Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Aukinnar bjartsýni gætir hjá Orkubúi Vestfjarða varðandi nýtingu jarðhita til upphitunar húsa á Ísafirði en jarðheitaleit og rannsóknir halda áfram í Tungudal í Skutulsfirði.
Eins og fram hefur komið í blaðinu urðu mikil tíðindi í jarðhitaleit fyrir vestan hinn 26. maí þegar borinn þveraði heita vatnsæð á 482 metra dýpi og reyndist hitastigið vera um 58°C. Í framhaldinu hefur Orkubúið staðið fyrir frekari borunum í samstarfi við ÍSOR.
Holan sem boruð var við Skógarbraut í Tungudal hefur nú verið dýpkuð niður á 762 m dýpi, eins og til stóð, en áður hafði hún verið klædd með stálfóðringu niður á 293 m dýpi.
„Í kjölfarið var farið í hitamælingu og svokallað blásturspróf, sem er skammtímamæling á afkastagetu holunnar. Reiknað er með að vinnsluhitastig holunnar geti orðið 56 til 57°C,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Orkubúinu en prófanir gefa til kynna að holan sé afkastameiri en talið var.
„Blástursprófanir sem gerðar voru á holunni gáfu til kynna að hún væri talsvert afkastameiri en talið var í fyrstu og augnabliksdæling skilaði 45 til 50 l/sek. við ásættanlegan niðurdrátt í holunni,“ segir í tilkynningunni en tekið er skýrt fram að ekki sé staðfest að langtímaafköst geti orðið þessi.
Að öllum líkindum verður notuð varmadæla til að skerpa á hitanum þegar að því kemur að nýta jarðhitann.