Jörgen Nåbye fæddist í Reykjavík 10. apríl 1940. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 11. júní 2024.

Foreldrar Jörgens voru Laufey Jörgensdóttir, húsfreyja frá Reykjavík, f. 1915, d. 1974, og Olfert Nåbye, píanóleikari í Reykjavík, ættaður frá Danmörku, f. 1903, d. 1942. Jörgen ólst upp með móður sinni í Reykjavík en faðir hans deyr þegar hann er á öðru aldursári, fósturfaðir hans var Auðunn Lárus Jóhannesson, innheimtumaður í Reykjavík, f. 1910, d. 1986. Albróðir Jörgens er Olfert Nåbye, f. 1942, sammæðra systkini eru Oddur Helgason, f. 1951, og Sigríður Guðrún Auðunsdóttir, f. 1956.

Jörgen giftist Erlu Sigmarsdóttur frá Vestmannaeyjum, f. 1942, d. 2005, árið 1969. Þau eignuðust þrjú börn en fyrir átti Erla son sem Jörgen gekk í föðurstað. 1) Sigmar Þröstur Óskarsson, f. 1961, maki Vilborg Friðriksdóttir, f. 1965, og eiga þau fjögur börn: a) Friðrik Þór, f. 1989, unnusta Jenný Einarsdóttir og börn þeirra eru Aron Gauti, Vilborg Helena og Fannar Þór. b) Erla Rós, f. 1996, unnusti Magnús Möller og barn þeirra er Sigmar Helgi. c) Daníel Már, f. 2000, unnusta Sigríður Viktorsdóttir og barn þeirra er Kristófer Emil. d) Andri Snær, f. 2004. 2) Þórunn Júlía, f. 1965, maki Ólafur Þór Snorrason, f. 1968, og eiga þau tvö börn: a) Arna Þyrí, f. 1997, unnusti Hlynur Freyr Ómarsson og barn þeirra er Merkel Marey. b) Jörgen Freyr, f. 1999, unnusta Sigrún Jóhannsdóttir og á hún dæturnar Önnu Kristínu og Selmu Líf. 3) Auðunn, f. 1969. Barn hans er Aron Jörgen, f. 1991, og á hann börnin Emiko Erlu og Erik Árna. 4) Laufey, f. 1975, maki Jónas Þór Friðriksson, f. 1970, og börn þeirra eru: a) Óskar Dagur, f. 2005, og b) Auður Erla, f. 2008.

Jörgen bjó í fyrstu við Vesturgötu 24 í Reykjavík. Gekk í Barnaskóla Stokkseyrar og nam svo við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar (Gaggó Vest). Flutti til Eyja árið 1963 þegar hann kynntist Erlu konu sinni en þau bjuggu í fyrstu á Reynifelli við Reglubraut, síðan við Herjólfsgötu 9 og lengst af við Bröttugötu 17 í Vestmannaeyjum. Frá 2003 til 2007 bjuggu Jörgen og Erla (til 2005) í Þorlákshöfn er Jörgen gerði út trillu sína þar en hann fór svo til Eyja eftir að Erla lést og bjó þá við Áshamar 71. Jörgen hefur dvalið á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum síðan 2019.

Jörgen starfaði við sjómennsku allt sitt líf. Lærði netagerðariðn og starfaði hjá Netagerðinni Ingólfi í Vestmannaeyjum og tók einnig stýrimannaréttindi. Var sjómaður m.a. á Frey, Röðli, Sæbjörgu, Elliðaey, Vestmannaey, Surtsey og Smáey. Síðan eignaðist hann og gerðist smábátaútgerðarmaður á Laufeyju Jörgensdóttur VE 23.

Útför Jörgens verður gerð frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 19. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elskulegi ástkæri faðir minn, mín hinsta kveðja til þín. Elsku pabbi, nú hefur þú sleppt landfestum í hinsta sinn, löðrið leikur við kinnunginn, spegilslétt hafið logar í kvöldsólinni. Með sólvinda í seglin siglir þú með ægisdætrum þinn síðasta róður í átt til friðarhafnar drottins.

