Úkraína Selenskí Úkraínuforseti stendur hér íbygginn á svip á friðarráðstefnunni í Sviss, en tvennum sögum fór af því hvaða árangri hún hefði skilað.
Úkraína Selenskí Úkraínuforseti stendur hér íbygginn á svip á friðarráðstefnunni í Sviss, en tvennum sögum fór af því hvaða árangri hún hefði skilað. — AFP/Alessandro Della Valle
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skiptar skoðanir eru á því hversu vel hafi tekist til með friðarráðstefnuna sem Úkraínumenn héldu í Sviss um helgina. Þar komu saman fulltrúar frá rúmlega níutíu ríkjum og alþjóðastofnunum til þess að ræða friðaráætlun í tíu liðum sem Volodimír…

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Skiptar skoðanir eru á því hversu vel hafi tekist til með friðarráðstefnuna sem Úkraínumenn héldu í Sviss um helgina. Þar komu saman fulltrúar frá rúmlega níutíu ríkjum og alþjóðastofnunum til þess að ræða friðaráætlun í tíu liðum sem Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur sett fram, en Rússum var ekki boðið til ráðstefnunnar.

Selenskí sagði eftir ráðstefnuna að hún hefði verið mjög vel heppnuð, og að hún hefði varðað leiðina að annarri friðarráðstefnu þar sem hægt yrði að binda enda á innrás Rússa í Úkraínu með varanlegu og réttlátu friðarsamkomulagi.

„Rússar og forysta þeirra eru ekki reiðubúin fyrir réttlátan frið,“ sagði Selenskí hins vegar eftir fundinn, en bætti við að friðarviðræður gætu hafist þegar í stað án nokkurra tafa, að því gefnu að Rússar myndu yfirgefa allt það land sem tilheyrir Úkraínu.

Viðurkenni landamærin

Úkraínumenn lögðu sérstaka áherslu á það eftir ráðstefnuna að 82 ríki og alþjóðasamtök hefðu undirritað yfirlýsinguna, og lýstu þar með yfir afdráttarlausum stuðningi sínum við fullveldi og sjálfstæði Úkraínu, sem og hin alþjóðlega viðurkenndu landamæri landsins.

Þá var einnig kveðið á um í yfirlýsingunni að á endanum myndi þurfa friðarviðræður við alla stríðsaðila, á sama tíma og yfirlýsingin forðaðist vandlega að taka fram hvenær þær viðræður ættu eða gætu farið fram.

Í yfirlýsingunni var sérstaklega tekið fram að öll hótun um beitingu kjarnorkuvopna eða notkun þeirra í Úkraínustríðinu væri óheimil og að fæðuöryggi heimsins væri ekki hlutur sem ætti að beita sem vopni í átökunum.

Þá var einnig hvatt til þess að Úkraínumenn og Rússar myndu skiptast á stríðsföngum, sem og að öllum þeim börnum sem Rússar hafa flutt ólöglega til Rússlands yrði skilað.

Vantaði fulltrúa Rússlands

Þegar kom að því að undirrita sameiginlega yfirlýsingu fundarins varð niðurstaðan hins vegar sú, að nokkur af ríkjunum sem sóttu ráðstefnuna neituðu að undirrita hana. Voru stjórnvöld í Indlandi, Mexíkó, Sádi-Arabíu og Suður-Afríku á meðal þeirra sem neituðu að skrifa undir, auk þess sem stjórnvöld í Brasilíu sendu áheyrnarfulltrúa til ráðstefnunnar og kusu að styðja ekki yfirlýsinguna.

Pavan Kapoor, utanríkisráðherra Indlands gagnvart vesturveldunum, sagði í yfirlýsingu eftir fundinn að Indland hefði ekki undirritað yfirlýsinguna þar sem Rússar hefðu ekki haft fulltrúa sinn á ráðstefnunni, og Faisal bin Farhan al Saud, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, tók í sama streng.

Fulltrúi Suður-Afríkumanna á ráðstefnunni sagðist hins vegar ekki geta stutt yfirlýsinguna þar sem Ísraelsmenn hefðu tekið þátt í ráðstefnunni, en ríkin tvö eiga nú í milliríkjadeilu vegna átakanna á Gasasvæðinu.

Þá höfðu stjórnvöld í Kína áður neitað að senda fulltrúa til Sviss, þar sem Rússum hafði ekki verið boðið, og ákváðu Pakistanar, sem eiga í nánum tengslum við Kínverja, sömuleiðis að senda ekki fulltrúa sinn þangað. Selenskí skoraði sérstaklega á Kínverja að taka þátt í því friðarferli sem hleypt hefði verið af stað í Sviss, og beita um leið Rússa þrýstingi til að semja um frið.

Segir árangurinn engan

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði á sunnudaginn eftir ráðstefnuna að Úkraínumenn ættu frekar að íhuga „friðartilboð“ Pútíns, en það fól í sér að Úkraínumenn myndu leggja niður vopn sín og afhenda Rússum þau fjögur héruð sem Rússar innlimuðu með ólöglegum hætti í september 2022.

Sagði Peskov í fyrradag að staðan við víglínuna sýndi „greinilega“ að Úkraínumenn stæðu þar nú höllum fæti og að stjórnmálamenn sem hugsuðu um hag þjóðar sinnar hlytu að íhuga friðarboð.

Bætti Peskov um betur í gær og lýsti því yfir að friðarráðstefna Úkraínumanna hefði farið algjörlega út um þúfur og skilað engum árangri. „Ef við ræðum um niðurstöður þessa fundar, þá eru þær sama sem núll,“ sagði Peskov í gær.

Þá hrósaði hann þeim ríkjum sem hefðu neitað að undirrita yfirlýsingu fundarins, og sagði að mörg ríki hefðu greinilega skilið það að allar viðræður án Rússa gætu ekki talist alvarlegar. Þá sagði hann að Pútín væri enn opinn fyrir „viðræðum og alvarlegum umræðum“, en af orðum hans mátti skilja að þær viðræður gætu bara orðið á grunni þeirra hugmynda sem Pútín setti fram í síðustu viku.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson