Á Sansibar Viðar og Sveinn komnir til Sansibar í síðustu viku.
Á Sansibar Viðar og Sveinn komnir til Sansibar í síðustu viku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Eggertsson fæddist 18. júní 1954 í Reykjavík og ólst þar upp og í Ytri-Njarðvík en flutti þrettán ára til Akureyrar þar sem hann átti heima unglingsárin. Hann stundaði nám við Leiklistarskóla SÁL 1972-75 og lauk því námi við Leiklistarskóla Íslands 1976

Viðar Eggertsson fæddist 18. júní 1954 í Reykjavík og ólst þar upp og í Ytri-Njarðvík en flutti þrettán ára til Akureyrar þar sem hann átti heima unglingsárin. Hann stundaði nám við Leiklistarskóla SÁL 1972-75 og lauk því námi við Leiklistarskóla Íslands 1976. Hann hefur sótt fjölmörg námskeið í leiklist og dagskrárgerð hér heima og erlendis. Hann stundaði árs nám í verkefnastjórnun – leiðtogaþjálfun við Endurmenntun HÍ.

„Það var rigningardagur í Ytri-Njarðvík og ég var níu ára þegar félagsheimilið Stapinn var vígt. Það var haldin vígsluhátíð í heila viku og komu tvær gestaleiksýningar frá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur. Ég bað mömmu um að fá að sjá aðra sýninguna sem var hinn geysivinsæli söngvaleikur Ævintýri á gönguför frá LR. Þegar hún lét loks undan þrábeiðni minni og ég fór í miðasöluna var orðið uppselt á sýninguna. Ég spurði þá miðasölukonuna hvort hún ætti miða á hina leiksýninguna sem var frá Þjóðleikhúsinu og reyndist vera sýning á einþáttungunum Jóðlífi eftir Odd Björnsson og einleiknum Síðasta segulbandi Krapps eftir Samuel Beckett. Varla sýning fyrir börn! Ég keypti miðann og sat síðan í myrkvuðum salnum ásamt örfáum öðrum hræðum og varð heillaður! Þá vissi ég að þetta var það sem ég vildi gera í lífinu: Leikhús! Og það varð.

Fjórum árum eftir að ég útskrifaðist úr leiklistarskólanum 1976 átti ég nokkurskonar stefnumót við þessa örlagaríku minningu, þegar ég lék í Beðið eftir Godot eftir Samuel Beckett í leikstjórn Odds Björnssonar og lék þar á móti Árna Tryggvasyni sem hafði leikið eina hlutverkið í Síðasta segulbandi Krapps.“

Viðar hefur leikið hjá Leikfélagi Akureyrar, Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, Alþýðuleikhúsinu og ýmsum atvinnuleikhópum en alls hefur hann leikið í um sjötíu leikhúsuppfærslum á sviði, auk þess í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Hann var fastráðinn leikari við LA 1978-80, stofnaði EGG-leikhúsið 1981 og var boðið með ýmsar sýningar þess víða um heim. Viðar var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið 1986-87. Viðar hefur verið bæði fastráðinn og lausráðinn dagskrárgerðarmaður hjá RÚV af og til allar götur frá árinu 1978 og var leikhússtjóri Útvarpsleikhússins 2008-2015. Þá hafði hann áður verið leikhússtjóri Leikfélags Akureyar 1993-96 og leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1996. Viðar hefur starfað sem leikari og leikstjóri hér heima og erlendis, en hann lék t.d. Drakúla í samnefndu verki í leikhúsi í Dublin 1997. Sýningin var sett upp í tilefni af 100 ára afmæli skáldsögunnar Drakúla eftir írska höfundinn Bram Stoker.

Viðar hefur sett á svið um fimmtíu leikrit. Auk þess leikstýrt fyrir útvarp og sjónvarp. Af verkum sem hann hefur leikstýrt má nefna Sannar sögur af sálarlífi systra þar sem hann gerði einnig leikgerðina upp úr svokölluðum Tangabókum Guðbergs Bergssonar, fyrir það hlaut hann Menningarverðlaun DV 1995. Þá má nefna Kaffi og Vegurinn brennur, eftir Bjarna Jónsson; Hægan, Elektra og Norður eftir Hrafnhildi Hagalín og Bróður minn Ljónshjarta, en öll þessi verk voru sýnd í Þjóðleikhúsinu. Auk þess má nefna Skjaldbakan kemst þangað líka eftir Árna Ibsen hjá LA, Krabbasvalirnar hjá leikhópnum Grímu í Færeyjum og Limbo hjá Þjóðleikhúsi Færeyja.

Árið 2001 leikstýrði hann þremur leiksýningum sem hlutu mikla athygli: Öndvegiskonur eftir Werner Swab í Borgarleikhúsinu, Laufin í Toscana eftir Lars Norén í Þjóðleikhúsinu og Túskildingsóperuna eftir Bertold Brecht og Kurt Weill í Nemendaleikhúsinu, fyrir þær saman hlaut hann Menningarverðlaun DV öðru sinni 2002.

