Spegilsléttur Ísafjörður.
Spegilsléttur Ísafjörður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín segir ljósmyndun og leiðsögn fara vel saman. „Ég er búin að fara víða um landið í gegnum árin og mynda og hef auga fyrir því hvað er fallegt og hvað er skemmtilegt að skoða. Svo hef ég hef kennt mikið og leiðsögn og kennsla eru tvær hliðar á sama peningi

Kristín segir ljósmyndun og leiðsögn fara vel saman. „Ég er búin að fara víða um landið í gegnum árin og mynda og hef auga fyrir því hvað er fallegt og hvað er skemmtilegt að skoða. Svo hef ég hef kennt mikið og leiðsögn og kennsla eru tvær hliðar á sama peningi. Enda eru margir kennarar að leiðsegja því þetta snýst um að halda utan um hóp og miðla. Það getur ekki verið verið tilviljun hvað það eru margir kennarar að leiðsegja.“

Kristín segist reyndar ekki vinna við náttúruljósmyndun í starfi sínu sem ljósmyndari en hefur gert meira af slíku í frítíma sínum. „Ég hef líka gaman af hversdagsleikanum og litlu hlutunum og ég hef óskaplega gaman af veðrinu,“ segir Kristín.

Skemmtilegt að vera í rigningu og roki

Hvernig myndar maður veðrið?

„Með því að vera ekki alltaf bara á ferðinni í góðu veðri. Við ættum að endurskilgreina hvað er gott veður og fá okkur betri pollagalla og njóta þess að vera úti í rigningunni og rokinu. Þetta er bara hluti af upplifuninni finnst mér,“ segir Kristín. Hún segir meðal annars hægt að fanga veðrið á mynd með því að mynda skýjafarið, vindinn og sjóinn.

„Talandi um veðrið þá er ein af mínum áhrifamestu upplifunum í leiðsögn þegar ég var með franska ferðamenn á Ísafirði. Ég sigldi yfir Djúpið út á Hesteyri, það var ekki gott veður en siglingin yfir Djúpið var stórkostleg. Það voru hvalir sem komu að kíkja á okkur. Við gengum þar á land og gengum um í þvílíkum rigningarsudda og í göngunni önduðum við að okkur sögunni. Tíndum upp í okkur aðalbláber af því að þetta var í byrjun september. Ég kenndi þeim að búa til berjatínu úr fingrunum, setja bara lófana undir aðalbláberjalyngið og tína þannig. Við komum síðan öll rennandi blaut og berjablá inn í Læknishúsið á Hesteyri þar sem við fengum rjúkandi heitt kaffi og með því. Þetta var stórkostlegt.“

Nýtur þess að fara rólega um Vestfirði

Kristín segir að hún aðhyllist hæglætisferðalög í sínum fríum og leggur áherslu á að njóta og skoða hvert og eitt svæði vel og vandlega.

„Ég hef oft verið fyrir vestan og hef á síðari árum verið mikið á norðanverðum Vestfjörðum. Vestfirðirnir bjóða upp á að keyra hring á nokkrum dögum. Það er til dæmis hægt að keyra Djúpið og taka tíma í það, stoppa, fara út úr bílnum og ganga upp á alla litlu höfðana og ofan í allar litlu fjörurnar. Fá sér kannski kaffi á Ögri eða í Litlabæ í Skötufirði. Stoppa aðeins og njóta á leiðinni. Á leiðinni heim er svo hægt að fara nýju göngin og Dynjandisheiði sem er nú heldur betur búið að laga.

Svo finnst mér Ísafjörður, bærinn sjálfur, ótrúlega skemmtilegur. Þar er líka aldeilis hægt að fara gott út að borða. Uppáhaldsheiti potturinn minn á landinu er í Bolungarvík en hann er með útsýni beint upp á fjall. Önundarfjörður er fallegur á sumarkvöldum, sjórinn spegilsléttur, fjöllin á hvolfi í sjónum og þessi fallegi hvíti sandur. Dýrafjörður er óskaplega fallegur líka og alltaf gaman að koma á Þingeyri,“ segir Kristín um Vestfirðina.

Í staðinn fyrir að keyra frá A til B mælir Kristín með því að fara hægt yfir og taka kannski nýtt og nýtt þema fyrir á hverju svæði fyrir sig. Með því að einbeita sér að nýju þema má sjá landið í nýju ljósi. „Ég fór með foreldrum mínum fyrir nokkrum árum í ferðalag og við vorum fyrir norðan og fórum einn daginn og skoðuðum kirkjur í Eyjafirðinum en það er mikið af fallegum kirkjum fyrir norðan.“

Ætlar að njóta í tjaldinu

Kristín segist hafa verið dugleg að nýta hina ýmsu gistimöguleika á undanförnum árum en ætlar að draga tjaldið fram í ár. „Ég var að fara yfir tjaldið mitt og held að við ættum að fara að vera meira í tjöldum. Það er náttúrulega langódýrast og það er svo mikið frelsi í því að tjalda. En auðvitað held ég að fólk eigi bara að blanda þessu saman,“ segir Kristín og nefnir bændagistingu, stéttarfélagsíbúðir og sumarbústaði.

Á ferðalögum tekur Kristín gjarnan daginn snemma en finnst ekki síður notalegt að horfa út á sjóinn á fögrum sumarkvöldum. „Það eru þessar stillur fyrir vestan sem mér finnst svo stórkostlegt að upplifa verandi úr rokinu í Reykjavík. Eitt af mínum uppáhaldslögum er Stingum af eftir Mugison og mér finnst það lag kjarna þessa tilfinningu hvað er gott við að ferðast. Andvökubjart og himinn – kvöldsólarskart, þetta með að finna lítinn læk og litla laut og spegilsléttan fjörð. Textinn fjallar svo mikið um að njóta – og njóta með börnunum og fjölskylduhjörðinni.“

Er hver árstíð einstök fyrir vestan?

„Mér finnst það. Mér finnst allar árstíðir hafa sinn sjarma. Ég á alltaf pínulítið erfitt með vorið af því að það getur verið svo grátt og hráslagalegt. Að vísu finnst mér alltaf fallegt þegar fjöllin verða röndótt í fjörðunum fyrir vestan og austan þegar snjóinn tekur upp. Mér finnst líka fallegt á haustin þegar allt byrjar að fölna og það er þessi fallega birta. Þá verður eins og það sé búið að sáldra flórsykri yfir fjöllin, þegar byrjað er að snjóa efst í fjöllunum.“

Að lokum bendir Kristín á að það sé vel hægt að verja öllu sumarfríinu á Vestfjörðum og mælir líka með því að skoða sunnanverða Vestfirði. „Það er hægt að fara á Rauðasand, Látrabjarg og Selárdalinn,“ segir hún og mælir með tjaldstæðinu á Tálknafirði og sundlaugunum á svæðinu.