Háskólanám Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, segir ánægjulegt að fólk beri traust til skólans.
Háskólanám Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, segir ánægjulegt að fólk beri traust til skólans. — Morgunblaðið/Eggert
Ríflega 9.200 umsóknir bárust Háskóla Íslands og fjölgaði þeim um tæp tíu prósent á milli ára. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, segir fjölgun umsókna nú bætast ofan á rúmlega 6 prósenta fjölgun á síðasta ári

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Ríflega 9.200 umsóknir bárust Háskóla Íslands og fjölgaði þeim um tæp tíu prósent á milli ára. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, segir fjölgun umsókna nú bætast ofan á rúmlega 6 prósenta fjölgun á síðasta ári. Segir hann fólk bera traust til Háskóla Íslands og skólastjórnendur séu mjög ánægðir með það.

Metfjöldi umsókna barst Háskólanum í Reykjavík en heildarfjöldi þeirra er tæplega 4.400 en var um 4.200 fyrir síðustu skólaönn. Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, segir mjög gleðilegt að sjá umsóknum fjölga, ekki síst í ljósi þess að skólinn sé frá hausti eini háskólinn á Íslandi sem fjármagnaður er að hluta með skólagjöldum. Segir hún það einn besta vitnisburðinn um það góða starf sem fari fram í skólanum, þar sem allt sé lagt í að veita nemendum framúrskarandi menntun ásamt góðri og persónulegri þjónustu við bestu mögulegu aðstæður.

Réttur tími

Háskólanum á Akureyri bárust 2.024 umsóknir og fjölgaði þeim um 7% frá síðasta ári. Frá árinu 2022 hefur umsóknum í HA fjölgað um tæp 20%. Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, segir almenna ánægju með námið og námsformið fyrst og fremst ráða aðsókninni auk þess sem það virðist vera réttur tími í dag fyrir fólk að fara í nám. Segist Eyjólfur einfaldlega greina einhverja undiröldu í samfélaginu.

Metaðsókn

Nýtt aðsóknarmet var slegið við Háskólann á Bifröst líkt og Morgunblaðið greindi frá í síðustu viku en umsóknum fjölgaði um nærri 200% milli ára eftir að skólagjöld voru felld niður í vor og skráningargjald tekið upp.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor sagði ákvörðunina hafa orðið til þess að styrkja samkeppnisstöðu háskólanáms og þá væri um að ræða mikilvægt jafnréttismál varðandi aðgang að háskólanámi. Kvaðst hún þakklát fyrir þann áhuga og traust sem fólk ber til skólans sem menntastofnunar.