Ökunámið kostar í dag um og yfir 300.000 kr. og skiptist í þrjá hluta. Í síðasta hlutanum æfa nemendur m.a. akstur með skert veggrip.
Ökunámið kostar í dag um og yfir 300.000 kr. og skiptist í þrjá hluta. Í síðasta hlutanum æfa nemendur m.a. akstur með skert veggrip. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það virðist vera nóg að gera hjá ökuskólum landsins og mikil eftirspurn eftir ökuréttindum af öllu tagi. Þróunin hefur þó verið í þá átt að lengja og dýpka ökunámið með meira kennsluefni og meiri verklegri þjálfun, en á móti kemur að aldrei hefur verið auðveldara að stunda ökunámið í fjarnámi

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það virðist vera nóg að gera hjá ökuskólum landsins og mikil eftirspurn eftir ökuréttindum af öllu tagi. Þróunin hefur þó verið í þá átt að lengja og dýpka ökunámið með meira kennsluefni og meiri verklegri þjálfun, en á móti kemur að aldrei hefur verið auðveldara að stunda ökunámið í fjarnámi.

Björn Lúðvíksson er ökukennari og skólastjóri Ökuskólans í Mjódd (www.bilprof.is) og segir hann mega greina þá þróun að unga fólkið kjósi að hefja ökunámið ögn seinna. „Það er ekki óalgengt að þau komi til okkar 17 og jafnvel 18 ára gömul, og ein sennileg skýring er að það getur verið allstór biti fyrir ungmenni að borga fyrir námið og má reikna með að pakkinn kosti um 300.000 kr. og upp úr,“ útskýrir Björn.

Hann segir að vitaskuld séu enn margir sem leggi mikið upp úr því að fá bílprófið eins snemma og mögulegt er og vilja helst fá ökuskírteinið afhent á 17 ára afmælisdaginn. „En þeim virðist samt fara fækkandi sem kalla mætti bíladellufólk. Á móti kemur að þeir sem eru með áhuga á bílum eru með þeim mun sterkari bíladellu.“

Þá fer þeim fjölgandi sem vilja læra á sjálfskiptan bíl frekar en beinskiptan, og læra á rafmagnsbíl frekar en hefðbundinn bensínbíl. Frá árinu 2017 hafa nemendur átt þess kost að taka próf á sjálfskipta bifreið en þá eru ökuréttindin takmörkuð við þá gerð bifreiða og kemur það fram á ökuskírteininu. „Þessi hópur fer stækkandi en er þó varla orðinn stærri en 10% af heildinni, og þá frekar elstu nemendurnir sem hugnast þessi kostur,“ segir Björn.

Ekki komin reynsla af breyttu skriflegu prófi

Ágætt er að rifja upp að ökuréttindum er skipt í nokkra yfir- og undirflokka og veitir hefðbundið bílpróf svokölluð B-réttindi og leyfir fólki að aka bifreið sem er minna en 3.500 kg að heildarþyngd og gerð fyrir 8 farþega eða færri, með eftirvagn allt að 750 kg að þyngd. Þá má með B-réttindum líka aka bifhjóli á fjórum hjólum, léttu bifhjóli með vélastærð undir 50cc, stærra bifhjóli á þremur hjólum, dráttarvél, vinnuvél og torfærutækjum á borð við vélsleða.

Námið skiptist í dag í þrjá hluta, Ökuskóla 1, 2 og 3. „Ökuskóli 1 felur í sér undirbúning fyrir æfingaleyfi og útheimtir 10 verklega ökutíma. Í Ökuskóla 2 er megináherslan á undirbúning fyrir bóklegt próf og bætast þar við 5 tímar með ökukennara. Loks er Ökuskóli 3 sem bæði byggir á bóklegu og verklegu námi og er þá m.a. farið í svokallað ökugerði þar sem herma má eftir aðstæðum sem skerða veggrip,“ útskýrir Björn.

