Stefanía Björnsdóttir sjúkraliði fæddist á Kópaskeri við Öxarfjörð 25. júní 1961. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 8. júní 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Björn Stefánsson, f. 28. maí 1910, d. 14. janúar 1988, og Gunnhildur Hólmfríður Bjarnadóttir, f. 26. mars 1928, d. 15. desember 1993, bændur í Akurseli í Öxarfirði. Systir hennar er Arnþrúður Guðrún, f. 21. maí 1958.

Eftirlifandi eiginmaður Stefaníu er Skarphéðinn Jósepsson, f. 12. júlí 1959, og gengu þau í hjónaband 3. ágúst 1984 eftir fimm ára sambúð. Börn þeirra eru: 1) Fanney Skarphéðinsdóttir, f. 23. febrúar 1985. Eiginmaður hennar er Þorsteinn Jóhann Þorsteinsson, f. 6. október 1980. Þeirra börn eru: Guðrún Emilía, f. 1. desember 2010, og Stefán Axel, f. 17. desember 2015. Frá fyrra sambandi á Þorsteinn soninn Halldór Örn, f. 22. september 2003. 2) Heiðdís Skarphéðinsdóttir, f. 30. september 1989. Eiginmaður hennar er Arnar Ingi Magnússon, f. 28. nóvember 1986. Sonur þeirra er Dagur Leó, f. 8. mars 2021. Frá fyrra sambandi á Heiðdís soninn Anton Breka, f. 23. október 2009. Arnar Ingi á frá fyrra sambandi soninn Steinar Breka, f. 22. ágúst 2012. 3) Björn Skarphéðinsson, f. 6. janúar 1996. 4) Gunnhildur Skarphéðinsdóttir, f. 26. apríl 1998. Sambýlismaður hennar er Rögnvaldur Pétur Bjarnason, f. 18. september 1996.

Stefanía ólst upp í Akurseli fram undir barnaskólaaldur en þá flutti fjölskyldan á Kópasker þar sem hún ólst upp þar til hún fór að heiman í skóla. Hún lauk sjúkraliðanámi á Akureyri 1980. Í framhaldi af því hófu þau hjónin búskap í Reykjavík en síðan lengst í Hafnarfirði, með viðkomu á Akureyri og í Barcelona um nokkurra ára skeið. Hún starfaði sem sjúkraliði á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og á ýmsum deildum Landspítalans í áratugi, eins og annir leyfðu frá stóru heimili. Árið 2017 greindist hún með alzheimers-sjúkdóminn sem lagðist þungt á hana seinustu árin.

Útför hennar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 19. júní 2024, klukkan 13.

Elsku mamma.

Það er skrítið og sárt að komið sé að kveðjustund, og auðvelt að detta í hugsanir um allt sem hefði getað orðið. Að við munum ekki eignast fleiri ferða- og brassögur með þér og að barnabörnin hafi ekki fengið að eiga þig lengur, kynnast þessari orkumiklu og skemmtilegu ömmu. Við erum samt að æfa okkur í að vera þakklát fyrir það sem við fengum því það er svo sannarlega mikið. Í kringum veikindin þín undanfarin ár höfum við verið dugleg að hittast, farið í ferðalög bæði innanlands og utan og farið í gönguferðir eins og hægt var hverju sinni. Umfram allt höfum við átt með þér góðar stundir, og ósjaldan hafa samverustundir okkar falið í sér að rifja upp æskuna, allt brasið með þér í gegnum tíðina ásamt því að horfa á allt myndefnið sem þið pabbi höfðuð fyrir að taka upp með stóru VHS-upptökuvélinni á öxlinni þegar við vorum lítil. Myndefni sem er algjörlega stórkostlegt og ómetanlegt að eiga, sérstaklega í því samhengi að geta horft hvar og hvenær sem er á þig brosandi og flissandi að stjana í kringum okkur systkinin. Þú varst ótrúlega merkileg mamma, elskaðir hamagang, útiveru og bras og hikaðir aldrei við að ganga í hlutina. Sumrin einkenndust af útilegum, göngum, sumarbústaðaferðum og veiði og þú kenndir okkur að meta þessa hluti. Þú ýttir okkur út fyrir þægindarammann og dróst okkur í rússíbana, vatnsrennibrautir og bröttustu skíðabrekkurnar meðan pabbi beið rólegur á kantinum með hressingu. Þú varst kappsöm og mátulega hvatvís, áttir það til að spila tölvuleiki fram á nótt (Mario Bros), vaða út í ískalt vatnið á brókinni til að auka líkurnar á veiði og jafnvel skreppa út á kvartmílu til að gefa aðeins í. Komst líka í „level“ skrilljón í Candy Crush! Þú varst ekki kona margra orða og virkaðir kannski róleg þeim sem þekktu þig ekki vel en við sem þekktum þig getum vottað að kraftmeiri konu var erfitt að finna, alltaf að og jarðýta til verka. Að ógleymdum hrekkjunum og aulahúmornum, jesús minn! Lagðir fyrir okkur hurðasprengjur og beiðst okkar flissandi hinum megin við hurðina með myndavélina, klófestir okkur og kitlaðir við hvert tækifæri sem gafst, viðbúin gagnárásum emjandi af hlátri. Eða þegar þú eða pabbi sögðuð einhvern hræðilegan aulabrandara og þú gast ekki hætt að hlæja eins og skólastelpa. Á sama tíma varstu samt svo hlý og góð. Knúsaðir okkur og kjassaðir og sagðir; lúsin mín, rófan mín, gullklumpurinn minn, strumpur. Passaðir að allt væri upp á punkt og prik, saumaðir föt og búninga, merktir ALLT, meira að segja hvern einasta lit, plastaðir skólabækurnar, sást til þess að við mættum vel tilhöfð í skólann, í afmæli, í veislur, þú bakaðir uppáhaldskökurnar okkar á afmælisdaginn og hélst fyrir okkur veislur. Án þess að við veittum því sérstaka athygli kenndir þú okkur í gjörðum en ekki orðum að við getum allt sem við viljum, að vera ekki hrædd og vaða í verkin með uppbrettar ermar. Eiginleiki sem okkur systkinum finnst svo sjálfsagður en höfum rekið okkur á núna á fullorðinsárum að er langt frá því að vera sjálfsagður. Sýndir okkur í gjörðum oftar en orðum að þú elskaðir okkur og varst stolt af okkur. Fyrir þig ætlum við ganga glöð út í lífið með dugnað og léttleika að leiðarljósi. Við munum að eilífu sakna þín.

Ungarnir þínir,

Fanney, Heiðdís,
Björn og Gunnhildur.

Elsku fallega mamman mín.

Undanfarnir dagar hafa verið afar undarlegir. Hjartað er brotið og raunveruleikinn þyrmir yfir mig á hverjum degi vitandi að þú sért nú fallin frá. Fyrstu dagana eftir að þú fórst frá okkur var veðrið ofboðslega bjart, fallegt og hlýtt, í stíl við þig. Himnarnir dansandi af gleði að fá þig til sín. Við grátum vegna þess að við elskum er sagt, og það á svo sannarlega við, því ég elska þig af öllu hjarta og sakna þín meira en orð fá lýst.

Við ungarnir þínir skrifuðum saman um það hversu góð, yndisleg, klár og raungóð mamma og amma þú varst, og hversu skemmtilegt líf þið pabbi sköpuðuð fyrir okkur. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir þig, allt sem þú gerðir fyrir mig og kenndir mér, og ég er svo stolt af því hvað þú stóðst þig vel. Veikindi þín voru óvægin, dugnaður þinn, elja, styrkur og hugrekki komu þér langt og það er mér mikill heiður að vera dóttir þín. Þú kenndir mér að hlusta á eigið innsæi og trúa á sjálfa mig.

Þann 25. júní nk. hefðir þú orðið 63 ára. Ég vildi að ég gæti fagnað með þér en deginum verður fagnað þér til heiðurs. Hvort sem það verður úti í miðri veiðiá, sem var þér heldur betur að skapi, eða með því að fara í góða fjallgöngu í náttúrunni. Það er sárt að finnast tíminn ekki hafa verið nægur, og að þú hefðir átt að fá að lifa mikið lengur við góða heilsu. Öllu sem hefði átt að vera og hefði getað orðið þarf nú að skapa nýjan farveg með minningu þína að leiðarljósi.

Þér var eðlislægt að hjálpa fólki, bæði sem manneskja og sem sjúkraliði, og hefur ávallt verið mér fyrirmynd. Minningar um káta og brosandi mömmu og ömmu ylja mér um hjartarætur. Þú hefur verið mér mikill stuðningur í móðurhlutverkinu og það var svo gaman að sjá hvað þú ljómaðir í kringum barnabörnin þín. Ég umkringi mig áfram blómum, prjónaskap, göngum, náttúru, bókum, bakstri, útilegum, veiðiferðum, sumarbústaðaferðum og sólarlandaferðum, því þannig finnst mér ég tengjast þér. Ásamt samverustundum með öllu fólkinu okkar auðvitað og göngunum við Hvaleyrarvatn, sem þú elskaðir.

Þú hafðir mikið dálæti á kríum frá æskuárunum þínum. Krían verndar ungana sína af öllum krafti, og veit ég að þú munt halda áfram að vernda okkur að ofan. Ég trúi því að ég muni hitta þig aftur, og mun ég lifa með þig, elsku mamma mín, með mér í hug og hjarta þar til við hittumst næst.

Elsku mamma

Takk fyrir allt

Þú ert krían mín

Ég er unginn þinn

Að eilífu

Ástarkveðja.

Dísin þín,

Heiðdís.

Stefanía systir mín fæddist í Grund á Kópaskeri á bjartri sumarnóttu árið 1961 og það er einmitt mín fyrsta minning í þessu lífi.

Var vakin upp við að fædd væri lítil stúlka. Móðir mín lá undir sæng og við hliðina á rúminu var vaggan. Ég klifraði upp í rúmið til þess að sjá barnið og tjáði móður minni að hún væri ófríð og bætti svo við: „Hún er búin að stela vöggunni minni!“ Man samt að ég var mjög stolt að vera orðin stóra systir.

Æskan einkenndist af sveitasælunni í Akurseli og dásamlega Kópaskeri þar sem við systur áttum okkar annað heimili hjá föðursystkinunum, Sigþrúði, Gunnlaugi og Árna.

Faðir okkar, Björn Stefánsson, tók við búskapnum í Akurseli eftir foreldra sína. Hann var sá eini af þeim systkinum sem giftist. Við fluttum úr sveitinni áríð 1968 til Kópaskers og bjuggum fyrst í Grund, eða þangað til nýja húsið, Ljósafell, varð íbúðarhæft.

Grund stendur í miðju þorpinu á Kópaskeri. Árni trésmiður byggði húsið, Gunnlaugur var innkaupastjóri í Kaupfélaginu og Sigþrúður var handavinnukennari. Auk þess að kenna rak hún heimilið af miklum myndarskap. Þarna var eldað og bakað, heklað og prjónað, skúrað og skrúbbað, pússað og fægt, maður minn, og ekki má gleyma saumaskapnum og Burda-blöðunum og við systur nutum góðs af þessu öllu.

Það var oft mikill gestagangur í Grund. Ættingjar að sunnan voru duglegir að koma í heimsókn á sumrin. Hulda fóstursystir pabba var í miklu uppáhaldi, hún færði okkur alltaf eitthvað fallegt úr borginni sem ekki fékkst í Kaupfélaginu.

Stefanía kynntist Skarphéðni sínum á Akureyri þar sem örlögin leiddu þau saman, það var sannarlega þeirra gæfa í lífinu. Þau bjuggu lengst af í Hafnarfirði. Á námsárum Skarphéðins bjuggu þau á Akureyri og síðar flutti fjölskyldan til Spánar vegna starfa Skarphéðins.

Við fórum norður á hverju sumri að heimsækja æskustöðvarnar og oftar en ekki vorum við saman systur ásamt fjölskyldum okkar í Ljósafelli og þá var nú fjör. Börnin okkar kynntust einstöku mannlífinu og frelsinu í þorpinu og eignuðust vini fyrir lífstíð.

