Davíð Hjálmar Haraldsson yrkir: Í Krossanesborgum eftir júníhretið 2024:
Lofsverður er lífsins kraftur.
Lifnar rós í urð og for
og lóan hefur orpið aftur;
eggin fjögur missti í vor.
Gunnar J. Straumland um aldýrt brim við Langasand:
Köldu trafsins földum frá
fryssings skita kyssti brá,
hissa rita flissar flá,
fjöld af hafsins öldum sá.
Og hér yrkir Gunnar og kallar Aldýr sýn úr djúpinu:
Kalda bylgju, drunur djúpar
dreymdu fjöllin. Bíða hvalir.
Galda fylgju grunur hjúpar,
gleymdu tröllin líða kvalir.
Jón Jens Kristjánsson yrkir, þar sem á textavarpi segir að frost á Garðskagavita sé –49,6 gráður. Hamfarahlýnun?:
Kalt mun á Garðskaga, króknar þar flest
kuldinn er meiri en áður
og nú sést að frosti þar niður sló mest
í nálega 50 gráður.
Jón Atli Játvarðarson yrkir:
Reynistaða röstin blá,
rétt við land má una.
Aldan fellur að og frá,
ættum við að muna.
Garðyrkjumannslimra eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:
Ég runngróður rækta og þekki,
á rósum mig spreyti sem hekki
og frægt er mitt yrki
af fjölstofna birki
úr furu og gegnheilu tekki.
Ærin þörf heitir þessi limra Davíðs Hjálmars:
Hún Malín þarf mikið að tala
um menntun og útgerð og Scala
og vorfrost og hest
og Viðfjörð og prest
en veit ekki rassgat í bala.
Jóhann fá Flögu segir frá því að þegar mölflugur, öðru nafni gestaflugur, sáust fljúga var það talið boða gestakomu eins og tvær næstu vísur sýna:
Flugan gesta flýgur hér
falleg alla vega.
Því að fresta ekki er,
einhver sest í kvöld hjá mér.
Gestaflugan er hér enn
aftur á bak að fljúga.
Ekki koma margir menn;
mun hún þessu ljúga.
Karl Kristjánsson alþingismaður kvað:¶Auðlegðin er ekki smá¶og ekki er smiðurinn gleyminn¶sem lætur sérstætt andlit á¶alla er koma í heiminn.¶Öfugmælavísan:
Svanurinn fjaðrir svartar ber,
situr hann oft í klettum,
hrafninn býr til hreiður sér
á hrannar bárum sléttum.