Viðar hefur í tvígang hlotið Grímuna – sviðslistaverðlaun Íslands og í bæði skiptin fyrir Útvarpsverk ársins, fyrst 2004 fyrir leikstjórn sína á Hinn íslenski aðall sem er leikgerð Bjarna Jónssonar á skáldævisögu Þórbergs Þórðarsonar og síðan 2014 fyrir leikstjórn sína á Söng hrafnanna eftir Árna Kristjánsson.

Viðar hefur átt sæti í stjórn Félags íslenskra leikara, Bandalags íslenskra listamanna, Kjarvalsstaða, setið í leikhúsráði LA, í stjórn Alþýðuleikhússins og í stjórn Íslenska dansflokksins. Hann var varaformaður leiklistarráðs, var ritari í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi 1999-2002 og formaður þess 1991-92 og 2002-2009.

Hann var ritari í stjórn Sviðslistasambands Íslands og síðan forseti þess árin 2002-2009. Hann sat í stjórn ITI – Alþjóðaleiklistarstofnunarinnar og síðan sérstakur ráðgjafi hennar 2002-2009. Þá var hann fulltrúi Íslands í stjórn Norðurlandahússins í Færeyjum 1996-2001. Í dag er Viðar formaður Leiklistarsjóðs Þorsteins Ö. Stephensen við Ríkisútvarpið, í fulltrúaráði Múlabæjar og Leigufélags aldraðra og er varamaður í stjórn RÚV.

Viðar hefur beitt sér í ýmsum réttindamálum listamanna í gegnum tíðina en ekki síður í réttindabaráttu annarra þjóðfélagshópa. Á fyrri árum var það mannréttindabarátta samkynhneigðra en á síðari árum hafa málefni svokallaðra „vöggustofubarna“ átt hug hans, en hann hefur verið einn aðaltalsmaður þess hóps og var einn fimmmenninganna sem gengu á fund borgarstjóra árið 2021 til að krefjast þess að sett yrði á laggirnar rannsóknarnefnd til að fara í saumana á vöggustofum sem starfræktar voru á árunum 1949-1979. Rannsóknarnefndin var sett á laggirnar og skilaði sótsvartri skýrslu haustið 2023. Viðar var sjálfur á vöggustofunni Hlíðarenda í tæp tvö og hálft ár frá því hann var 17 daga gamall.

Fyrir um áratug fóru málefni eldra fólks, kjaramál og önnur velferðarmál að vekja áhuga hans og hefur hann getið sér orð sem einn helsti baráttumaðurinn fyrir þennan hóp samfélagsins. Hann varð skrifstofustjóri LEB – Landssambands eldri borgara í tæp fimm ár eða allt þar til hann lauk störfum í apríl sl. Viðar er varaþingmaður Samfylkingarinnar og sat á Alþingi fyrir Kristrúnu Frostadóttur 20. febrúar til 7. maí 2023.

„Líf mitt hefur verið viðburðaríkt á svo margan hátt og ég þakka heilshugar að ég hef aldrei getað tekið neinu sem sjálfgefnu. Ég fæddist ekki með silfurskeið í munni – langt frá því. Það hefur gert mig vakandi fyrir stöðu minni og annarra allt mitt líf. List mín og líf er samofið og hefur verið samfelld rannsókn á stöðu einstaklingsins í samfélagi fólks. Það er minn lífsauður, ævistarf. Ég játa að ég hef lifað. Og vonandi var allt þetta streð ekki til einskis,“ segir Viðar þegar hann horfir um öxl.

Viðar er staddur á eyjunni Sansibar fyrir utan strendur Tansaníu í Afríku og heldur upp á tímamótin þar.

Fjölskylda

Eiginmaður Viðars er Sveinn Kjartansson, f. 24.3. 1963, matreiðslumeistari hjá Seðlabanka Íslands. Þeir giftust 1.9. 2006 og eru búsettir á Herrasetrinu Skurn, Laufásvegi 39, 101 Reykjavík með hundinum Ísari sem er átta ára Yorkshire terrier. Foreldrar Sveins: Kjartan Kjartansson, f. 3.3. 1938 og Elín Sveinsdóttir, f. 15.7. 1943, d. 25.5. 2012.

Tvíburasystir Viðars er Urður Björk, f. 18.6. 1954, verkakona á Akureyri. Hálfsystkini Viðars eru Stefán Rafn Valtýsson, f. 18.12. 1943, sjómaður, búsettur í Danmörku; Hafsteinn Eggertsson, f. 21.9. 1956, húsasmíðameistari í Hafnarfirði, og Guðbjörg Eggertsdóttir, f. 15.12. 1959, viðskiptafræðingur í Reykjavík.

Foreldrar Viðars voru Eggert Eggertsson, f. 5.9. 1926, d. 23.12. 2011, vélstjóri í Reykjavík, og Hulda Kristinsdóttir, f. 26.8. 1921, d. 14.8. 2006, verkakona á Akureyri. Stjúpfaðir Viðars var Aðalsteinn Kristjánsson, f. 12.11. 1915, d. 18.10. 2007, lengi bóndi á Gásum í Eyjafirði, síðar verkamaður á Akureyri.