Hælisleitendur Það varðar brottvísun gerist menn sekir um refsilagabrot.
Hælisleitendur Það varðar brottvísun gerist menn sekir um refsilagabrot. — Morgunblaðið/Eggert
Alls hafa fimmtíu og sjö þeirra sjötíu og tveggja hælisleitenda sem vísað hefur verið af landi brott vegna refsilagabrota yfirgefið landið en þrír bíða brottflutnings. Hefur Útlendingastofnun óskað eftir því við stoðdeild ríkislögreglustjóra að…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Alls hafa fimmtíu og sjö þeirra sjötíu og tveggja hælisleitenda sem vísað hefur verið af landi brott vegna refsilagabrota yfirgefið landið en þrír bíða brottflutnings. Hefur Útlendingastofnun óskað eftir því við stoðdeild ríkislögreglustjóra að brottvísunarákvarðanir einstaklinganna verði framkvæmdar. Þetta kemur fram í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Um afdrif brottvísunar hinna tólf sem út af standa er það að segja að ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum þriggja hælisleitenda var hnekkt á kærustigi og níu eru til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála.

Einnig var spurt um hvort umræddar brottvísanir væru vegna afbrota sem framin hafa verið hér á landi, erlendis eða hvort tveggja, en ekki liggur fyrir vitneskja um það hjá stofnuninni, þar sem upplýsingar þar um eru ekki skráðar í upplýsingatæknikerfi Útlendingastofnunar.

Þá eru níu brottvísunarmál í vinnslu hjá Útlendingastofnun þar sem tilefnið er refsilagabrot viðkomandi.

Flestar brottvísanirnar voru á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. útlendingalaga, þar sem viðkomandi var dæmdur til refsingar eða sætt öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði.

Ekki er skilyrði fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar hér á landi að umsækjandi framvísi sakavottorði frá heimaríki eða fyrrverandi búseturíkjum, að því er fram kemur í svari stofnunarinnar. Á hinn bóginn er það eitt grunnskilyrða annarra dvalarleyfa að umsækjandi framvísi sakavottorði og/eða yfirlýsingu um hreinan sakaferil svo landganga verði heimil hér á landi. Segir Útlendingastofnun að leitað sé til lögreglu um áreiðanleikakönnun skjala eftir því sem tilefni sé til.