Vigdís Jónsdóttir fæddist 16. júlí 1926 á Nýlendugötu 19 í Reykjavík. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 4. júní 2024.

Foreldrar Vigdísar voru Jens Jón Sumarliðason, f. á Jaðri í Bolungarvík 26. júní 1896, starfandi sjómaður í Hafnarfirði og Guðrún Ólafsdóttir, húsmóðir í Hafnarfirði, f. á Þórisstöðum í Grímsnesi 15. nóvember 1900.

Vigdís ólst upp í Reykjavík fyrstu árin en síðar fluttist fjölskyldan til Hafnarfjarðar og reisti húsið við Suðurgötu 56. Systkinin voru sex og var Vigdís önnur í röðinni. Systkinin eru: Laufey, f. 21. maí 1924, d. 19. desember 2013, gift Páli Guðmundi Hannessyni. Ólafur, f. 3.10. 1927, d. 14.3. 1992, giftur Sesselíu Sófaníasdóttur. Anton Helgi, f. 26.4. 1930, d. 30.3. 2022, giftur Maríu Gunnarsdóttur. Vilhjálmur Kjartan, f. 12.5. 1933, d. 29.8. 1940. Ragnhildur, f. 9.8. 1935, gift Jónatani Þórissyni. Nafni Vilhjálms, sonur Laufeyjar, bættist í systkinahópinn en hann var kjörsonur Jóns og Guðrúnar.

Vigdís gekk í Kaþólska barnaskólann í Hafnarfirði og síðar í Flensborgarskóla. Síðar átti hún eftir að fara í Húsmæðraskólann í Reykjavík og læra snyrtifræði í París. Vigdís starfaði lengst af á Símstöðinni í Hafnarfirði, sem síðar varð Póstur og sími. Hún gekk í hjónaband með Gunnlaugi Skaftasyni, f. 23. september 1930, í Hafnarfjarðarkirkju. Þau bjuggu fyrstu árin við Álfaskeið í Hafnarfirði og eftir það við Reynilund 3 í Garðabæ. Síðustu æviár sín dvaldi Vigdís á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Vigdísar fer fram í Hafnarfjarðarkirkju þriðjudaginn 18. júní kl. 13.

Elsku Dísan okkar er farin í sumarlandið og ég er strax farin að sakna hennar.

Hún hefur alltaf verið stór partur af mínu lífi, enda þær mamma miklar vinkonur.

Mamma var mikið á Suðurgötunni fyrstu árin mín þannig að þar var ég alin upp af þrem flottum konum, ömmu, Dísu og mömmu. Öll jól, allir páskar, afmæli, já ef eitthvað var um að vera þá var Dísa með okkur. Við áttum hana og hún okkur. Þegar hún svo kynntist Gulla varð hann líka partur af fjölskyldunni enda mikill barnakarl.

Á fullorðinsárum flutti ég svo í Garðabæinn og naut þess að búa í næsta nágrenni við Dísu í 30 ár. Þar áttum við góðar stundir saman, bæði í göngum eða yfir góðum kaffibolla og pönnsum. Þar var mikið spjallað um lífið og tilveruna og stundum fékk ég að heyra skemmtilegar sögur úr fjallaferðum og útilegum þegar hún var ung. Það var farið um hverja helgi þegar veður leyfði og ýmislegt brasað. Fjöll klifin á stígvélum, farið yfir ár og skíðað.

Dísa var bóngóð og passaði oft börnin, þegar á þurfti að halda, og þeim fannst alltaf gott að koma til Dísu og Gulla. Þar var spilað, mátaðir gamlir kjólar, o.s.frv. Krakkarnir mínir nutu þess líka að eiga hana að og það var alltaf tekið vel á móti þeim ef þau litu inn á leiðinni heim úr skólanum.

