„Það þurfti kjark og óbilandi trú á framtíðarmöguleika íslensku þjóðarinnar til að berjast fyrir fullveldinu og stofnun lýðveldis í framhaldinu,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í hátíðarræðu sinni í tilefni þjóðhátíðardagsins á Austurvelli í gær.
„Það er sannarlega tilefni til að gleðjast á þessum tímamótum þegar við fögnum 80 árum frá stofnun lýðveldisins þann 17. júní 1944, á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar.“
Í ræðu sinni sagði Bjarni lýðveldissögu Íslands hafi einkennst af stórtækum framförum á öllum sviðum. Hann sagði drifkrafta framfaranna hafa verið sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, lýðræði, frelsi til orðs og æðis, menntun, sjálfbær nýting auðlinda, alþjóðasamvinna og friður í heimalandi.
Enn fremur sagði Bjarni lýðræði vera sverð og skjöld þjóðarinnar gegn ytri og innri ógn.
„Tökum höndum saman um að viðhalda og verja ávallt getuna til að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Gætum þess einnig að láta ekki ólík viðhorf og nýjar áskoranir jafnvel draga úr okkur kjarkinn til frjálsra skoðanaskipta og til að taka ákvarðanir fyrir framtíðina.“
„Það fyllir okkur stolti að líta um farinn veg, huga að öllu því sem þjóðin hefur áorkað á 80 árum. Við skulum gleðjast og við skulum fagna. Á morgun heldur starf okkar allra áfram við að gera enn betur fyrir framtíðarkynslóðir. Ég óska okkur öllum til hamingju með 80 ára afmælið,“ sagði Bjarni að lokum.