Ákveðið hefur verið að opna ekki Kringluna fyrr en á fimmtudag. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Kringlunni og Reitum fasteignafélagi, sem send var út í gær. Til stóð að opna Kringluna á ný eftir brunann á laugardaginn í dag, þriðjudag, en í tilkynningunni segir að opnuninni hafi verið frestað til að tryggja að upplifun gesta yrði sem best.
Í tilkynningunni segir einnig að um 150 rekstrareiningar séu í Kringlunni og að tjón hafi mest verið á svæði sem spannar um 10 verslanir.
Gert er ráð fyrir að hreinsun verði lokið á fimmtudag, en þá verði jafnframt búið að loka framkvæmdasvæðið af.
Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að 10 verslanir hefðu orðið fyrir altjóni og myndu ekki geta opnað aftur í bráð. Nefndi hún þá að erfitt væri að meta tjónið í tölum en það gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna.
Sagði Inga Rut í samtali við mbl.is í gærmorgun að mikil samstaða væri í húsinu og fundir haldnir daglega með rekstraraðilum þar sem farið væri yfir stöðu mála.
„Við erum að feta þessa leið saman og sem betur fer gerast svona hlutir ekki oft. Þessi bruni varð okkur öllum mikið áfall, rekstraraðilum, eigendum hússins og okkur sem vinnum í Kringlunni. En samstaðan hefur verið mikil innan hópsins og það hjálpar til,“ sagði Inga Rut í gær.