Fyrir áhugamenn um stjórnmál var gaman að sjá Helgu Völu Helgadóttur brýna sínar pólitísku klær á ný, en ekki er liðið ár síðan hún hrökklaðist af þingi undan nýja formanninum og sagði skilið við stjórnmálin.
Að vísu má segja að hún hafi ekki verið að hlutast til um stjórnmálin í þinginu, heldur fremur um innanmein Samfylkingarinnar, sem snúa að óútkljáðum, óhöfnum raunar, deilum um stefnu flokksins í útlendingamálum.
Helga Vala hafði sjálf um margt mótað hana í þá gömlu góðu daga þegar flokkurinn mældist með 5-10% fylgi, en Kristrún Frostadóttir sneri við blaðinu í febrúar og kynnti stefnu í meira samræmi við norrænu krataflokkana.
Þegar þingmenn Samfylkingar sátu hjá við afgreiðslu útlendingalaga á dögunum var Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, bæjarfulltrúa í Garðabæ, nóg boðið þar sem hún baðaði sig í sól Meloni í Toscana og sagði sig úr Samfylkingunni með rafrænum hætti. Sem aftur gaf Helgu Völu tilefni til þess að hefna sín á Kristrúnu með nótum um flokk á villigötum.
En af hverju er Helga Vala svona hissa? Samfylkingin er fræg fyrir skoðanaskipti, skiptar skoðanir og að skipta um skoðanir. Jafnvel svo að Össur Skarphéðinsson, sá formaður sem mestum árangri hefur náð í kosningum til Alþingis, uppskar nafngiftina „móðir allra vindhana.“