Bæjarnöfn Skiltið er í Flóanum, skammt sunnan við Villingaholt.
Bæjarnöfn Skiltið er í Flóanum, skammt sunnan við Villingaholt. — Ljósmynd/Þóra Björk Hjartardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samvinnu við Nafnfræðifélagið hefur gefið út bókina Nöfn á nýrri öld. 20 greinar í tilefni 20 ára afmælis Nafnfræðifélagsins, sem var stofnað árið 2000

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samvinnu við Nafnfræðifélagið hefur gefið út bókina Nöfn á nýrri öld. 20 greinar í tilefni 20 ára afmælis Nafnfræðifélagsins, sem var stofnað árið 2000. Ritstjórar eru Emily Lethbridge og Rósa Þorsteinsdóttir. „Tilgangurinn með útgáfunni er að sýna hversu skemmtilegt viðfangsefni nöfn eru og að örva áhuga almennings á nafnfræði,“ segir í inngangi bókarinnar.

Tilgangur Nafnfræðifélagsins „er að efla þekkingu á íslenskri og almennri nafnfræði og stuðla að rannsóknum á íslenskum nöfnum (örnefnum, mannanöfnum, dýranöfnum og öðrum nöfnum).“

Á fyrstu tveimur áratugunum stóð félagið fyrir yfir 80 fyrirlestum um nafnfræðileg efni og fjalla flestar greinarnar í bókinni um efni sem var flutt á þessum fundum. Þeim er skipt í fimm flokka. Nöfn á fornum tíma og í heimildum. Nöfn, söfnun, skráning og stjórnsýsla. Samspil nafna og landslags. Fiskar, fuglar og önnur dýr. Nöfn og þjóðmenning.

Tenging og tengsl

Örnefni eru algengasta viðfangsefni höfunda. „Örnefni tengjast mikið búskaparháttum og menningu þjóðarinnar,“ segir Rósa, sem er þjóðfræðingur og rannsóknardósent hjá Stofnun Árna Magnússonar. Hlutirnir þurfi að heita eitthvað til þess að hægt sé að segja fólki til vegar og nauðsynlegt sé að varðveita örnefnin. Stofnunin haldi úti vefnum nafnid.is þar sem gögn um nöfn séu aðgengileg á einum stað. Þar séu hátt í 14.000 skjöl með um hálfa milljón skráðra örnefna. „Vefurinn býður upp á marga rannsóknarmöguleika.“

Greinarnar eru fræðilegar og léttar og skemmtilegar í bland. „Þær tengjast samt allar á einhvern hátt,“ segir Rósa. Hún leggur áherslu á að ekki sé aðeins fjallað um örnefni heldur líka hvernig til dæmis dýrategundum séu gefin nöfn, samanber grein Jörundar Svavarssonar. Sævar Ingi Jónsson skrifi um hljómsveitarnöfn og svo megi lengi telja.

Nálgun höfunda er misjöfn frá einum til annars. Jón Axel Harðarson fjallar til dæmis um mannanöfn og menningarsögu og bendir á að þau séu „mikilvæg heimild um menningu þeirra þjóða sem upphaflega skópu þau.“ Hann nefnir m.a. karlanöfn sem eigi uppruna sinn að rekja til menningarheims, „þar sem hugmyndir um guðshollustu, frægð, hernað og hetjudáðir voru mjög mikilvægar.“ Helgi Skúli Kjartansson skrifar um fólk sem kallast Valir og á heima á Vallandi. Rósa segir áhugavert að velta fyrir sér tengslum nafna langt aftur í tímann og nafnbreytingum í tímanna rás. „Örnefni geta líka breyst og tengst samtímanum á hverjum tíma eins og kemur fram í grein Birnu Lárusdóttur.“

Rósa áréttar mikilvægi varðveislunnar og vísar á kort af helstu fiskimiðum Innnesinga í grein Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar. „Ég veit ekki hvort margir sjómenn nota nöfnin á fiskimiðunum á Faxaflóa, en það er þess virði að vita af þeim og þekkja.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson