhverjir kunna að segja að völlurinn þyrfti ekki að vera í fullri stærð sem alþjóðaflugvöllur og yrði þannig ódýrari. Það er út af fyrir sig mögulegt, en forstjóri Isavia upplýsti þó að hver flugbraut mundi ekki kosta undir sextíu milljörðum króna og nauðsynlegar byggingar við hana tugi milljarða króna. Ein flugbraut er þó mjög takmarkandi og varla kæmi til greina að byggja upp nýjan flugvöll með slíkum takmörkunum, þannig að ljóst má vera að jafnvel innanlandsvöllur mundi ekki kosta mikið innan við tvö hundruð milljarða króna þegar upp væri staðið.

Langt er um liðið síðan tímabært var að leggja hugmyndir um nýjan innanlandsflugvöll eða alþjóðaflugvöll á hilluna og viðurkenna þá staðreynd að Reykjavíkurflugvöllur er framtíðarlausn fyrir innanlandsflug hér á landi. Hvort það kann að breytast eftir áratugi eða aldir getur enginn sagt til um nú, en ríkið ætti ekki að sóa meira fé í tilgangslausar rannsóknir og borgaryfirvöld ættu sömuleiðis að viðurkenna þessa staðreynd og hætta að þrengja að vellinum og gera hann lakari kost en hann nú er.

Landsmenn eru lánsamir að hafa þá tvo flugvelli á suðvesturhorninu sem þar eru, Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll, og stjórnvöld ættu að einbeita sér að því að viðhalda þeim völlum. Það er lán hve öruggur Keflavíkurflugvöllur er þrátt fyrir eldsumbrotin á skaganum og afar ólíklegt að breyting verði þar á. Þá eru landsmenn lánsamir að hafa flugvöll í miðri höfuðborginni sem tengir dreifbýlt landið saman með þeim hætti sem flugvöllur annars staðar, eða innanlandsflug á Keflavíkurflugvelli, mundi aldrei gera. Það er óþarfi að eyða fé í að laga það sem ekki er brotið og á öðrum verkefnum er enginn skortur.