Finnur Jakob Guðsteinsson fæddist 25. febrúar 1948. Hann lést á líknardeild Landspítalans 2. júní 2024.

Athöfn á vegum Siðmenntar fer fram í Iðnó 18. júní og hefst klukkan 14.

Söknuðurinn og sorgin hefur á köflum verið óbærileg á mínu heimili undanfarna daga. Afi pafi í appelsínuhafi er dáinn og við vitum ekki alveg hvernig við eigum að vera. Finnur tengdapabbi minn var nefnilega einstök manneskja, glettinn og hlýr. Hjálpsamur með eindæmum hvort sem það var að skutla eða sækja barnabörnin, passa þau eða smíða glugga eða útidyrahurð í húsið okkar Torfa á Sigló. Það var svo heldur ekkert mál að skutlast norður með allt heila klabbið og aðstoða við ísetninguna. Finnur var nefnilega alltaf til í allt, með eindæmum jákvæður og sá miklu oftar möguleika frekar en hindranir. Mig grunar reyndar að hann hafi verið pínu ofvirkur því hann átti erfitt með að gera ekki neitt, hann þurfti alltaf að vera eitthvað að stússa og brasa hvort sem það tengdist smíðinni, hestunum eða öðru þá varð hann alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, annars var hann hálfómögulegur. Alltaf hafði hann þó tíma fyrir okkur litlu fjölskylduna sína, því nánast á hverjum sunnudegi buðu hann og Fanney okkur öllum í mat. Meistarakokkurinn hún Fanney tengdamamma nær undantekningalaust að töfra fram dýrindis máltíðir með slatta af ástúð svo úr verður alltaf veisla. Ég elska matseldina hennar og finnst mikilvægt að hrósa henni fyrir hana en í hvert sinn sem ég geri það þá sagði Finnur alltaf sama brandarann: Já Elva, finnst þér þetta ekki gott hjá mér? eða: Elva, hvað með mig, ætlar þú ekkert að hrósa mér? Hann var nefnilega soldið fyrir það að segja sömu brandarana. Til hvers að finna upp á einhverju nýju þegar þetta gamla virkar, eins og hann vanur að segja. Sem er einmitt svo lýsandi fyrir hans karakter, hann hafði meira gaman af þessu gamla og var nýtinn með eindæmum. Enda listamaður þegar kom að því að gera upp gömul hús og vildi umfram allt nýta það sem hægt var að nýta, gera við og laga frekar en að sóa og kaupa.

Finnur var líka frábær afi, var endalaust stoltur af barnabörnunum fimm og þreyttist seint á því að hæla þeim og mæra við mann og annan. Hann hafði alltaf tíma fyrir þau, hvort sem það var að teikna og lita, segja þeim sögur, brasa eitthvað uppi í hesthúsi eða bjóða þeim með sér í hamborgara og horfa svo á uppáhaldsliðið sitt KR keppa í körfubolta. Svo var hann auðvitað þeirra helsti og mesti stuðningsmaður þegar kom að því að horfa á þau keppa í fótbolta eða fimleikum, það fór ekki framhjá neinum.

Það er skrítið að setjast niður og reyna að skrifa nokkur fátækleg orð um eins stóra manneskju og þig. Stór í svo margþættri merkingu, þó ekki þeirri að vera hár í loftinu, hins vegar einstaklega vandaður maður sem ég hef litið upp til í næstum þrjátíu ár. Réttsýnn, ástríkur, hjálpsamur, stundum sérvitur og þrjóskur en umfram allt góð manneskja. Það sem ég á eftir að sakna þess að hlusta á sögurnar þínar á sunnudögum sem og aðra daga því enginn sem ég þekki segir sögur eins og þú gerðir. Sögurnar voru stundum í lengri kantinum því þú hafðir einstakt lag á því að bæta við alls kyns upplýsingum inn í sögurnar sem komu tilgangi þeirra oftast ekkert við. Það fannst okkur litlu fjölskyldunni þinni reyndar frekar fyndið þegar þú dróst fram öll stóru lýsingarorðin til að leggja áherslu á hversu mikilfenglegar manneskjurnar eða hestarnir í sögunum voru. Þér leiddist ekki að tala um hesta og rekja ættir þeirra, þér fannst nefnilega mikilvægt að við vissum undan hverjum þeir væru þegar þú sagðir frá, það blundaði auðvitað í þér gamall bóndi. Ég viðurkenni það að ég datt stundum út þegar ættfræðin var orðin of flókin. Hins vegar hafði ég alltaf gaman af því að ræða sagnfræði við þig, þú varst auðvitað mikill sósíalisti og sumir myndu segja kommúnisti á þínum yngri árum og því var alltaf stutt í byltingarsinnann í þér þegar minnst var á atburði liðins tíma eða þegar eitthvert óréttlæti bar á góma í samtímanum. Ég kem til með að sakna sagnanna og eldmóðsins.

Ég veit ekki alveg hvernig við litla fjölskyldan þín gerum þetta án þín héðan í frá, en eins og ég hvíslaði í eyrað á þér á spítalanum þá verður þetta allt í lagi, við þurfum bara tíma til að jafna okkur og ná áttum á ný, ég veit það. Þetta verður samt ekki eins, svo mikið er víst því stórt skarð er höggvið í okkar tilveru, hvort sem er í Ljósuklif, á Suðurgötunni eða á Sigló, þetta verður ekki eins án þín.

Hvíldu í friði elsku Finnur og takk fyrir allt.

See you!

Þín tengdadóttir,

Elva Ruth Kristjánsdóttir.