Forsætisráðherra Litháen Ingrida Šimonyte, fundaði meðal annars með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra.
Forsætisráðherra Litháen Ingrida Šimonyte, fundaði meðal annars með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. — Ljósmynd/Ríkisstjórn Litháen/Laima Penek
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það var mjög áhugaverð hugmynd að koma í þessa heimsókn til Íslands á nákvæmlega þessum degi, vitandi hversu mikilvægur hann er fyrir Ísland og hversu mikilvægt Ísland er okkur,“ segir Ingrida Šimonyte, forsætisráðherra Litháen, í samtali við Morgunblaðið á þjóðhátíðardaginn

Viðtal

Ellen Geirsdóttir Håkansson

ellen@mbl.is

„Það var mjög áhugaverð hugmynd að koma í þessa heimsókn til Íslands á nákvæmlega þessum degi, vitandi hversu mikilvægur hann er fyrir Ísland og hversu mikilvægt Ísland er okkur,“ segir Ingrida Šimonyte, forsætisráðherra Litháen, í samtali við Morgunblaðið á þjóðhátíðardaginn. Hún segir Litháa enn þakkláta íslensku þjóðinni fyrir sjálfstæðisviðurkenninguna, áratugum síðar.

„Þegar við fengum sjálfstæði aftur árið 1990 var Ísland fyrsta landið sem viðurkenndi okkur sem sjálfstætt ríki sem væri fullvalda og tilheyrði alþjóðasamfélaginu. Við eigum mjög sérstakt samband við Ísland og Íslendinga. Það eru ekki aðeins Íslendingar sem halda upp á þjóðhátíðardaginn heldur höldum við líka upp á hann í Litháen, eigum sérstakan dag og köllum hann „Takk Ísland“, þar sem fólk minnist þessa merka viðburðar í okkar sögu. Fólk hittist og þakkar Íslandi fyrir þessa sögulegu ákvörðun sem var tekin fyrir meira en þrjátíu árum og þess vegna finnst mér mjög táknrænt að geta komið og verið með í hátíðarhöldunum á svo mikilvægum degi fyrir þjóðina,“ segir Šimonyte, augljóslega hæstánægð með tímasetningu heimsóknar sinnar.

Mikilvægt að standa saman

Þegar samstarfi og samvinnu smárra þjóða og mikilvægi þess er velt upp segist hún vera mikill talsmaður þess og hafi síðast imprað á þeim skilaboðum á ráðstefnu í Singapúr á dögunum.

„Mín helstu skilaboð voru að smáríki skipti máli. Við erum lönd, við erum ríki, sem getum ekki þröngvað okkar skilningi á heiminum eða lífinu upp á aðra með afli eins og stærri lönd gera stundum. Mikilvægustu burðarstoðirnar til þess að smá ríki geti blómstrað eru alþjóðalög, og að alþjóðalög og samþykktirnar sem hafa búið til þær skorður sem farið er eftir séu virt. Sérstaklega varðandi það að landamæri séu ekki endurteiknuð vegna séróska einhvers eða mismunandi skilnings á því hvað tilheyri hverjum. Virðing gagnvart alþjóðlegum siðum og burðarstoðum er mjög mikilvæg fyrir lítil ríki vegna þess að það er aukaöryggisnet fyrir smáríki, það er ástæðan fyrir því að smáríki, með tilliti til þess að þau eru í meirihluta í heiminum, ættu að vinna saman að því að koma þessum skilaboðum til skila. Að styðja alþjóðalög, styðja alþjóðlega samninga og samþykktir sem eru grunnur okkar venja og mótmæla hugmyndum sumra landa um það að þau geti breytt þessum venjum einfaldlega af því að þau vilji það. Af því að þau hafi sinn skilning á því hvað sé rétt eða rangt, eða þeirra. Þessi hegðun er hættuleg fyrir smáríki og það er ástæða þess að við ættum að standa saman og vinna saman og þegar við tölum einu máli þá heyrist rödd okkar hærra,“ segir Šimonyte.

Lítil viðbrögð hafi gert Pútín djarfari

Spurð hvernig Litháen sjái fyrir sér framhaldið í breyttu ástandi Evrópu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu segir hún fólk hafa, að einhverju leyti, búist við því sem varð. Alþjóðasamfélagið hafi ekki brugðist nógu sterkt við fyrri innrásum Pútíns og með því gert hann djarfari.

„Núna erum við að eiga við allsherjarinnrás þar sem Pútín er í raun að reyna að eyða úkraínskri sjálfsmynd af yfirborði jarðar,“ segir Šimonyte og bætir við að það sé að einhverju leyti niðurstaða þess að lýðræðisríki hafi ekki brugðist nógu snöggt og sterkt við áður. „Auðvitað erum við nú í þeirri stöðu að það er okkar skylda að hjálpa Úkraínu að ýta á móti og verja grunnstoðir alþjóðalaga. Okkar mat á stöðunni er það að ef við gerum það ekki þá hættir þetta einfaldlega ekki. Ef Pútín finnur fyrir hvatningu til þess að ganga lengra að þá, eins og hann sagði sjálfur, hefur Rússland engin landamæri.“

Forsætisráðherrann segir það búa til hættulegt umhverfi að Rússland komist upp með að segja að eitthvað tilheyri sér án þess að nokkurt samkomulag um það liggi fyrir hjá þeim ríkjum sem eiga í hlut.

„Þess vegna erum við miklir stuðningsmenn Úkraínu ekki bara þegar kemur að praktískum atriðum eins og fjármagni, því okkar framlag er eitt það hæsta þegar kemur að her- og mannúðaraðstoð. Svo erum við miklir stuðningsmenn annarra vina, samstarfsmanna og bandalagsþjóða sem vilja gera hvað sem þarf til þess að Úkraína vinni þetta stríð því annars, því miður, tel ég að það sé ekki grundvöllur fyrir því að það myndist langvarandi friður í Evrópu,“ segir Šimonyte.

Innviðir eyðilagðir fyrir það eitt að vilja evrópska framtíð

Šimonyte segir gott tvíhliða samstarf einmitt ríkja á milli Litháen og Íslands og Norðurlandanna almennt. Gildi þjóðanna séu svipuð og þær sammála um margt sem skipti máli. Þá hafi norrænu þjóðirnar aðstoðað Litháen svo um munaði þegar ríkið hafi þurft að byggja sig upp á ný.

Spurð hver skilaboð hennar til annarra leiðtoga í Evrópu séu á þessum erfiðu tímum segir hún Úkraínu koma öllum við, önnur ríki geti ekki farið að sofna á verðinum.

„Við höfum engan rétt til þess að segja að við séum þreytt, við höfum engan rétt til þess að segja að þetta komi okkur ekki við. Allt sem er að gerast í Úkraínu kemur okkur við og við getum ekki farið að þreytast því fólk er að berjast og deyja á hverjum degi. Innviðirnir þeirra og lifnaðarhættir eru eyðilagðir, bara fyrir það eitt að vilja evrópska framtíð fyrir þjóð sína. Það má ekki þolast, það má ekki gleymast eða vera vanmetið. Það er okkar siðferðislega skylda,“ segir Šimonyte.

„Ef við ætlum að fara eftir því sem við segjum og við tölum fyrir, grunngildunum sem evrópskt samfélag er byggt á, málfrelsi, mannlegri reisn, sjálfstæðum dómstólum og frjálsum kosningum, einkaeign. Öllu sem okkur þykir búa til okkar umhverfi, þar sem við lifum, blómstrum og sköpum okkar velferð, eitthvað sem er okkur kært. Ef einhver vill aðhyllast sömu gildi og vill vera meðlimur í sömu fjölskyldu og við má ekki refsa honum fyrir það. Það er okkar siðferðislega skylda að styðja landið sem er að berjast í þessu stríði fyrir eigin fullveldi, sjálfstæði og eigin tilvist á þessari jörð,“ segir Šimonyte að lokum.

Höf.: Ellen Geirsdóttir Håkansson