— Morgunblaðið/Eyþór
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lagði blómsveig að minnisvarða Jón Sigurðssonar á Austurvelli á 80 ára afmæli lýðveldisins í gær. Að venju hófst þjóðhátíðardagurinn með hátíðarathöfn á Austurvelli í gær með ávarpi forseta

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lagði blómsveig að minnisvarða Jón Sigurðssonar á Austurvelli á 80 ára afmæli lýðveldisins í gær. Að venju hófst þjóðhátíðardagurinn með hátíðarathöfn á Austurvelli í gær með ávarpi forseta. Er þetta í síðasta sinn sem Guðni tekur þátt í athöfninni sem forseti, en hann lætur af embætti hinn 1. ágúst.

„Hjartanlega til hamingju með afmælið. Í dag fögnum við því að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis hér á landi. 17. júní kom stór hluti þjóðarinnar saman á Þingvöllum þar sem hið stóra skref var loksins stigið,“ sagði Guðni m.a. í ávarpi sínu. „Æ síðan höfum við stefnt að því að efla og styrkja okkar samfélag, veita öllum tækifæri til að sýna hvað í þeim býr, sjálfum sér og öðrum til heilla. Því skulum við halda áfram,“ bætti hann við.

„Njótið dagsins, kæru landar, og ég þakka innilega fyrir samfylgdina síðustu átta ár. Gangi ykkur og Íslandi allt í haginn,“ sagði Guðni í lok kveðju sinnar til íslenskrar þjóðar af Austurvelli. » 2, 4, 6 og 8