Dísa var mikil fyrirmynd í einu og öllu. Hún var nýtin, umhverfisvæn og nútímaleg að svo mörgu leyti. Á hennar heimili voru plastpokarnir þvegnir og endurnýttir, jólapakkarnir teknir varlega upp svo hægt væri að endurnýta pappírinn, engum mat hent, það má eiginlega segja að hún hafi verið langt á undan okkur hinum. Hún giftist heldur ekki fyrr en um fertugt og var búin að ferðast bæði um Evrópu og Ísland áður en hjónabandið tók við. Hún var líka alltaf smart og vel klædd og átti fallegt heimili. Fylgdist vel með nýjungum, fékk sér t.d. tölvu og nýtti hana.

Það var eins og Dísa gæti allt, hún saumaði, prjónaði, heklaði, skipti um klær og perur, pússaði niður ryðið á bílnum og mundi nánast allt.

Dísa lifði í 97 ár og lifði þeim lifandi, hún var örlát og hjartahlý og átti alltaf til falleg orð handa manni, alveg fram á síðasta dag.

Síðustu mánuðina varð Dísu tíðrætt um ömmu Guðrúnu og fannst hún vera hjá sér. Ég trúi því að þegar Dísan mín fór yfir í næsta heim hafi amma tekið henni opnum örmum með bros á vör og nú séu þær þarna saman og vaki yfir okkur.

Takk fyrir allt elsku Dísa, ég mun aldrei gleyma þér.

Þín

Elva Björk.

Í fjölskyldunni okkar var Vigdís Jónsdóttir alltaf kölluð Dísa hans Gulla. Mínum börnum hafa Dísa og Gulli verið eins og aukaamma og –afi, þótt tæknilega séð sé hið rétta að Gulli er afabróðir þeirra. Allir í fjölskyldunni vissu að í Reynilundi hjá Dísu og Gulla yrði þeim alltaf tekið opnum örmum. Ef Dísa kom til dyra sagði hún eftirminnilega glaðlegri röddu: „Nei, elskurnar! Eruði komin!“ Oft bakaði hún svo pönnukökur, og eins og allt sem hún gerði virtist það áreynslulaust. Þegar veður leyfði fórum við út í garð – sem var alltaf óaðfinnanlega hirtur – og þau léku leiki eins og Ein ég sit og sauma eða Í grænni lautu við börnin. Ekki minnkaði leikgleðin og gestrisnin þegar börnin mín fóru svo að eignast sín eigin börn og koma með þau í heimsókn í Reynilundinn. Og því fer fjarri að við höfum verið ein um að njóta þess að heimsækja Dísu og Gulla. Í eldhúskróknum hjá þeim hékk fjöldi mynda af ættmennum beggja – allt fólk sem þau ræktuðu af mikilli natni.

En annað hjá Dísu og Gulla var ekki með jafn hefðbundnu ömmu-og-afa-sniði. Þau voru ævintýragjörn og forvitin um umheiminn og fór snemma að ferðast víðar en fólk gerði flest. Þannig heimsóttu þau Slóveníu, Króatíu, Tékkland, Slóvakíu og Rúmeníu áður en múrinn féll og þessi lönd urðu hefðbundnir áfangastaðir. Allar voru ferðirnar vandlega undirbúnar; þau lásu sér til og þekktu sögu, landafræði og samfélagsmál þar sem þau fóru. Þegar við fjölskyldan fluttum svo til Washington DC í nokkur ár á tíunda áratug síðustu aldar heimsóttu Dísa og Gulli okkur líka þangað. Þaðan lögðu þau í sitt eina ferðalag um Bandaríkin og áfangastaðurinn var að vanda óvenjulegur: Þau fóru með rútu um suðvestrið og heimsóttu einn villtasta og náttúrufegursta hluta Bandaríkjanna, þar sem fjögur ríki mætast og grænlit Colorado-áin setur mark sitt á landslagið.

En þau þurftu ekki alltaf að fara langt. Dísa og Gulli ferðuðust líka mikið um Ísland, heimsóttu hálendið og gistu í fjallaskálum og tjöldum þegar það var fjarri því að vera jafn vinsælt og það er núna. Bæði nutu þau þess að hlusta á tónlist og myndlist var líka í hávegum höfð – ekki síst listaverk Eiríks Smith, sem var náinn vinur.

