Fimmvörðuháls Steindin kristjánít fannst við gíginn Magna.
Fimmvörðuháls Steindin kristjánít fannst við gíginn Magna. — Ljósmynd/Kristján Jónasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áður óþekkt steind, sem fannst á Fimmvörðuhálsi árið 2010, hefur verið samþykkt sem ný tegund af Alþjóðasteindafræðisambandinu. Steind er nokkurs konar byggingareining bergs en hin nýja tegund nefnist kristjánít, eftir Kristjáni Jónassyni…

Áður óþekkt steind, sem fannst á Fimmvörðuhálsi árið 2010, hefur verið samþykkt sem ný tegund af Alþjóðasteindafræðisambandinu. Steind er nokkurs konar byggingareining bergs en hin nýja tegund nefnist kristjánít, eftir Kristjáni Jónassyni jarðfræðingi, en hann fór í rannsóknarleiðangur ásamt starfsbróður sínum, Sigmundi Einarssyni, í kjölfar eldsumbrotanna á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli.

Frá þessu er greint á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fóru Kristján og Sigmundur á vettvang eldsumbrota til að leita að útfellingum í nýmynduðum gígum og hrauni. Tóku þeir m.a. sýni af hvítum og grænleitum útfellingum sem fundust undir skorpu af gjósku úr Eyjafjallajökli utan í gígnum Magna. Hitastig í gjallinu mældist 670°C.

Sýnið var sent til háskólans í Kaupmannahöfn ásamt fleiri sýnum og greint af dr. Tonci Balic-Žunic, prófessor í steindafræði. Þar var þessi nýja tegund greind og lýsing hennar birtist nýverið í tímaritinu Mineralogical Magazine.

Á vef Náttúrufræðistofnunar segir ennfremur að kristjánít sé ekki fyrsta steindin sem nefnd er eftir Íslendingi. Áður hafa verið samþykktar steindirnar jakobssonít og óskarssonít, sem voru nefndar eftir Sveini Jakobssyni, jarðfræðingi á Náttúrufræðistofnun, og Níelsi Óskarssyni, jarðfræðingi á Norrænu eldfjallastöðinni. Þá hafa tvö íslensk eldfjöll fengið steindir nefndar eftir sér, Eldfell og Hekla. bjb@mbl.is