Ísrael Netanjahú forsætisráðherra leysti upp þjóðstjórnina í gær.
Ísrael Netanjahú forsætisráðherra leysti upp þjóðstjórnina í gær. — AFP/Jack Guez
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ákvað í gær að leysa upp þjóðstjórn landsins. Var ákvörðunin tekin í kjölfar þess að stjórnarandstæðingarnir Benny Gantz og Gadi Eisenkot sögðu sig úr stjórninni í síðustu viku

Egill Aaron Ægisson

egillaaron@mbl.is

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ákvað í gær að leysa upp þjóðstjórn landsins. Var ákvörðunin tekin í kjölfar þess að stjórnarandstæðingarnir Benny Gantz og Gadi Eisenkot sögðu sig úr stjórninni í síðustu viku.

Gantz, sem oft er talinn vera einn öflugasti pólitíski andstæðingur Netanjahús, tilkynnti að ákvörðunin um að hætta í þjóðstjórninni hefði verið sársaukafull. Sagði hann ástæðu úrsagnar sinnar vera þá hversu illa Netanjahú hefði gengið við að móta stefnu fyrir átökin á Gasasvæðinu og fyrir framtíðarstjórn á svæðinu.

Sakaði hann þá Netanjahú um að hafa sett persónuleg og pólitísk sjónarmið sín fram yfir áætlanir um Gasasvæðið eftir stríð og fullyrti Gantz að stefnumótandi ákvörðunum hefði verið mætt með vafa og frestunum frá forsætisráðherranum vegna pólitískra sjónarmiða hans.

Sagði Gantz forsætisráðherrann koma í veg fyrir sigur í stríðinu á Gasasvæðinu og hvatti hann Netanjahú til að boða til kosninga á næstu mánuðum.

Þjóðstjórnin var mynduð fimm dögum eftir að stríðið á milli Ísraels og Hamas-samtakanna í Palestínu hófst.

Auk Netanjahús, Gantz og Eisenkots áttu Yoav Gallant varnarmálaráðherra, Aryeh Deri og Ron Dermer sæti í þjóðstjórninni.

Breska ríkisútvarpið greindi frá því í gær að viðkvæm mál tengd stríðsrekstrinum yrðu nú rædd á enn minni vettvangi.

Talsmaður ísraelska hersins sagði að málið myndi ekki hafa áhrif á stjórnkerfi hersins.

Höf.: Egill Aaron Ægisson