Þótt okkur hafi lengi verið tamt að tala um Dísu og Gulla í sömu andrá, þá voru þau hvort úr sinni áttinni. Hún var ættuð vestan af Bolungarvík og sunnan úr Ölfusi en hann er Skagfirðingur og Eyfirðingur, alinn upp á síldarplani á Siglufirði. Ég man það enn vel þegar þau byrjuðu að draga sig saman og Gulli frændi kom í fyrsta sinn með heitkonu sína í hádegisverð á Sunnubrautina til foreldra minna. Hún var glaðleg og glæsileg, hló dillandi hlátri og hélt uppi skemmtilegum samræðum, líka við okkur börnin á heimilinu.

Það er þessi mynd sem situr eftir hjá okkur öllum þegar við kveðjum Dísu. Hún var hláturmild og hlý, barngóð og björt. Við börnin mín, Oddný, Sólveig og Gunnlaugur, makar og barnabörnin öll vottum Gulla frænda og afa okkar innilegustu samúð og þökkum Dísu hlýju og ástúð alla tíð.

Helga Jónsdóttir.

Við kveðjum í dag okkar elskulegu Dísu sem andaðist á Hrafnistu í Hafnarfirði 4. júní á 98. aldursári. Löng og viðburðarík lífsgangan er á enda og Dísa hefur sannarlega lifað tímana tvenna og þrenna. Hún var fædd í Reykjavík í byrjun 20. aldar en flutti snemma í Hafnarfjörð, var Hafnfirðingur í húð og hár. Öll sín uppvaxtarár bjó Dísa með stórfjölskyldu sinni á æskuslóðum, vann lengstum sem póst- og símamær hjá Póstinum í Hafnarfirði en frá 1971 bjó hún sér yndislegt heimili í Garðabæ ásamt Gulla frænda.

Kynni okkar af Dísu byrjuðu þegar hún hóf búskap með Gunnlaugi Tryggva Skaftasyni fyrir hálfri öld og má segja að þar hafi Dísa hitt stóru ástina í lífi sínu. Þeirra sambúð bar ávallt með sér hlýju, kærleik og þá væntumþykju sem einkenndi Dísu alla tíð. Dísa var fljót að kynnast og átti auðvelt með að gleðja og kæta okkur með nærveru sinni og húmor.

Glaðværð og hláturmildi fylgdi Dísu hvar sem hún fór en hún og Gulli frændi ferðuðust mikið saman bæði innan lands og utan. Fyrstu ferðirnar voru fjallaferðir innanlands með rútum Guðmundar Jónassonar og fleiri frumkvöðla um hálendi Íslands en þau hjónin voru einnig ötul að ferðast utanlands. Dísa sá þá gjarnan um að skipuleggja ferðirnar, pantaði flug, hótel og aðra viðburðastaði í því landi sem ferðinni var heitið til hverju sinni. Dísa átti auðvelt með samskipti, talaði nokkur tungumál, en með glaðlegri framkomu og jákvæðni náði hún að tengjast fólki sínu og samferðafólki hvar sem hún fór. Eftir henni var tekið fyrir léttleika og glaðværð og hún vann hugi okkar og hjörtu fyrir hlýlegt viðmót sitt.

Við söknum Dísu okkar og vitum að hennar jarðvist hefur verið löng og farsæl. Hún kenndi okkur mikið og við munum alla tíð hvernig hláturmildi og glaðværð hennar gat breytt drunga dagsins í sólbjartan gleðidag. Dísa ræktaði fjölskyldugarðinn af einlægni og var alltaf reiðubúin að hittast og gleðjast við minnsta tækifæri, naut sín vel meðal fólksins og dansaði oft inn í nóttina með bros á vör, sannkallað partíljón.

Að leiðarlokum viljum við senda fjölskyldu okkar Dísu samúðarkveðjur en vitum að hvar sem hún fer mun brosmildi hennar smita alla viðstadda. Gulla frænda biðjum við Guð að styrkja og styðja og þökkum fyrir allt og allt.

Marie, Guðni, Katrín, Sara og Stefán.