Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur hefur samþykkt breytingar á lóðinni að Sólvallagötu 14 þar sem bústaður sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi verður. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu sátu hjá

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur hefur samþykkt breytingar á lóðinni að Sólvallagötu 14 þar sem bústaður sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi verður. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu sátu hjá.

„Það bárust þarna fjölmargar athugasemdir og það var reyndar komið að verulegu leyti til móts við þær athugasemdir en þó töldum við að það hefði verið hægt að skoða málið aðeins betur og ganga lengra í því,“ sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið í gær er hann var spurður hvers vegna fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu setið hjá.

Íbúar í nágrenninu höfðu mótmælt harðlega þeim breytingum sem gera á á lóðinni til að auka öryggi sendiherrans.

Alls bárust um 70 athugasemdir í grenndarkynningu, þar sem umfang öryggisráðstafana var í mörgum tilvikum talið of mikið og að slík bygging ætti ekki heima í rótgrónu íbúðahverfi.

„Það voru þarna íbúar sem bentu á að umfangið væri þannig að það væri eins og að það væri að koma með starfsemi inn í hverfið. Við töldum að það hefði kannski verið hægt að vinna meira með að koma til móts við þær athugasemdir,“ bætti Kjartan við.

Sendiráð Bandaríkjanna sótti um ýmsar breytingar á innra skipulagi á lóðinni, m.a. að byggja lyftuhús norðan aðalinngangs, byggja yfir svalir ofan á inngangi, byggja ofan á bílskúr og reisa öryggisgirðingu inni á lóð og meðfram lóðamörkum aðliggjandi lóða við Sólvallagötu.

Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar samþykktu þessar breytingar. Í bókun þeirra segir m.a. að það sé ekki háð samþykki skipulagsyfirvalda hvar sendiherrar búi. Um sé að ræða íbúðarhús í íbúðabyggð. Bent er á að á vinnslustigi málsins hafi verið fallið frá byggingu vaktskýlis og ekki verði vopnaðir verðir á lóðinni.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram bókun þar sem tekið er undir með nágrönnum. Verið sé að breyta gömlu íbúðarhúsi í „víggirt sendiherrahús“.