Mikið er ég þér þakklátur fyrir lífið sem þú gafst mér og að hafa átt þig sem föður. Allt sem þú gafst mér, allt sem þú gerðir með mér, allt sem þú kenndir mér.

Þú byrjaðir á síðutogaranum Röðli GK 518, 13 ára gamall, og varst á honum í mörg ár. Á þessum skipum var mikil vinna, slæmur aðbúnaður og aðeins fyrir alvörujaxla að stunda þessa sjómennsku. Í janúar 1963 komst þú með Guðmundi fellibyl til Vestmannaeyja og þið fóruð á net með Hilmari Rós. á Sæbjörg VE og þá kynntist þú þinni heittelskuðu Erlu.

Þú varst alltaf í toppplássum, á Leó með Óskari Matt, á Elliðaey með Gísla Sigmars mági þínum og mörg urðu árin með Erling og Loga á Surtsey VE og svo varstu með Loga á Smáey VE. Þeir sem reru með þér hafa sagt mér að þú værir afburðasjómaður, útsjónarsamur, snöggur til allra verka og enginn væri betri í að gera við trollið þegar það rifnaði.

Ég man þegar við smíðuðum dúfnakofann niðri í kjallara þegar ég var tíu ára. Kjallaraíbúðin var fokheld og við bjuggum uppi og þetta var rosalega flottur dúfnakofi og við vorum búnir að finna honum stað úti í garði. Svo var hafist handa við að koma kofanum út en hann var alltof stór til að komast út um dyrnar. Ég fékk miklar áhyggjur yfir þessu og þá sagði pabbi: Við höfum hann bara inni í íbúðinni. Þetta var flottasti og stærsti dúfnakofi landsins, 120 fermetrar. Ég man líka að þú kenndir mér að bæta net, splæsa og hnútana. Oft þegar ég er að vinna í hengilrifnu trolli hugsa ég til þín. Ef ég er í vafa hugsa ég: hvað ætli pabbi hefði gert?

Ég man þegar við vorum á trillunni þinni Laufeyju Jörgensdóttur VE-23 sumarið 1988 á handfæraveiðum í Ólafsvík. Þar kenndir þú mér handtökin við þær veiðar. Við mokfiskuðum og fengum 18 punda lax. Ég fór í viðtal hjá DV og titlaði mig sem skipstjóra og þig sem kokk. Þegar við vorum að borða í mötuneytinu varst þú að fletta dagblaðinu og á baksíðunni var mynd mér með laxinn góða. Þú segir er þú sérð þetta: Meira andskotans ruglið í þér drengur og svo hlóstu. Óskar Matt, gamli jaxlinn, hélt því fram að þú hefðir keypt laxinn í kaupfélaginu en svo nú ekki.

Ég átti mér þá von að við myndum sigla saman á Sólfaranum í sumar og skoða fegurð Heimaeyjar en sú von rætist ekki. Þú áttir að vera skipstjórinn og ég kokkurinn.

Mig langar að þakka starfsfólki Hraunbúða fyrir einstaklega góða umhyggju og elskulegheit til föður míns. Þúsund þakkir, þið eruð öll æði.

Elsku pabbi, takk fyrir allt. Uppskera þín til lífsins er ríkuleg og falleg. Þú munt ávallt vera í hjarta mér. Guð og gæfan fylgi þér, kysstu mömmu frá mér.

Þinn sonur,

Auðunn.

Það er með sorg en þakklæti í hjarta að við kveðjum Jörgen Nåbye, elskulegan föður minn. Pabbi er jafngamall Pele, John Lennon og Þórhildi Danadrottningu. Fæddur í Reykjavík í miðri heimsstyrjöld og elst upp í Vesturbænum. Faðir hans deyr úr berklum þegar pabbi er á öðru aldursári. Föðurætt pabba þekktum við því aldrei en móðurættina betur enda Jörgensnafnið íslenskt, frá móðurafa hans, en ættarnafnið Nåbye er svo danskt, sem gerir pabba að hálfum Dana þótt hann hafi aldrei farið til Danmerkur. Pabbi hóf skólagöngu sína á Stokkseyri og var í heimavist á Kumbaravogi við gott atlæti. Kláraði svo Gaggó Vest og kvað hafa verið stutt í sætar stelpur í bænum. Hann var töffari, flott klæddur og líktist Elvis Presley með brilljantín í kolsvörtu hárinu. Danstaktarnir fantagóðir enda sagði hann oft: bestur á balli.

