Tryggvi V. Líndal
Nú þegar forsetakosningarnar eru afstaðnar þykir mér ein staðreynd blasa við: Karlar jafnt sem konur virðast unnvörpum hafa verið viljug til að kjósa kvenframbjóðendur almennt til þessa embættis. Virðist stóra myndbirting þess vera sú, að þrír efstu frambjóðendurnir í lokin voru konur og því útilokað að flestir karlarnir hafi ekki kosið konur!
Karlar kjósa konur unnvörpum
Hvaða ályktun má draga af þessu í alþjóðaskilningi? Hún virðist vera sú, að líklega í fyrsta sinn í sögu mannkyns hafi karlar unnvörpum sæst á að kjósa yfir sig konur á þeim forsendum helstum, að kynið væri í raun ekki það sem skipti úrslitamáli, heldur allt hitt; samblandið af menntun, hæfileikum, persónutöfrum, reynslu o.fl.
Að vísu hafa sumir karlar sagt mér, að kominn hefði þótt vera tími til að kjósa konu í þetta embætti – þó ekki væri nema svo sem í þriðja hvert skipti – af því að það þætti fallegt, fínt og elskulegt til afspurnar! En slík nálægð við hin hefðbundnu kynhlutverk virðist ekki skýra þann mikla fylgismun, heldur frekar sú skýring að karlar og konur hafi sameinast um að hætta að láta karlkyns frambjóðendurna njóta þess að teljast sjálfkrafa trúverðugasta kynið til að leiða æðstu þjóðfélagsstöðurnar almennt, ef almenningur fær að ráða!
Framgangur kvenna stórtækur
Þetta er þá einstakur árangur fyrir Ísland; er líffræðilega kynið hættir að verða undirstöðuforsenda í pólitík!
Það virðist, líkt og í nágrannalöndunum, hafa átt sér undanfara í yfirtöku kvenna að höfðatölu í kennslu og námi og fjölgun þeirra á menntasviðum, í fjölmiðlasýnileika, stjórnmálum, upplýsingaþjónustu, bókmenntum og listum.
Vera má að Ísland njóti hér þess að það hefur fyrst og fremst verið einangrað smáríki íbúa sem eru meira og minna blóðskyldir og að slíkt stórfjölskyldusamfélag eigi því auðveldara með að sameinast um aðalatriði, svo sem þegar hefur orðið í kynjajafnréttismálum, á heimsmælikvarða?
Það gæti því orðið hlutverk okkar kvenforseta að færa Ísland að þessu leyti upp í skýin á meðal lýðræðisþjóða heims.
Mér þykir því táknrænt og við hæfi að minnast þess hér, að þegar í goðafræðinni okkar gömlu átti konan að fá að vera gyðja sjálfrar sólarinnar; Sunna. En í ljóði mínu, sem nefnist Samdrátturinn himneski, segir um þau tildrög í Snorra-Eddu, í upphafi ljóðsins:
Það er ótækt, sagði Óðinn
að stjórna ekki gangi himintungla!
Ég vil því biðja þig, Sunna mennska,
að taka nú sólina að þér;
og draga aftan í vagni
yfir himinhvolfið!
Og þú þarft ekki að óttast
eftirrekstrarúlfinn augngula!
Og færð svo yngingarepli guðanna
frá okkur Iðunni!
Höfundur er skáld og menningarmannfræðingur.