Guðrún Sigríður Sæmundsen gss@mbl.is Niðurstöður úr íbúakönnun landshlutanna fyrir árið 2023 hafa verið birtar. Samkvæmt könnuninni, sem framkvæmd er á fjögurra ára fresti, eru íbúar í Skagafirði hamingjusamastir landsmanna. Þegar fleiri þættir voru skoðaðir kom Eyjafjörður einna best út og Skagafjörður þar fast á eftir í öðru sæti.

Guðrún Sigríður Sæmundsen

gss@mbl.is

Niðurstöður úr íbúakönnun landshlutanna fyrir árið 2023 hafa verið birtar. Samkvæmt könnuninni, sem framkvæmd er á fjögurra ára fresti, eru íbúar í Skagafirði hamingjusamastir landsmanna. Þegar fleiri þættir voru skoðaðir kom Eyjafjörður einna best út og Skagafjörður þar fast á eftir í öðru sæti.

Markmið könnunarinnar er að kanna hug íbúa til búsetuskilyrða, aðstæðna á vinnumarkaði og afstöðu til mikilvægra atriða, s.s. hamingju og hvort íbúar séu á förum frá landshlutanum. Vífill Karlsson, Ph.D. í hagfræði hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV), hafði yfirumsjón með framkvæmdinni en naut aðstoðar frá Hrafnhildi Tryggvadóttur, ráðgjafa SSV, við úrvinnslu gagna.

Dalabyggð hækkaði mest milli kannana en heildareinkunn Vestmannaeyja lækkaði mest frá árinu 2020 og virðist þar muna breytingum á milli kannana á þáttum eins og rafmagni, leiguíbúðum og almenningssamgöngum. Hins vegar voru íbúar í Vestmannaeyjum ánægðastir með þjónustu síns sveitarfélags þegar spurt var almennt.

Aðspurður segir Vífill að oft séu skýringar á breytingum milli ára borðleggjandi en stundum ekki. Könnunin veki stjórnendur sveitarfélaga víða um land til umhugsunar.

Ungt fólk á aldrinum 18-34 ára er sérstaklega aðgreint í svörum, en sá hópur er áhugaverður mælikvarði í byggðafræðum, að sögn Vífils, í honum felist ljóslega framtíð byggðarlaganna.

Yfirleitt er ekki mikill munur á svörum karla og kvenna en það sem vekur athygli hjá umsjónarmönnum könnunarinnar er hve ánægðari konur virðast í Húnaþingi vestra, nú sem og í síðustu könnun.

Hægt er að rýna í helstu niðurstöður úr könnuninni á vef Byggðastofnunar.

Höf.: Guðrún Sigríður Sæmundsen