Karl Þorbergsson fæddist 14. júlí 1929 á Völlum í Ölfusi. Hann lést 11. júní 2024 á Dvalarheimilinu Hlévangi í Keflavík.

Foreldrar Karls voru Kristbjörg Jónsdóttir frá Hvoli í Ölfusi og Þorbergur Sigurjónsson frá Leiru. Karl ólst upp á Völlum hjá Kjartani Markússyni bónda og Gíslínu Gísladóttur konu hans og börnum þeirra Sigurgísla og Sigríði ásamt uppeldisbróður, Ögmundi Kristgeirssyni. Kristbjörg móðir Karls giftist Gunnlaugi Einarssyni frá Hólkoti í Miðneshreppi, sonur þeirra er Ólafur Garðar.

Æsku- og unglingsár Karls voru á Völlum á mannmörgu heimili og var hann ætíð tengdur heimilinu sterkum böndum. Um 17 ára aldur kom hann til móður sinnar að Lækjamótum í Sandgerði og vann hann um tíma í Sandgerði við ýmis störf bæði til sjós og lands. Hann lærði málaraiðn hjá Pétri Hjaltested málara í Reykjavík, sótti nám í Iðnskóla Reykjavíkur og lauk námi sem málarameistari.

Í Reykjavík kynntist hann Vigdísi Dagmar Filippusdóttur, f. 1932, d. 2010, þau gengu í hjónaband 13. apríl 1956 og bjuggu fyrst í Reykjavík. Vigdís og Karl eignuðust soninn Kristberg Ágúst, f. 27.11. 1956, en fyrir átti Vigdís son, Arnar Sigurþórsson, f. 28.11. 1952, hann ólst upp hjá foreldrum Vigdísar.

Ævintýraþrá leiddi Karl og Vigdísi (Dæju) til Svíþjóðar og dvöldu þau í Gautaborg þar sem Kalli vann í skipasmíðastöð, Kristberg Ágúst (Gústi) dvaldi þann tíma hjá ömmu sinni og afa í Sandgerði. Eftir dvölina erlendis fluttu þau til Sandgerðis og áttu lengst heima í húsi sem þau byggðu að Bjarmalandi 14.

Kalli málari eins og hann var ætíð kallaður vann m.a. í Slippnum í Keflavík og hjá hernum á Keflavíkurflugvelli. Áhugamál Kalla voru mörg, m.a. ferðalög, jeppaferðir og stangveiði og fóru þau Dæja víða bæði hérlendis og erlendis. Gústi sonur þeirra býr í Danmörku, hann á soninn Ellert Smára með Ingibjörgu Ólöfu Sigurðardóttur. Smári er kvæntur Eevu Suhonen frá Finnlandi, börn þeirra eru Lóa Tuulianna og Línus Blær.

Karl verður jarðsunginn frá Sandgerðiskirkju í dag, 19. júní 2024, klukkan 13.

Það var á hlaðinu á Lækjamótum í Sandgerði þegar ég hitti Karl (Kalla) fyrst. Þessi hávaxni og myndarlegi maður nýkominn frá erlendri grund virkaði bæði spennandi og ógnvekjandi, en strax og ég kynntist Kalla fann ég að ekkert var að hræðast. Kalli var hálfbróðir mannsins míns Ólafs.

Árin liðu og þrátt fyrir aldursmun var eins og við ættum meiri samleið þegar við urðum eldri. Kalli og Dæja settust að í Sandgerði eftir veru sína í Svíþjóð, leigðu í fyrstu, en byggðu sér síðan hús á Bjarmalandinu. Það var alltaf gaman að koma til þeirra og margt að sjá og skoða sem fundist hafði á ferðum þeirra bæði hérlendis og erlendis. Og ekki má gleyma að Kalli hafði málað og skreytt hurðir og húsgögn með blómamunstri, virkilegt augnayndi og öðruvísi en almennt var á þeim tíma.

Kalli átti gamlan jeppa sem þau Dæja fóru á um landið, oftast var ferðinni heitið að vatni eða á, þar sem rennt var fyrir silung eða bleikju, tjaldað við ár- eða vatnsbakka, veitt og notið. Kalli ákvað eitt sinn að mynda allar kirkjur landsins, hann átti eftir að mynda tvær kirkjur sem sýnir að hann vann alltaf ötullega að því sem hugur hans stóð til hverju sinni.

Þegar heilsu Dæju hrakaði ákváðu þau að hún yrði heima, færi ekki á sjúkrahús, og síðustu daga í lífi hennar var gaman að fylgjast með þeim hjónum, en Dæja nýtti síðustu krafta sína til að kenna Kalla á þvottavélina og gera hann á allan hátt færan um að sjá um sig.

Næsti kafli í lífi Kalla var þegar hann seldi húsið sitt og flutti inn í Miðhús sem er fjölbýlishús með íbúðir fyrir eldri borgara með félagslega aðstöðu.

Þar undi Kalli sér vel, endurnýjaði gömul kynni þegar gamlir kunningjar settust að í Miðhúsum. Þar var boðið upp á margs konar afþreyingu og hægt að fá mat í hádeginu virka daga hjá frábæru starfsfólki. Dagurinn byrjaði með að hittast í matsalnum, blöðin lesin og spjallað, dagarnir liðu við lestur, spjall og áhorf á fótbolta en Kalli fylgdist vel með bæði enska boltanum og öðrum liðum í Evrópu og hélt ætíð með íslenskum og dönskum leikmönnum.

Þeir skemmtu sér oft vel saman vinirnir Kalli og Jói Brands eins og sagan sem þeir sögðu frá og gerðist um áramót. Höfðu þeir setið saman uppi hjá Jóa og þegar Kalli ætlaði niður til sín ákvað Jói að fylgja honum í lyftunni niður, er þangað kom ákvað Kalli að fylgja Jóa heim og þá var nú hlegið.

Kalli veiktist af lungnabólgu í lok janúar á þessu ári, hann átti við þrálátar sýkingar að stríða og þegar ljóst var að heilsu hans hrakaði og útséð var um að hann gæti farið aftur heim í íbúðina sína þá hvarf lífslöngun hans og reisn sem ætíð hafði fylgt honum.

Nú hefur Kalli hitt hana Dæju sína, við sjáum þau sæl við fallegt vatn. Fjölskyldu og vinum færum við samúðarkveðju.

Jórunn Alda og Ólafur Garðar Gunnlaugsson.