Guðmundur Árni Stefánsson
Guðmundur Árni Stefánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans, sem þar var á lista fyrir Samfylkinguna, hefur gengið úr flokknum þar sem hún felli sig ekki við að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarpið sem var samþykkt hinn 14

Herdís Tómasdóttir

herdis@mbl.is

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans, sem þar var á lista fyrir Samfylkinguna, hefur gengið úr flokknum þar sem hún felli sig ekki við að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarpið sem var samþykkt hinn 14. júní. Hún mun áfram sitja í bæjarstjórn.

„Ég hef ekki lengur áhuga á því að hlusta á flokksfélaga mína réttlæta þessa stefnubreytingu og segja mér að hún hafi ekki orðið. En staðan er greinilega sú að það virðist vera orðið of róttækt fyrir Samfylkinguna að tala skýrt fyrir mannréttindum,“ sagði Þorbjörg í yfirlýsingu.

Í færslu á Facebook gagnrýnir hún forystu flokksins fyrir þögn um mannréttindi og fálæti um átök á Gasasvæðinu. Segir Þorbjörg að ræður og ummæli forystunnar um útlendingamál gefi til kynna að aukin þjóðernishyggja ríki í stefnu flokksins.

Vísar gagnrýni á bug

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, vísar gagnrýni Þorbjargar á bug í samtali við Morgunblaðið.

Hann ítrekar að Samfylkingin hafi ávallt í gegnum sögu flokksins staðið fyrir mannréttindum og lýðræði á Íslandi og geri það enn.

„Varðandi afstöðu þingmanna flokksins til útlendingafrumvarpsins þá ber að geta þess að við lögðum fram breytingar við 2. umræðu, meðal annars um fjölskyldusameiningu, sem meirihlutinn felldi,“ segir hann.

„Í frumvarpinu voru atriði til bóta eins og skemmri afgreiðslufrestur við hælisleitendur sem er þeim og íslensku samfélagi til hagsbóta og styðjum við það.“

Guðmundur Árni bætir við að þegar málið allt hafi verið skoðað í heild hafi sú afstaða þingflokksins orðið ofan á að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna frekar en að greiða atkvæði á móti því.

„En kjarni málsins er að Samfylkingin tekur afstöðu til allra mála á þeim forsendum að við ætlum að iðka það sem við segjum og ekki bara vera með upphrópanir og andstöðu verandi í minnihluta, því við erum að búa okkur undir það að taka við landsstjórninni,“ segir Guðmundur Árni.

Hann segir stefnu Samfylkingarinnar í útlendingamálum vera sambærilega við aðra stefnu flokksins.

„Málaflokkurinn er þannig að það þarf að stýra honum, en með mannúð og mildi að leiðarljósi, enda er jafnaðarmannaflokkurinn fjölþjóðlegur flokkur og ætlum við að taka á þessum málaflokki eins og öllum öðrum með þessar forsendur í huga.“

Munu halda sínu striki

Aðspurður hvort hann telji að fleiri muni fylgja fordæmi Þorbjargar segir Guðmundur Árni að það verði að koma í ljós. Hann ítrekar þó að ósætti um einstök málefni innan flokksins sé eðlilegt.

Guðmundur Árni segir eftirsjá að Þorbjörgu en að Samfylkingin muni halda sínu striki áfram og segir hann sátt ríkja innan grasrótarinnar varðandi stefnu flokksins og forystu hans.

„Við höfum núna mælst í eitt og hálft ár sem langstærsti flokkurinn á Íslandi í skoðanakönnunum, og það hafa verið lífleg og virk skoðanaskipti í flokknum,“ segir Guðmundur Árni. Hann bætir við að flokksmenn verði aldrei alltaf sammála um öll mál, en að það sem skipti umfram allt mestu sé að Samfylkingin er „á blússandi ferð“ og stefnan sé að halda henni áfram.

Ekki náðist í Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, í gær.

Höf.: Herdís Tómasdóttir