Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Vladimír Pútín Rússlandsforseti þakkaði í gær leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, fyrir þann mikla stuðning sem Pjongjang hefur sýnt Moskvuvaldinu í innrásarstríði sínu í Úkraínu. Munu Rússar og Norður-Kóreumenn stórefla samstarf sitt á sviði varnarmála á komandi misserum. Samband ríkjanna hafi í raun sjaldan verið nánara en einmitt nú. Er þetta á meðal þess sem fram kom í máli Rússlandsforseta sem nú er í opinberri heimsókn í norður-kóresku höfuðborginni.
Heimsókn Rússlandsforseta verður að teljast til tíðinda, en þetta er fyrsta ferð hans til Norður-Kóreu í 24 ár. Er búist við því að leiðtogarnir muni m.a. ræða stöðuna í Úkraínustríðinu og með hvaða hætti Pjongjang geti stutt við bakið á stríðsrekstri Kremlverja.
Rússar þakklátir Pjongjang
Vestrænar leyniþjónustur í samstarfi við Suður-Kóreu hafa fylgst náið með norðanmönnum frá upphafi átaka í Úkraínu. Eru menn þess fullvissir að Pjongjang hafi veitt Rússum hernaðaraðstoð og fengið í staðinn mikilvægar tækniupplýsingar sem nýtast m.a. til að þróa langdrægar eldflaugar. Ráðamenn í Pjongjang hafa ávallt neitað því að vera að aðstoða Rússa en orð Pútíns nú þykja grafa verulega undan þeim yfirlýsingum.
„Við kunnum mjög að meta stuðning Norður-Kóreu við sérstaka hernaðaraðgerð Rússlands í Úkraínu,“ segir Pútín í grein sem birt var í ríkismiðli Norður-Kóreu fyrir heimsóknina. Þjóðirnar séu nú að „þróa samstarfið“ enn frekar til framtíðar.
Stjórnvöld vestanhafs hafa áhyggjur af auknu samstarfi Moskvu og Pjongjang. Heimsókn Rússlandsforseta mun vafalaust hafa áhrif á öryggisástandið á Kóreuskaga og í Úkraínu.
John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, segir Pentagon búa yfir upplýsingum sem sýna fram á að Rússlandsher noti eldflaugar frá Norður-Kóreu til árása í Úkraínu. Eins er talið fullvíst að norðanmenn hafi sent Rússum milljónir af sprengikúlum til stórskotaliðsárása. Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) segir heimsóknina sýna að Pútín eigi helst vini innan alræðisríkja.