Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Hinn nýja Grand Cherokee frá Jeep sá ég fyrst í spænsku hafnarborginni Málaga í maí á síðasta ári. Og það verður að segjast að jeppi þessi kom mér verulega á óvart – hann er ekki bara rúmgóður og laglegur heldur skemmtilega amerískur í útliti og vægast sagt fær á verstu vegleysum. Það má kannski segja að Grandinn sé fullkominn valkostur fyrir þá sem vilja alvöru jeppaeiginleika og þægindi í einum og sama bílnum.
Nú veit ég ekki hvort nauðsynlegt sé að kynna Íslendingum Grand Cherokee og hvað þá Jeep. Þessir bílar hafa sigrað vegleysur vítt og breitt um landið í áratugi og flestir þekkja útlitið. Það leynir sér ekki. Þótt saga Jeep verði ekki rakin hér í löngu máli má þó nefna að rekja megi upphafið aftur til seinna stríðs. Var þá mikil þörf á ökutæki með öflugt fjórhjóladrif og eiginleika til að krafsa sig í gegnum hinar erfiðustu aðstæður. Og þessar áherslur hafa fylgt Jeep-bílunum síðan þá.
Sem fyrr segir kynntist ég Grandinum fyrst á Spáni, var þá þangað kominn til að prufukeyra Avenger, sem er eins konar rafmagnaður litli bróðir. Þeir hjá Ísband buðu mér svo nýlega önnur kynni og fékk ég þá í hendur svokallaða Summit Reserve-útgáfu sem er stútfull af þægindum og leðri. Inni í hesthúsinu eru svo 380 fákar sem gefa frá sér þetta klassíska ameríska öskur þegar stigið er á bensínið. Það er jú alltaf jafn skemmtilegt að hlusta á öflugan jarðefnaeldsneytismótor ræskja sig hressilega!
Vegleysur eiga vart séns
Grand Cherokee er stór bíll, rétt tæpir fimm metrar á lengd og rúmir 1,8 metrar á hæð. Breiddin er ekkert slor heldur, eða 2,15 metrar. Þrátt fyrir stærðina er ökumaður enga stund að „lesa“ bílinn og áður en þú veist af þá leikur þessi 2,5 tonna jeppi í höndunum á þér. Því hef ég bæði fengið að kynnast á skrykkjóttum sveitavegum á Málaga og grófum malarvegum á Suðurlandi. Eins skemmtilegur og Grandinn er á þjóðvegi – og við skulum bara viðurkenna það, flestir munu bara leyfa jeppanum sínum að kynnast malbiki – þá er hann á algerum heimavelli þegar út í lausamöl er komið. En lausamöl og sveitavegir eru þó engin áskorun fyrir Jeep, það vita allir sem eitthvað þekkja til þessa bandaríska framleiðanda. Og það er þess vegna sem farið var með hóp bílablaðamanna á akstursbraut fyrir utanvegaakstur á Málaga.
Á brautinni, sem var ein stór vegleysa með snarbröttum hæðum, vaðgryfju og stórgrýttum jarðvegi, var öll Jeep-fjölskyldan prófuð til hins ýtrasta. Var Grandinn þar engin undantekning og láttu nú ekki lúxusútlitið blekkja þig – þegar búið er að hækka bílinn upp í efstu stöðu og velja stillingu fyrir utanvegaakstur þá er fátt sem stoppar hann. Raunar kom það mér á óvart hversu færir Jeep-bílarnir eru utanvegar og þá meira að segja þótt aðeins þrjú hjól af fjórum snerti jörðina. Í stuttu máli sagt þá keyrði ég Grandinn á Málaga-brautinni við aðstæður sem mér hefði aldrei dottið í hug að gera sjálfur. Og það sem meira er, hann fór létt með það.
Sandgult leður og viðarlistar
Í útliti er Grand Cherokee svo gott sem fullkominn. Með því er ég þó ekki að segja að þetta sé fallegasti bíll heims en þetta er aftur á móti bíll með rétt útlit. Og það sem ég á við með því er að hann er ótrúlega retró-amerískur. Þið vitið, svona gamaldags en samt einhvern veginn nútímalegur á sama tíma. Honum tekst að halda í söguna án þess að úreldast. Cherokee-grillið að framan er mjög svipsterkt og plássmiklar hjólaskálarnar, sem fylgt hafa Jeep frá upphafi, eru frekar. En þær veita dekkjunum færi á að teygja sig og leggjast saman í takt við krefjandi undirlag.
Skemmtilegast fannst mér þó innra rýmið. Báðir Grandarnir sem ég prófaði voru með sandgult leðuráklæði, svart mælaborð og ljósan viðarlista í hurðum og mælaborði. Og vá hvað þessi innrétting er flott! Þetta ætti eiginlega að vera eina samsetningin í boði því hlutir verða í raun ekki amerískari en viðarlistar og sandgult leður í bland við öskrandi jarðefnaeldsneytismótor.
Þegar setið er við stýrið er afar stutt í öll stjórntæki og hnappa, innréttingin faðmar mann svolítið en þó ekki of þétt. Þeir hjá Jeep virðast líka þekkja sína viðskiptavini því takkar eru enn nokkuð áberandi og hafi þeir þökk fyrir. Ég veit ekki um ykkur, en stórir tölvuskjáir sem stjórna hverju einasta smáatriði eru gjörsamlega óþolandi „munaður“ í mörgum nýjum bílum. Sjálfur kýs ég takka og helst stóra!
Ef nefna ætti einn hlut sem betur mætti fara þá eru það sætin, eða öllu heldur skortur á aukasætum í skottinu. Því þetta er jú stór bíll eins og ég minntist á áðan og með stórt skott. Tvö aukasæti væru því tilvalin, sérstaklega fyrir mann eins og mig sem á stóra fjölskyldu. En er þetta „díl breiker“? – Nei alls ekki.
Grand Cherokee frá Jeep er eins og aðrir jeppar þessa framleiðanda, algjörlega frábær ferðabíll með mikla getu á krefjandi undirlagi. Og það hentar einmitt vel á Íslandi.
Jeep Grand Cherokee
Orkugjafi: Bensín og rafmagn
Drif: 4x4
Hestöfl: 380
Eyðsla frá: 2,6/100km, samkvæmt WLTP
Drægni á rafhlöðu: 53km, samkvæmt WLTP
Eigin þyngd: 2.434 kg
Lengd: 4,92 m
Hæð: 185 m
Breidd: 2,15 m
Farangursrými: 580 lítrar
Hæð undir lægsta punkt: 20 cm og 27,5 cm í efstu stillingu
Dráttargeta: 2.215 kg
Ábyrgð: 5 ár á bílnum og 8 ár á drifrafhlöðu
Umboð: ÍSBAND
Verð frá: 16.990.000 kr