Heyrnartæki Hælisleitendur þurfa gjarnan á nýjum heyrnartækjum að halda við komuna hingað til lands og er þeim séð fyrir slíkum búnaði.
Heyrnartæki Hælisleitendur þurfa gjarnan á nýjum heyrnartækjum að halda við komuna hingað til lands og er þeim séð fyrir slíkum búnaði. — Morgunblaðið/Eggert
„Fatlað flóttafólk sem fær mannúðarleyfi á Íslandi getur sótt um varanlegar örorkubætur eftir þriggja ára búsetu hér á landi. Í Noregi fær flóttafólk ekki rétt til örorkulífeyris fyrr en eftir 5 ára búsetu í landinu

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Fatlað flóttafólk sem fær mannúðarleyfi á Íslandi getur sótt um varanlegar örorkubætur eftir þriggja ára búsetu hér á landi. Í Noregi fær flóttafólk ekki rétt til örorkulífeyris fyrr en eftir 5 ára búsetu í landinu. Ég tel fulla þörf á því að endurskoða regluverkið hjá okkur hvað þetta varðar,“ segir Birgir Þórarinsson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.

Eins og frá hefur verið greint í Morgunblaðinu hafa hópar fólks sem glímir við heyrnarleysi fengið mannúðarleyfi hér á landi og eru Úkraínumenn þar fjölmennir, en Palestínumenn koma þar einnig við sögu. Nú er svo komið að rúmlega 100 heyrnarlausir flóttamenn með mannúðarleyfi hafa leitað til Félags heyrnarlausra með beiðni um ýmsa þjónustu, frá því opnað var sérstaklega fyrir komu flóttafólks frá Úkraínu fyrir rúmum tveimur árum. Hlutfallslega er hér um að ræða margfalt fleiri einstaklinga en í öðrum Evrópulöndum.

„Þetta hefur valdið þeim sem þjónusta heyrnarlausa miklu álagi, auk þess að stefna íslenska táknmálinu í hættu. Ástæðan fyrir þessum fjölda er eflaust sú góða þjónusta sem við veitum og það spyrst út,“ segir Birgir.

Hann bendir á að nú styttist í að þessi hópur, sem hefur verið búsettur hér á landi í rúm tvö ár, muni sækja um varanlega örorku. Tryggingastofnun hafi tekið upp það verklag að heimila að sótt sé um örorkulífeyri þegar þrír mánuðir eru þangað til þriggja ára búsetuskilyrðið er uppfyllt, þ.e. eftir tvö ár og níu mánuði.

„Ég hef heimildir fyrir því að þessir einstaklingar hafi leitað til Félags heyrnarlausra til að spyrjast fyrir um hvenær hægt sé að leggja inn umsókn um örorku. Það stefnir því í að innan árs verði þessi stóri hópur kominn á örorkubætur. Þetta mun hafa mikinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð eða um 500 milljónir á ári. Þegar 5 ára dvöl hér á landi er náð er síðan hægt að sækja um íslenskan ríkisborgararétt og þar með varanlegar örorkubætur til 67 ára aldurs. Undir venjulegum kringumstæðum er hægt að sækja um ríkisborgararétt eftir 7 ára búsetu í landinu. Flóttafólk getur sótt um eftir 5 ára búsetu. Ég hefði talið að allir ættu að sitja við sama borð og í mínum huga ætti 7 ára reglan að gilda. Síðan eru dæmi þess að þegar örorka hefur verið samþykkt þá flytji fólk af landi brott, en haldi eftir sem áður greiðslunum frá Tryggingastofnun,“ segir Birgir Þórarinsson.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson