Framþróun Viðbúið er að framleiðsla breytist með gervigreind. Stíga verður varlega til jarðar í reglusetningu.
Framþróun Viðbúið er að framleiðsla breytist með gervigreind. Stíga verður varlega til jarðar í reglusetningu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Óhætt er að segja að þær tækniframfarir sem nú eiga sér stað á sviði gervigreindar muni gjörbylta miklu í samfélagi okkar á komandi árum. Nú þegar hafa stærstu tækniframleiðendur heims boðað mikla framþróun með tilkomu gervigreindar, óháð því hvort…

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Óhætt er að segja að þær tækniframfarir sem nú eiga sér stað á sviði gervigreindar muni gjörbylta miklu í samfélagi okkar á komandi árum. Nú þegar hafa stærstu tækniframleiðendur heims boðað mikla framþróun með tilkomu gervigreindar, óháð því hvort þeir framleiði hana sjálfir eða feli öðrum að framleiða hana fyrir sig.

Ólafur Andri Ragnarsson, tölvunarfræðingur og aðjunkt við Háskólann í Reykjavík, segir persónulegri og notendamiðaðri gervigreind, líkt og þá sem tölvurisinn Apple kynnti nýverið til leiks, vera merkileg tímamót. Tæknin sé þó enn í frumbernsku sinni og því aðeins byrjunin á mun umfangsmeiri breytingum.

„Hægt er að horfa á tæknibyltingar út frá svokölluðu tveggja fasa lögmáli. Í fyrri fasanum sprettur fram fjöldi misgagnlegra lausna og erfitt er að greina hvað raunverulega skiptir máli. Dæmi um það var þegar Apple opnaði App Store árið 2008 og bauð hverjum sem var að senda inn app til að selja í versluninni. Þá kom fram flóðbylgja af öppum sem mörg hver voru frekar gagnslaus og oft undir áhrifum ríkjandi tækni. Í seinni fasa koma síðan alvöru lausnir sem breyta heiminum. Þangað til þarf að setja fullt af fjármagni í fullt af fyrirtækjum til að sjá hvað virkar. Fyrstu gervigreindarlausnirnar eiga því e.t.v. eftir að verða fáránlegar, rétt eins og fyrstu öppin voru mörg hver fáránleg á sínum tíma. En með tímanum munu lausnirnar sem gera mikið gagn skila sér,“ segir Ólafur í samtali við Morgunblaðið.

Fyrirtæki móti sér stefnu

Hann segir ótrúlegt hve mikil tækifæri felist í tækninni fyrir fyrirtæki og því sé mikilvægt að þau móti sér langtímastefnu í þeim málum. Annars sé hætta á að þau staðni.

„Sögulega séð eiga rótgróin fyrirtæki sem byggja á eldri tækni oft erfitt með að tileinka sér þá nýju og þann hugsunarhátt sem þarf til að búa hana til. Tækninýjungum fylgir gjarnan mikil hagnaðartilfærsla og því er viðbúið að slíkt gerist nú með gervigreind. Það er ljóst að ekki muni allir lifa af þessar breytingar.“

Tæknin gagnast öllum

Ólafur segir helsta ávinning tækninnar til skamms tíma þó tvímælalaust vera í þágu hins almenna starfsmanns.

„Óarðbær störf hverfa en arðbærari koma í staðinn. Auk þess má hafa í huga að tæknibreytingar eiga það til að skapa mun meiri verðmæti en þær útrýma og oft á sviðum sem enginn sá fyrir. Flestir munu því sjálfir átta sig á hvernig best sé að aðlagast gervigreindinni og beita henni eftir sínu eigin nefi.“

Reglurnar drepi ekki tæknina

Þó að tækninni fylgi vissulega áskoranir telur Ólafur að stíga verði varlega til jarðar í reglusetningu. Of þungt regluverk geri fátt annað en að kæfa nýsköpun.

Hann tekur sem dæmi að ef nútímaöryggisreglur sem gilda í flugsamgöngum hefðu verið settar þegar fyrstu flugvélarnar komu fram væru líklega engar flugvélar til í dag.

„Reglurnar þurfa að taka á einhverju sem er augljóst og svo bætist meira við síðar. Hagsmunaaðilar ríkjandi skipulags eiga það til að líta á nýja tækni sem hættulega og koma því með allskyns rök til að stoppa hana,“ segir Ólafur að lokum.

Byltingarkennd tækni

Mikill ávinningur í þágu fyrirtækja sem og almennra starfsmanna.

Breytt tækni eykur skilvirkni og skapar verðmæti í öllum geirum.

Hagnaður sem hverfur á einum stað vegna tæknibreytinga færist í önnur form, oft í meira magni.

Áskoranir fylgja.

Höf.: Sveinn Valfells