Í 80 ár hefur Ísland verið frjálst og fullvalda ríki. Þrátt fyrir smæð okkar hefur þessi staðreynd endurspeglast í stöðu okkar á alþjóðavettvangi. Örfáum árum eftir stofnun lýðveldisins urðum við aðilar að Sameinuðu þjóðunum og eitt af stofnríkjum NATO. Við erum í norrænu samstarfi, aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Schengen-samstarfinu og EES-samningnum, svo dæmi séu tekin.
Við stöndum ekki utan við þessi alþjóðlegu samtök sem við þó hæglega gætum. Við viljum vera fullgildir þátttakendur á vettvangi þessa samstarfs og bræðralags sem hefur mikil áhrif á hagsmuni okkar og framtíð. Af sömu ástæðu ættum við að vera hluti af Evrópusambandinu og standa þar jafnfætis þeim sjálfstæðu og fullvalda þjóðum sem sjá hagsmunum sínum best borgið þar.
Með EES-samningnum erum við þegar komin með annan fótinn inn í Evrópusambandið. Það sem eftir stendur eru raunverulega fyrst og fremst þau lýðræðislegu áhrif sem við myndum njóta með inngöngu. Þeir sem eru mótfallnir því að íslenskur almenningur fái að kjósa um aðildina hafa reynt að leggja áherslu á áhrifaleysi smærri þjóða í alþjóðasamstarfi. Mér finnst þetta stórmerkilegt. Evrópusambandið stendur nefnilega flestum öðrum alþjóðasamtökum framar í því að tryggja áhrif lítilla þjóða.
Á Evrópuþinginu eru starfandi flokkabandalög svipaðra flokka. Við í Viðreisn erum t.d. í samstarfi frjálslyndra flokka. Sósíaldemókratar hafa sitt flokkabandalag, hægri flokkar líka sem og vinstri flokkar og þannig mætti áfram telja. Í þessum flokkahópum liggur hið eiginlega samstarf, hin eiginlega pólitík og hin eiginlegu áhrif innan Evrópusambandsins. Í ákveðnum málum hafa einstaka þjóðir líka skipað sér í fylkingar rétt eins og í öðrum alþjóðasamtökum.
Svarið við spurningunni um hver hagnist mest á inngöngu Íslands í Evrópusambandið er augljóst. Það er íslensk þjóð. Íslensk heimili munu njóta góðs af gengisstöðugleikanum og langþráðri vaxtalækkun sem fylgir upptöku evrunnar. Það sama á við um þau fyrirtæki sem eru föst í krónuhagkerfinu; flest lítil og meðalstór fyrirtæki landsins, hryggjarstykkið í atvinnulífinu okkar. Að auki munum við öll njóta góðs af lýðræðislegum áhrifum okkar á löggjöf Evrópusambandsins sem við innleiðum þegar að mestu leyti í gegnum EES-samninginn.
Við höfum sýnt og sannað með framgöngu okkar í öðru alþjóðasamstarfi að við höfum áhrif. Bæði okkur sjálfum til heilla og þeim samtökum sem við erum þátttakendur í. Það er löngu kominn tími til þess að íslensk þjóð fái að greiða atkvæði um það hvort gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Viðreisn treystir þjóðinni til þess að taka þá ákvörðun.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is