Ingi Þór var duglegur að spara og gat eignast sinn eigin bíl á sama tíma og hann fékk ökuskírteinið.
Ingi Þór var duglegur að spara og gat eignast sinn eigin bíl á sama tíma og hann fékk ökuskírteinið. — Morgunblaðið/Eyþór
Ingi Þór Þórhallsson er rísandi stjarna í íslensku leikhús- og tónlistarlífi en þessi ungi leiklistarnemi gaf nýverið út plötuna Fyrsta þar sem hann m.a. snýr bökum saman með Króla í smellinum „Þú“

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ingi Þór Þórhallsson er rísandi stjarna í íslensku leikhús- og tónlistarlífi en þessi ungi leiklistarnemi gaf nýverið út plötuna Fyrsta þar sem hann m.a. snýr bökum saman með Króla í smellinum „Þú“. Ingi Þór er einnig í stofnendahópi sviðslistaverkefnisins Afturámóti sem starfrækt verður í Háskólabíói í sumar en um er að ræða röð leiklistar- og tónlistarviðburða sem standa yfir fram til 17. ágúst. Sjálfur heldur Ingi Þór síðbúna útgáfutónleika undir merkjum Afturámóti þann 22. júní næstkomandi.

Ingi Þór ólst upp í Breiðholtinu og býr þar enn, og segir hann að því hafi fylgt mikið frelsi fyrir ungan Breiðhylting að eignast bíl. „Þetta breytti alveg leiknum fyrir ferðalög í og úr skóla, að ekki sé talað um þátttöku í félagslífi og alls konar verkefnum,“ útskýrir Ingi Þór en hann hafði fest kaup á sínum fyrsta bíl nokkrum mánuðum áður en hann fékk ökuskírteinið og var búinn að safna lengi fyrir bifreiðinni. „Ég var lengi búinn að hafa það sem markmið að eignast minn eigin bíl strax og bílprófið væri í höfn og tveimur eða þremur mánuðum áður en ég fékk bílprófið rakst ég á heppilegan hvítan Volkswagen Golf árgerð 2006.“

Bíllinn var orðinn átta ára gamall þegar Ingi Þór eignaðist hann og hafði áður verið í eigu heildsölu. „Skýringin á hvíta litnum er sennilega að bíllinn var með einhverjar merkingar á sér. Fljótlega fékk bifreiðin svo gælunafnið Hvíta línan því þó að Golfinn hafi ekki verið sérstaklega kraftmikill þá gat hann komist á ágætis skrið í fimmta gír og þotið svo hratt að hann var eins og hvít lína í landslaginu.“

Það er afrek út af fyrir sig fyrir táning að spara sér fyrir bíl en Ingi Þór virðist hafa staðið að kaupunum með mikilli skynsemi og m.a. tekið rekstarkostnaðinn með í reikninginn. „Ég reyndi að finna mér bíl sem ég gæti reiknað með að yrði eyðslugrannur og myndi ekki kalla á mikið viðhald eða tíðar viðgerðir, og hafði líka tekið með í dæmið kostnaðinn við tryggingar og bifreiðagjöld. Auðvitað reyndust útgjöldin meiri en ég hafði gert ráð fyrir í mjög svo mínímalísku heimilisbókhaldi.“

Hvíta línan reyndist Inga Þóri vel allt þar til fyrir hálfu ári að bifreiðin fór að „stríða honum“ eins og hann orðar það. Ingi Þór er ekki búinn að kveðja bílinn en fékk sér þó ágætis jeppa sem hann notar núna sem sitt helsta samgöngutæki: Hyundai Santa Fe af árgerð 2006.

„Hann er svolítill fleki,“ segir Ingi Þór þegar hann er spurður um hvort það hafi ekki verið viðbrigði að fara úr smábíl í fjórhjóladrifinn jeppa. „Svo er hann ekki jafn sparneytinn og það getur alveg verið pakki að fylla tankinn. En það er líka skemmtilegt að vera á aðeins stærri bíl, geta hiklaust farið út fyrir bæjarmörkin í hvaða færð sem er og hafa gott pláss fyrir allan farangur og farþega. Starf tónlistarmannsins kallar t.d. iðulega á að flytja á milli staða hljóðfæri, magnara, hátalara og aðrar græjur og líka að hafa rými fyrir nokkra farþega.“

Spurður hvernig flæði umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu horfir við Breiðhyltingi með tíu ára gamalt ökuskírteini segir Ingi Þór að greinilegt sé að umferðarþunginn hafi aukist og þó að götur Reykjavíkur og nágrennis séu yfirleitt frekar greiðfærar þá gerist það iðulega að umferðin hreyfist mjög hægt í byrjun og lok vinnudags. „Suma dagana getur það tekið klukkutíma að komast úr Listaháskólanum heim í Breiðholtið, en það er skrítið hvar flöskuhálsarnir myndast. Þannig virðist umferðin byrja að þyngjast í kringum Vatnagarðana og út að Húsasmiðjunni í Skútuvogi en svo er eins og að losni allt í einu um hnútinn á nokkur hundruð metrum og umferðin komist aftur á hreyfingu, og er það magnað fyrirbæri.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson