Óli Björn Kárason
Í hátíðarræðu á 17. júní benti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra réttilega á að í „okkar heimshluta eru vaxandi áhyggjur af lýðræðinu, neikvæðum áhrifum samfélagsmiðla, teikn eru um aukna skautun, netárásir og undirróðursöfl sem skeyta engu um framtíð landsmanna“. Upphrópanir og skilaboð í stuttum myndskeiðum séu allsráðandi og falsfréttir flæði „um netheima í harðri samkeppni við sannleikann og oft skortir gagnrýna hugsun til að greina þar á milli“.
„Málefnaleg umræða sem er lýðræðinu nauðsynleg á víða í vök að verjast. Verum minnug þess að gæði skoðanaskipta og gæði ákvarðana, þjóðinni til heilla, haldast iðulega í hendur,“ sagði forsætisráðherra. Undir er sjálft lýðræðið sem er sverð og skjöldur þjóðarinnar fyrir hvers konar ytri og innri ógn, eins og forsætisráðherra undirstrikaði með réttu: „Tökum höndum saman um að viðhalda og verja ávallt getuna til að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Gætum þess einnig að láta ekki ólík viðhorf og nýjar áskoranir draga úr okkur kjarkinn til frjálsra skoðanaskipta og til að taka ákvarðanir fyrir framtíðina.“
Réttur hvers og eins til að láta skoðanir sínar í ljós, án þess að óttast, er tryggður í stjórnarskrá og með lögum. Við Íslendingar höfum með réttu verið stoltir af því opna samfélagi sem við sameiginlega höfum búið til. Við höfum ekki alltaf verið samstiga og oft tekist á – stundum harkalega. En oftast höfum við borið gæfu til þess að standa vörð um málfrelsið, þannig að ólíkar skoðanir hafa fengið að heyrast og gagnrýni ekki kæfð með háreysti, ókvæðisorðum og brigslyrðum. En varnaðarorð forsætisráðherra á 80 ára afmæli lýðveldisins eru tímabær. Margt bendir til þess að samfélagið sé að breytast. Umburðarlyndi gagnvart andstæðum skoðunum er að minnka og rökræðan drepin með hrópum, öskrum og hávaða. Aðsúgur er gerður að ráðamönnum við opinberar embættisskyldur og friðhelgi Alþingis er brotin.
Öryggi borgaranna
Á sama tíma hafa alþjóðlegir glæpahringir náð fótfestu hér á landi. Það hefur öllum mátt vera ljóst að grípa þarf til aðgerða og veita lögreglunni þau verkfæri sem henni eru nauðsynleg til að tryggja betur öryggi borgaranna – okkar allra. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra lagði þess vegna fram frumvarp um breytingar á lögreglulögum í febrúar síðastliðnum. Byggt er á frumkvæði fyrrverandi dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, árið 2022. Markmið lagabreytinganna er að styrkja og skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða „einkum hvað varðar afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins, afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og afbrot sem framin eru á netinu“, eins og segir í greinargerð.
Þegar þetta er skrifað hefur frumvarpið ekki enn náð fram að ganga. Ábyrgð þeirra sem standa í vegi fyrir framgangi málsins er mikil og raunar prófsteinn á það hvort hægt sé að eiga við þá samstarf í erfiðri baráttu gegn uppgangi skipulagðra alþjóðlegra glæpahópa og verjast öðrum ytri ógnunum. Því verður illa trúað að stjórnmálamenn og -flokkar sem hæst tala um mannréttindi leggi steina í götu lögreglunnar til að verja frelsi einstaklinga.
Í greinargerð frumvarpsins er bent á að hópar innlendra jafnt sem erlendra aðila hafi það að atvinnu að fremja fjölda afbrota með skipulegum hætti, þar á meðal þjófnað, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti, að ógleymdu mansali. Fjöldi vopnaðra útkalla sérsveitar lögreglunnar hefur meira en 12-faldast á síðustu 10 árum. Alls voru útköllin 461 á síðasta ári samkvæmt svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Njáls Trausta Friðbertssonar.
Vegið að grunnstoðum
Á sama tíma verða ytri ógnanir við öryggi landsins alvarlegri líkt og kemur fram í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá febrúar síðastliðnum. Þar segir meðal annars orðrétt:
„Erlendar leyniþjónustustofnanir telja líklegt að andstæðingar vestrænna lýðræðisríkja muni á árinu 2024 halda áfram að stuðla að upplýsingaóreiðu með því að dreifa mis- og rangupplýsingum sem miða að því að grafa undan trausti almennings á ríkisstofnunum, félagslegri samheldni vestrænna ríkja og lýðræðislegum ferlum. Gott aðgengi og auðveld notkun/hagnýting á nýjum og öflugum tungumála- og gervigreindarforritum er fallin til að auka getu þessara aðila til að hrinda í framkvæmd trúverðugum áróðurs- og falsfréttaherferðum og framleiða á ódýran hátt sannfærandi texta-, mynd- og hljóðtengt efni, t.d. svokallaðar djúpfalsanir, með enn meiri gæðum.“
Í skýrslunni er bent á að óhindruð þátttaka í stjórnmálaumræðunni sé ein af grunnstoðum lýðræðis en að henni sé vegið. Aukin skautun, samsæriskenningar, falskar og öfgafullar staðhæfingar og jafnvel hótanir í garð kjörinna fulltrúa, embættismanna, forystufólks í atvinnulífinu og minnihlutahópa grefur undan frjálsri opinberri umræðu.
Þá segir í skýrslunni: „Umfang og eðli ofbeldishótana getur haft í för með sér kælandi áhrif á lýðræðisþátttöku svo sem í kosningum eða að einstaklingar forðast að taka þátt í opinberri umræðu af ótta við hótanir, eða áreiti gegn sér og sínum. Á heildina litið stuðlar haturs- og ofbeldisfull umræða að því að veikja stoðir lýðræðis.“
Varnaðarorð lögreglunnar enduróma brýningu forsætisráðherra á þjóðhátíðardaginn. Íslendingar þurfa sameiginlega að „verja ávallt getuna til að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt“. Í þeirri vörn verðum við að treysta á hæfni og möguleika lögreglunnar í baráttunni við skipulega glæpastarfsemi, hryðjuverkasamtök og erlend ríki sem leynt og ljóst vinna að því að grafa undan vestrænum gildum frelsis og lýðræðis.
Alþingi getur lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að samþykkja frumvarp dómsmálaráðherra, áður en þingi verður frestað.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.