Hetja Francisco Conceicao fagnar sigurmarki sínu fyrir Portúgal með stæl.
Hetja Francisco Conceicao fagnar sigurmarki sínu fyrir Portúgal með stæl. — AFP/John Macdougall
Portúgal vann dramatískan sigur á Tékklandi, 2:1, í síðasta leik fyrstu umferðar Evrópumóts karla í knattspyrnu í Leipzig í gærkvöldi. Francisco Conceicao skoraði sigurmark Portúgals í uppbótartíma en hin tvö liðin í F-riðli, Tyrkland og Georgía, mættust fyrr um daginn í leik sem Tyrkir unnu 3:1

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Portúgal vann dramatískan sigur á Tékklandi, 2:1, í síðasta leik fyrstu umferðar Evrópumóts karla í knattspyrnu í Leipzig í gærkvöldi. Francisco Conceicao skoraði sigurmark Portúgals í uppbótartíma en hin tvö liðin í F-riðli, Tyrkland og Georgía, mættust fyrr um daginn í leik sem Tyrkir unnu 3:1. Portúgal og Tyrkland eru með þrjú stig en hin eru án stiga. Portúgalir og Tyrkir mætast í næstu umferð og Georgía og Tékkland.

Erfið fæðing Portúgals

Portúgalska liðið var lengi í gang en Lukas Provod kom Tékkum yfir á 62. mínútu. Þá fékk hann boltann frá Valdimir Coufal og skoraði með glæsilegu skoti rétt utan teigs, staðan 1:0.

Portúgal var aðeins sjö mínútur að jafna metin. Nuno Mendes skallaði þá boltann á mark Tékka en Jindrich Stanek varði. Boltinn fór beint í samherja markmannsins, Robin Hranac, og þaðan í netið, 1:1.

Conceicao skoraði sigurmark Portúgals eftir að boltinn barst til hans á miðjum teignum í uppbótartíma leiksins, 2:1, og sigur Portúgals staðreynd.

Mögnuð skot Tyrkja

Tyrkir unnu Georgíumenn 3:1 en Mert Müldür og Arda Güler skoruðu glæsileg mörk fyrir tyrkneska liðið. Müldür kom Tyrkjum yfir á 26. mínútu þegar hann smellti boltanum á lofti í efra nærhornið rétt innan teigs. Arda Güler kom síðan Tyrkjum í 2:1 á 66. mínútu eftir að Georges Mikautadze hafði minnkað muninn á milli.

Güler, sem er 19 ára gamall, smellti boltanum í fjærhornið langt utan teigs og varð yngsti leikmaðurinn til að skora í fyrsta leik sínum á EM og sló met Cristianos Ronaldos í leiðinni. Varamaðurinn Kerem Akturkoglu innsiglaði sigur Tyrklands.