PISA Íslenskir nemendur mældust undir meðaltali í PISA-könnuninni.
PISA Íslenskir nemendur mældust undir meðaltali í PISA-könnuninni. — Morgunblaðið/Haraldur Jónasson
Hæfni 15 ára nemenda á Íslandi í skapandi hugsun er undir meðaltali OECD og standa drengir sig verr en stúlkur. Markmið PISA-könnunarinnar, sem 64 ríki tóku þátt í, var að meta skapandi hugsun sem allir einstaklingar hafa í sér og nota dagsdaglega

Hæfni 15 ára nemenda á Íslandi í skapandi hugsun er undir meðaltali OECD og standa drengir sig verr en stúlkur. Markmið PISA-könnunarinnar, sem 64 ríki tóku þátt í, var að meta skapandi hugsun sem allir einstaklingar hafa í sér og nota dagsdaglega. Nemendur unnu með sögu- og textahugmyndir, settu saman einföld myndræn verk og lögðu til lausnir við samfélagslegum og vísindalegum úrlausnarefnum.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar búa 72% af íslenskum nemendum yfir grunnhæfni PISA í skapandi hugsun, en í OECD-ríkjunum var hlutfallið að meðaltali 78%. Íslenskar stúlkur stóðu sig þó talsvert betur en drengir þar sem 79% stúlkna töldust hafa grunnhæfni og 27% mældust með afburðahæfni. Það er þó undir meðaltali stúlkna í OECD-ríkjum sem voru með hlutföllin 82% og 31%.

Munurinn á milli landa er meiri á meðal drengja þar sem 65% drengja á Íslandi hafa grunnhæfni og tæplega 16% afburðahæfni, en samsvarandi hlutföll í ríkjum OECD eru 75% og 23% að jafnaði.

Hafa trú á eigin getu

Könnunin sýndi þó einnig fram á það að íslenskir nemendur væru jákvæðir og að þeir hefðu trú á eigin getu til þess að vera skapandi. Einnig var meirihluti íslenskra nemenda sammála því að ekki væri skortur á tækifærum og hvatningu til þess að vera skapandi í kennslustundum og var sú upplifun algengari hérlendis en að jafnaði í OECD-ríkjum.

Í tilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytisins kom fram að nú væri unnið að aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðum könnunarinnar.