Pabbi fór ungur að vinna á eyrinni og fór svo snemma á sjóinn. Kynnist mömmu á balli og eltir skvísuna sína til Eyja. Þar með var dansparið fullkomnað og þau giftast árið 1969. Segja má að pabbi hafi brotist út úr fátækt og spilaði vel úr sínum spilum. Lagði alltaf áherslu á að vera sjálfstæður og með dugnaði eignaðist hann trillu og fór í smábátaútgerð. Ég var alltaf svo stolt að trillan hét Laufey Jörgensdóttir VE 23 í höfuðið á okkur ömmu. Sjóferðir okkar voru minnisstæðar, fiskuðum vel á DNG-handfærin við Eyjar og sungum með. Að sögn vina var pabbi vel metinn sjómaður. Það voru kátir krakkar sem biðu á Bröttó þegar pabbi kom heim úr siglingu að utan og okkar biðu reiðhjól, eplakassi og sælgæti, jafnt skipt á milli. Sjómennska var hans líf og ástríða, og hann var stoltur af starfi sínu.

Pabbi átti líka fjölbreytt áhugamál; hélt með ManUnited, var unnandi djasstónlistar og elskaði að tjútta. Fór svo að spila golf og náði góðri færni á stuttum tíma. Golfsettið hans auðvitað langbest og ef ég keypti mér golfkerru þá keypti hann sér rafmagnskerru. Var mikill bílakall, elskaði Landroverinn sinn. Einnig græjukall – allt var Jöggaspes og best; tuðra, spíttbátur, mótorhjól sem hann lék sér á og ferðaðist.

Mamma og pabbi áttu góð ár saman í Eyjum í góðra vina hópi, alltaf nóg að gera með stóra fjölskyldu og líf og fjör. Eftir að mamma lést urðum við pabbi ennþá nánari, hann var góður afi við barnabörn sín sem hændust að honum. Óskar Dagur minn fæðist rétt eftir að mamma kveður og gaf okkur pabba mikið og Auður Erla mín sem hann hélt svo mikið upp á og elskaði rauða hárið hennar sem minnti hann á mömmu sína. Jónas og pabbi voru góðir vinir og tengdu vel í gegnum sjávarútveginn. Pabbi var heilsuhraustur heilt yfir, breytti um lífsstíl um fimmtugt eftir aðvörun. Bévítans alzheimerinn tók svo völdin fyrir nokkrum árum en kappinn hefði annars orðið 100 ára. Síðustu ár voru stundum krefjandi en jafnframt lærdómsrík og full af dýrmætum stundum. Ófá púttin, ólsen-in og dansarnir sem við skemmtum okkur yfir og við systkinin gerðum öll okkar besta til að honum liði sem best.

Góða ferð í þína hinstu sjóferð, megir þú sigla yfir í eilífa ró. Takk fyrir allt, elsku pabbi.

Þín litla dóttir,

Laufey Jörgensdóttir.

Þegar maður rifjar upp gamla tímann, þá sitja eftir minningar sem vörður á vegi manns og maður fór nokkrar með Jörgen fóstra og pabba. Þú ólst upp eftir stríð og menntaðir þig í netavinnu og skipstjórn. Þetta notaðir þú strax á unga aldri og fórst snemma á sjóinn. Fyrst á nýsköpunartogurunum og varst duglegur þar eins og þú lærðir af Jóni á Skipum við Stokkseyri. Lukkan var með þér strax því þú hættir á Röðli rétt fyrir mengunarslys og fórst á Sæbjörg hjá Hilmari Rós í Vestmannaeyjum. Með því hófst ævintýrið með Erlu Sigmars á dansgólfinu á Reglubrautinni, Herjólfsgötu, Bröttó og Þolló.

