Kringlan er sem kunnugt er í eigu Reita fasteignafélags. Í kauphallartilkynningu frá Reitum í gær kom fram að bruninn hefði ekki áhrif á afkomuhorfur Reita vegna ársins 2024.
Kringlan er sem kunnugt er í eigu Reita fasteignafélags. Í kauphallartilkynningu frá Reitum í gær kom fram að bruninn hefði ekki áhrif á afkomuhorfur Reita vegna ársins 2024. — Morgunblaðið/Eggert
Óvíst er hvenær heildartjón vegna brunans í Kringlunni liggur fyrir að sögn framkvæmdastjóra og stjórnarformanns Kringlunnar. Flestir fyrirtækjaeigendur sem sluppu við brunann en verða að hafa lokað fram á fimmtudag séu með rekstrarstöðvunartryggingu sem mögulega er hægt að grípa til

Óvíst er hvenær heildartjón vegna brunans í Kringlunni liggur fyrir að sögn framkvæmdastjóra og stjórnarformanns Kringlunnar. Flestir fyrirtækjaeigendur sem sluppu við brunann en verða að hafa lokað fram á fimmtudag séu með rekstrarstöðvunartryggingu sem mögulega er hægt að grípa til.

„Ég get ekki staðfest neina tölu,“ segir Inga Rut Jónsdóttir framkvæmdastjóri Kringlunnar í samtali við ViðskiptaMoggann spurð hvort heildartjón liggi fyrir vegna brunans í Kringlunni.

Á fjórða tímanum á laugardag braust út eldur á þaki Kringlunnar og hefur verslunarmiðstöðin verið lokuð síðan. Búist er við að hún verði opnuð á fimmtudag.

„Hér eru 150 einingar og það eru um 10 einingar sem urðu fyrir verulegu tjóni,“ segir Inga. Rekstrarfélag Kringlunnar er með ábyrgð á ytra byrði og sameign, eigendur á sínum séreignum og rekstraraðilar á innréttingum, fatnaði og rekstrarstöðvun.

Guðni Aðalsteinsson, stjórnarformaður Kringlunnar og forstjóri Reita, tekur í svipaðan streng í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Sjóvá er að meta tjónið og það mun taka smá tíma þannig það er ekkert hægt að segja til um töluna,“ segir Guðni. Hann segir Kringluna með lögbundna bruna- og vatnstryggingu hjá Sjóvá. Tryggingar Kringlunnar nái utan um tjónið en svo sé alltaf einhver sjálfsábyrgð.

„Við vorum á fundum í dag með Sjóvá og öðrum tryggingafélögum, sem eru sum hver að tryggja leigutaka, til þess að tryggja að það sé full samfella í vinnunni,“ segir Guðni en að tryggingafélögin hafi unnið vel saman í því.

„Við viljum fyrst og fremst passa upp á að upplifunin í Kringlunni sé góð og þess vegna höfum við frestað opnuninni fram á fimmtudag, meðal annars til að passa upp á loftgæði og skerma burt þær einingar sem hafa orðið fyrir mestum skaða,“ segir Guðni.