Nýlega var gerð áhugaverð breyting á skriflega prófinu og segir Björn of snemmt að segja til um hvort breytingin geri prófið erfiðara eða léttara. „Gamla prófið byggðist á krossaspurningum með mörgum valmöguleikum en núna er prófið samið þannig að nemandinn les fullyrðingu og þarf að svara hvort hún er rétt eða röng. Verklega prófið er áfram með sama sniði og tekur um 30 til 40 mínútur að jafnaði þar sem ekið er í almennri umferð.“

Allur meiraprófspakkinn tekur nærri 130 stundir

Meiraprófið skiptist í nokkra flokka en Björn segir flesta velja að taka allan pakkann enda hagkvæmara en að taka hvern flokk fyrir sig, og getur fólk þá ekið bæði fólks- og sendibifreið í atvinnuskyni, ekið pallbíl og minni vörubíl, stærri vörubíl og vagni, lítilli rútu og vagni og stórri rútu. Í dag kostar allur pakkinn um 750.000 kr. hjá Ökuskólanum í Mjódd en að auki þarf að borga fyrir verklega prófið sem fer fram hjá Frumherja.

Kostnaðurinn skýrist af því að bæði er bóklega námið mun ítarlegra en í almenna ökunáminu og verklegu kennslutímarnir fleiri: „Samtals er bóklega námið 104 kennslustundir og verklegu tímarnir eru um 24 talsins ef fólk tekur alla réttindaflokkana,“ útskýrir Björn.

Ásóknin í meirapróf sveiflast í takt við hagkerfið og segir Björn svo marga vilja fá aukin ökuréttindi í dag að flöskuháls hafi myndast hjá Frumherja og vöntun sé á fleiri prófdómurum. Uppgangur er í framkvæmdum, flutningum og ferðaþjónustu og því virðist næga vinnu að fá fyrir fólk sem hefur réttindi til að aka rútu eða vörubifreið. „Íslenska meiraprófið er samevrópskt og veitir fólki því réttindi sem má nota í öðrum Evrópulöndum, og þess vegna að nemandi frá okkur getur ekið farþegum í rútu frá Íslandi til Tyrklands.“

Athygli vekur að fólk af erlendum uppruna er áberandi í hópi þeirra sem vilja fá aukin ökuréttindi en hjá Birni er boðið upp á kennslu á bæði pólsku og ensku. „Oftast nær getur fólk síðan leitað til síns stéttarfélags til að standa straum af stórum hluta námsins og ræðst upphæðin þá af því hve miklum réttindum fólk hefur safnað upp hjá stéttarfélaginu.“

Hafa þarf í huga að nú er gerð rík krafa um endurmenntun fólks sem stundar akstur í atvinnuskyni. „Á fimm ára fresti þarf fólk að sitja fimm tíma nám sem samanstendur af kjarna- og valfögum. Ef fólk vanrækir þessa endurmenntunarkröfu heldur það ökuréttindunum en missir atvinnuréttindin.“

Áhugi á mótorhjólum í hámarki

Sumarið er líka sá tími sem margir finna sterklega fyrir einkennum mótorhjólabakteríunnar og annríki hjá þeim ökukennurum sem sérhæfa sig í bifhjólakennslu. „Ég tók mér hlé frá mótorhjólakennslu fyrir nokkuð löngu en fæ samt oft símtöl frá fólki sem vill athuga hvort ég sé með laust pláss. Miðað við hve oft síminn hringir núna sýnist mér eftirspurn eftir mótorhjólaréttindum með mesta móti,“ segir Björn og bætir við að flestum þyki það nokkuð viðráðanlegt að fá réttindi til að aka mótorhjóli. Þeir sem hafa þegar B-skírteini þurfa samt sem áður að sitja bæði bóklega og verklega tíma og þreyta bæði skriflegt og verklegt próf, en í heildina má fólk reikna með að það kosti um og yfir 200.000 kr. að fá mótorhjólaréttindin.

Höf.: Ásgeir Ingvarsson