Sjómennskan lék í höndum þér og þú varst eftirsóttur netamaður og stýrimaður á aflaskipunum Surtsey og Smáey. Einnig áttirðu trilluna Laufeyju nr. 4339 VE 23.

Það má segja að þessi dans hafi leitt af sér þrjú börn og ég fékk að fylgja með. Maður fékk netavinnu og sjómennsku beint í æð og þá varð ekki aftur snúið, nema Diddi bróðir þinn bauð mér á landsleik í handbolta í Laugardalshöll sem peyja. Og viti menn: þá varð minn einnig að vera markmaður (og dætur þínar líka)!

Þú varst mjög mikill græjukall; grammófónninn, slædsmyndir, Canon, Bang & Olufsen, jeppinn, hjólhýsi, mótorhjólið og golfgræjurnar. Þetta lék allt í höndunum á þér og ekki laust við að maður hafi smitast. Og allar þessar græjur voru langbestar.

Að ferðast um Ísland var þitt frá fyrsta fríinu á grænu bjöllunni V-339 og má segja að þú hafir notið þess þangað til þú fékkst alzheimerinn fyrir nokkrum árum.

Þú sýndir hetjulega baráttu við veikindin og við reyndum eftir fremsta megni að aðstoða þig. Ógleymanlegar eru stundirnar við göngutúra, matarboðin, golfið, ísrúnta, púttteppið, píluspjaldið, ólsen-ólsen, dúfurnar og spjallið síðustu árin. Þú hafðir mjög gaman af barnabörnunum og einnig varstu mikill dýravinur sem tengist sveitinni í denn.

Nú ertu kominn til Erlu þinnar og sér maður ykkur í anda að tjútta í sumarlandinu.

Takk pabbi.

Í kirkjugarði:

Hér hvílast þeir sem þreyttir göngu luku

í þagnar brag.

Ég minnist tveggja handa, er hár mitt struku

einn horfinn dag.

Ó, guðir þér, sem okkar örlög vefið

svo undarleg.

Það misstu allir allt, sem þeim var gefið,

og einnig ég.

Og ég sem drykklanga drúpi höfði yfir

dauðans ró,

hvort er ég heldur hann sem eftir lifir,

eða hinn, sem dó.

(Steinn Steinar)

Sigmar Þröstur Óskarsson.

Kveðjustund, elsku tengdapabbi og afi.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Saknaðarkveðja,

Vilborg, Friðrik Þór, Erla Rós, Daníel Már
og Andri Snær.

Elsku besti tengdapabbi, það er sárt að þurfa að kveðja en vissan um það að nú sértu kominn á betri stað gerir kveðjustundina bærilegri. Það hefur verið gefandi og skemmtilegt ferðalag að fylgja þér að í gegnum tíðina og minningin um þig mun lifa hjá mér sem og okkur fjölskyldunni allri.

Dimmt er hvert rökkur er dagsbjarminn þrýtur,

dapur sá mökkur er lífinu slítur.

Þá nóttin er gengin og árdagur ómar,

þá ymur hver strengur og morgunninn ljómar.

Ó, gætu þeir séð sem að syrgja og missa

þá sannleikans gleði sem óhult er vissa,

að bönd þau sem tengja' okkur eilífð ná yfir,

að allt sem við fengum og misstum það lifir.

En alltaf það vekur hið innsta og hlýja,

er alfaðir tekur og gefur hið nýja.

Faðir í hendur þér felum við andann,

fullvís er lending á strönd fyrir handan.

(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)

Hvíl í friði, elsku Jörgen.

Þinn tengdasonur,

Jónas Þór.

Góða ferð, elsku afi minn. Ég veit að þið amma Erla eruð byrjuð að dansa.

Ég á mjög margar góðar minningar af þér sem er búið að vera gaman að rifja upp.