Við vorum líka mjög duglegar að fara saman í útilegur, bústaða- og veiðiferðir með krakkana. Stefanía var mikil veiðikló og keppnismanneskja og oftar en ekki veiddi hún flesta fiska og tíndi mest af berjum. Ekki má gleyma sumarbústaðarbrasinu þegar við keyptum saman fokheldan bústað og áttum þar ógleymanlegar stundir.

Stefanía var lærður sjúkraliði og það varð hennar ævistarf, hún starfaði m.a. á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Takk elsku systir fyrir öll árin sem við áttum saman og fyrir að passa dætur mínar. Það verður seint fullþakkað. „Það er komið sumar“ sungum við saman á pallinum um árið, sé okkur í anda kátar og glaðar í sumarblíðunni með krakkaormana allt um kring.

Stefanía greindist með alzheimer fyrir nokkrum árum og mikið hefur reynt á fjölskylduna í hennar erfiðu veikindum. Elsku Skarphéðinn, Fanney, Heiðdís, Björn, Gunnhildur og fjölskyldur, votta ykkur einlæga samúð.

Blessuð sé minning hennar.

Arnþrúður Guðrún Björnsdóttir.

Hún Stefanía fékk hægt andlát. Sofnaði í faðmi fjölskyldunnar. Í bland við sorg og söknuð var það samt ákveðinn léttir að hún skyldi fá að fara, og það með svo miskunnarsömum hætti. Þrautunum var þá lokið.

Það var fyrir um fjórum árum að þau Skarphéðinn komu til okkar og Stefanía sagði okkur frá því að hún hefði greinst með alzheimer. Það var vissulega áfall, fyrir þau en líka fyrir okkur öll hin sem nærri þeim standa. Við fylgdumst með hvernig heilsunni hrakaði, fyrst hægt, en svo með vaxandi þunga og hraða.

Síðustu tvö til þrjú árin eða svo má segja að Skarphéðinn hafi helgað líf sitt að öllu leyti umönnun hennar, þar til loksins lánaðist að fá fyrir hana vistun á hjúkrunarheimilinu Eir.

Nú, þegar við lítum yfir farinn veg, rifjast upp þau tímabil þegar við bjuggum öll á höfuðborgarsvæðinu og samgangur var mikill milli heimila okkar. Börnin fengu að kynnast og leika sér saman. Stefanía var kraftmikil og glaðlynd. Tók tíðum þátt í garðvinnupuði hjá tengdaforeldrum sínum ásamt okkur á Hagamelnum í Skilmannahreppi þar sem börnin áttu sérstakar gæðastundir með afa og ömmu.

Þau fluttu til Spánar og bjuggu þar í nágrannabæ Barcelona í nokkur ár. Þegar við heimsóttum þau þangað var Stefanía nánast orðin heimamaður þar, talaði vandræðalaust við heimamenn í verslunum og veitingahúsum, opinberum skrifstofum, rataði um allt eins og þetta væri bara litla gamla heimabyggðin á Kópaskeri, keyrði um allt leikandi létt á gamla Opelnum sem rúmaði alla fjölskylduna.

Eins og títt er um sjómannskonur þurfti Stefanía að standa keik þegar eiginmaðurinn var til sjós og hún gerði það með sóma. Ekki síður þegar hann var kominn í land, en þurfti vinnu sinnar vegna að ferðast út um allan heim. Og hún tók líka virkan þátt í ferðalögum fjölskyldunnar hér innanlands, til að mynda útilegum og veiðiferðum sem þau höfðu yndi af.

Við kveðjum nú Stefaníu við leiðarlok. Söknuður og sorg setjast að, en um leið vitum við að örlögin verða ekki umflúin og eins og komið var fólst í þeim líkn við þeim þrautum sem lagst höfðu á okkar kæru Stefaníu. Við sendum Skarphéðni, börnunum, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi hún hvíla í friði.

Herdís Ólafsdóttir og Þórhallur Jósepsson.