Helgi Snær Sigurðsson
Það er hverjum manni hollt að játa mistök sín og gjarnan mættu fleiri gera það. Atli Fannar Bjarkason gerði skemmtilega útvarpsþáttaröð fyrir RÚV, Sorrí!, sem gengur einmitt út á að játa mistök sín og biðjast afsökunar. Enskur er titillinn og ástæðan eflaust sú að fólk á auðveldara með að segja sorrí en fyrirgefðu.
Um þættina segir á vef RÚV að fyrir 20 árum hafi Atli Fannar látið sig dreyma um að starfa á fjölmiðlum og m.a. skrifað í dagblöð, ritstýrt tímaritinu Monitor, komið fram í útvarpi og sjónvarpi og líka stofnað fjölmiðil. „Draumurinn rættist sem sagt en þegar hann horfir til baka sér hann að á þessum tíma hafi hann oft verið með bölvuð leiðindi við fólk sem átti það ekkert endilega skilið. Í þessum þáttum hittir hann þetta fólk og leggur spilin á borðið,“ segir á vef RÚV um þættina.
Atli er hugmyndaríkur og í Sorrí! fær hann til sín fólk sem hann telur að eigi inni hjá sér afsökunarbeiðni. Einn gesta er Friðrik Ómar, söngvari og útvarpsmaður, en Atli skrifaði neikvæðan og yfirlætisfullan dóm um plötu sem Friðrik gaf út fyrir 17 árum. Friðrik getur sem betur fer hlegið með Atla að þessum skrifum í dag og viðurkennt eigin dónaskap. Einföld og falleg hugmynd að þáttum.