Það var alltaf gaman í kringum þig. Þú varst ólsen-ólsen-kóngurinn og leiddist aldrei að taka nokkra svoleiðis. Við fórum oft saman á rúntinn, keyptum okkur palla (ópal) og stoppuðum í ís eða niðri í dal í aparólunni. Ég er ekki mikið fyrir að spila golf en það var gaman að fara með þér af því að þú áttir flottustu rafmagnsgolfkerruna. Ég man svo vel eftir því þegar við vorum að prófa hana og hún dró þig áfram á fullu spani og við hlógum og hlógum.

Ég var alltaf svo montin að segja öllum að þú værir afi minn, keyrandi um á mótorhjóli og áttir spíttbát, mesti töffarinn. Þú varst algjör þrjóskupúki og til dæmis vildirðu aldrei koma á handboltaleiki en ég náði að draga þig á einn leik með mér og Erlu Rós. Þú gargaðir allan tímann og eftir leik sagðirðu „ja, þetta var nú bara ágætt“ (þú skemmtir þér konunglega)!

Þú hugsaðir alltaf vel um þig og áttir hlaupabretti og alls konar æfingadót sem mér fannst svo gaman að leika mér með. Þú varst algjör íþróttaálfur en samt líka algjör nammigrís. Það var alltaf til ísblóm í frysti og svo vorum við líka dugleg að skera okkur niður epli og strá kanilsykri yfir. Það var svona hollustunammið okkar!

Það var alltaf stutt í grínið hjá þér og þú sagðir hlutina bara eins og þeir voru! Þú varst svo barngóður og það sást svo vel þegar ég kom með Merkel til þín.

Þú hitaðir hendurnar alltaf áður en þú tókst hana og knúsaðir og kysstir. Henni fannst þú svo fyndinn og skemmtilegur.

Ég elska þig og á eftir að sakna þín mikið.

Arna Þyrí Ólafsdóttir.

Elsku afi Jörgen, takk innilega fyrir öll góðu árin sem við áttum með þér og skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman. Þótt þær verði ekki fleiri þá getum við hugsað til baka með mikilli væntumþykju, ást og söknuði til liðins tíma. Trúum því að amma Erla hafi tekið vel á móti þér með gleði og söng eins og henni var lagið.

Svo leggur þú á höfin blá og breið

á burt frá mér og óskalöndum þínum,

og stjarna hver, er lýsir þína leið,

er lítill gneisti, er hrökk af strengjum mínum.

Þú skilur eftir minningar hjá mér

um marga gleðistund frá liðnum árum,

og alltaf mun ég fagna og þjást með þér

og þú skalt vera mín – í söng og tárum.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Elskum þig og söknum þín.

Óskar Dagur og Auður Erla.

Í dag kveð ég Jörgen bróður minn og ýmsar minningar koma upp í hugann.

Ég man hvað það var spennandi þegar hann kom úr siglingum og yfirleitt með gjafir og man ég sérstaklega eftir bleikum dúkkuvagni sem var sko flottur og dúkku í brúðarkjól.

Árin liðu og hann kynntist Erlu konunni sinni og flutti til Vestmannaeyja þar sem þau bjuggu mestalla tíð.

Það var mikill missir þegar Erla lést 2005.

Oft kom hann í heimsókn og keyrði á hina ýmsu staði á landinu sem veitti honum mikla gleði.

Skemmtilegast þótti honum samt að þeysast um á mótorhjólinu sínu sem hann keypti þegar hann var rúmlega sjötugur og voru nú sumir hálfhræddir um hann.

Árið 2011 fórum við systkinin ásamt Didda bróður og Guðbjörgu mágkonu til Austurríkis og Ítalíu sem var algjört ævintýri fyrir hann og okkur öll og sagði hann að það væri sko draumur að vera þarna á mótorhjóli og kannski fer hann bara næst þangað … hver veit.

Takk fyrir allar samverustundirnar elsku bróðir.

Þín systir,

Sigríður (Sirrý).

hinsta kveðja

Elsku pabbi.

Nú skilur leiðir okkar og þú heldur í ný ævintýri með mömmu.

En ég kveð þig með söknuði og þakklæti fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína. Betri pabba er ekki hægt að hugsa sér. Farðu í friði og kysstu mömmu, við hittumst svo aftur þegar minn tími kemur.

Takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Þórunn.