Karl 3. Bretakonungur og Kamilla Bretadrottning afhentu í gær sokkabandsorðuna við hátíðlega athöfn í Windsor-kastala, en orðan er æðsta og jafnframt elsta heiðursmerki Bretlands.
Orðan var stofnuð árið 1348 af Játvarði 3. Englandskonungi, en samkvæmt hefð mega einungis þjóðhöfðingi Bretlands, ríkisarfi hans og 24 aðrir einstaklingar bera orðuna á sama tíma sem fullgildir meðlimir orðunnar. Er efnt til hátíðarhalda í júní á hverju ári, þar sem nýir meðlimir eru kynntir til sögunnar, og lýkur athöfninni með því að konungshjónin halda á brott í glæsilegum hestvagni.
Vilhjálmur, prinsinn af Wales, tók nú þátt í fyrsta sinn sem ríkisarfi, en auk þess var tónskáldið og lávarðurinn Andrew Lloyd Webber sæmdur sokkabandsorðunni í fyrsta sinn.