Guðmundur Ingi Guðmundsson fæddist á Akureyri 15. júní 2004. Hann lést af slysförum 30. maí 2024.

Foreldrar hans eru Hafdís Elva Ingimarsdóttir, f. 8. febrúar 1970, og Guðmundur Rúnar Guðmundsson, f. 31. maí 1971. Systir Inga er Telma, f. 10. febrúar 1999. Móðurforeldrar voru Ósk Óskarsdóttir og Ingimar Þorkelsson, bæði látin. Föðurforeldrar eru Anna Ingólfsdóttir og Guðmundur Ómar Hönnuson.

Ingi ólst upp og lifði allan sinn tíma á Akureyri. Hann gekk í leikskólann Kiðagil, grunnskólann Giljaskóla og Verkmenntaskólann á Akureyri þar sem hann lauk námi í húsasmíði haustið 2023. Meistari Inga í verklegum hluta námsins var Sigurður Sigurðsson hjá SS Byggir, þar sem Ingi starfaði til síðasta dags. Ingi stefndi á að ljúka stúdentsprófi frá sama skóla um næstu áramót.

Ingi hafði alla tíð gaman af íþróttum. Framan af var það knattspyrnan sem hann stundaði með yngri flokkum Þórs, golf hjá Golfklúbbi Akureyrar og síðari ár tók hann líkamsræktina föstum tökum. Ingi var fjörmikill og átti stóran vinahóp, hann var lífsglaður, hjartahlýr og hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom.

Útför Inga fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 19. júní 2024, klukkan 13.

Hversu erfitt getur verið að koma sterkum tilfinningum og minningum í orð. Elsku Ingi okkar við viljum samt reyna. Þær eru ótal margar minningarnar þó við nefnum hér fáar.

Ljósmyndirnar sem við horfum á núna og myndirnar sem búa í hjartanu hlúa að okkur nú þegar allt er breytt.

Margar fallegar gleðistundir áttum við með honum Inga okkar allt frá því að hann var lítill kútur, bústinn og brosmildur, og öll árin síðan.

Það var svo gott að fá þennan bústna gullmola í hendur fyrir 20 árum. Finna fyrir honum í fanginu okkar.

Fjallmyndarlegur sagði presturinn þegar hann horfði á hann á skírnardaginn.

Hann sýndi það snemma að hann var ráðagóður og ákveðinn eins og þegar hann fór á rassinum um gólfið í staðinn fyrir að skríða.

Hann átti það til að taka stjórnina þegar við átti. Þriggja ára veraldarvanur úr leikskólanum sat hann með myndabókina sína fyrir framan litlu frænkurnar ári yngri. Þær voru allar undir sæng upp að höku í rúmi afa og ömmu. Ingi sat fyrir framan þær eins og kennarinn í leikskólanum og sýndi og túlkaði myndirnar og þær hlustuðu á stóra frænda og aðdáunin leyndi sér ekki.

Í fjölskylduboðum þegar frænkurnar sýndu leikrit, jafnvel dramatísk, kom hann grínistinn glaði inn í leikinn og tók senuna öllum til gleði.

Þegar afi varð 67 ára skoppaði níu ára gáskafulli Ingi um gólfið með gamlan göngustaf og söng „afi eldri borgari, afi eldri borgari“ í gríð og erg og hafði gaman af og vakti ósvikna kátínu.

Þannig liðu árin. Gott að fá hann í heimsókn. Alltaf glaður og hjartahlýr og tilbúinn í smá sprell. Eða að hnoðast með yngri frændum sínum inni í sjónvarpsherberginu og amma óttaðist að einhver meiddist.

Þegar Ingi var búinn að ákveða að læra húsasmíði vantaði meistara. Afi útvegaði honum viðtal sem síðan var ekki líklegt til árangurs. Þegar það var ljóst tók Ingi til sinna ráða og ákvað að hringja í meistara sem hann vildi læra hjá. Undirbjó sig vel, hringdi, fékk viðtal og síðan samning.

Ingi bar sig ekki saman við aðra, hann var alltaf hann sjálfur. Hann gat verið allra vinur, hann var jafningi þeirra stóru og jafningi þeirra smáu.

Elsku vinurinn, það er gott að eiga fallegar myndir og minningar þegar söknuðurinn er óbærilegur.

Elsku Hafdís, Rúnar og Telma, megi ljúfar minningar hlúa að ykkur í sorginni.

Amma og afi,

Guðmundur Ómar Hönnuson og Anna Ingólfsdóttir.

Elsku Ingi okkar.

Þú varst alltaf jákvæður og drífandi, sannkallaður gleðigjafi. Það er sárt að hugsa til þess að við fáum aldrei að hitta jákvæða, brosmilda, góðhjartaða, yndislega, sterka og fallega Inga okkar aftur. Þú varst alltaf svo flottur og fínn. Við minnumst þín, hugsum um allar stundirnar sem við áttum saman, sérstaklega öll fjölskyldufríin okkar erlendis. Þú munt alltaf lifa í hjörtum okkar. Við elskum þig að eilífu og söknum þín meira en orð fá lýst.

Fjölskyldan í Þrumutúni 10,

Guðrún Rut
Guðmundsdóttir.

Hjartahlýr og skemmtilegur, uppátækjasamur prakkari með stóra fallega brosið. Þannig stendur myndin af Inga, eins og hann var ávallt kallaður, okkur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum nú þegar við kveðjum þennan ljúfa og fallega dreng með nístandi sársauka.

Við sem höfum fylgst með Inga frá blautu barnsbeini og séð hann breytast úr barni í dreng og úr dreng í mann, vitum að í honum bjó framtíðin. Allt lífið beið hans og brosti við, hann var sjálfstæður og atorkumikill, barngóður með eindæmum, ungur maður sem naut lífsins í botn.

Það var alltaf gaman og gefandi að vera í kringum Inga og fjölskyldu hans. Síðustu daga hafa ótal ljúfar minningar runnið í gegnum hugann og það er okkur þungbært að reyna að sættast við þá staðreynd að fá aldrei aftur að hitta Inga með fjölskyldunni í Vættagilinu.

Elsku Ingi, takk fyrir allar samverustundirnar heima og heiman. Missir foreldra og systur er óbærilegur og við biðjum góðan Guð að umvefja þau og fjölskyldu þeirra og leiða með styrkri hendi.

Þórunn, Jón Birgir og börn.

Elsku Ingi okkar, þú varst svo mikill meistari, þú varst alltaf til í allt, það var alltaf mikil gleði í kringum þig og þú varst mikið fyrir það að rugla í okkur. Þú varst alltaf á hlaupum þar sem þú vildir alltaf sinna öllu því fólki sem þú hafðir í kringum þig.

Ingi var alltaf til í að vera með mér þrátt fyrir að ég væri yngri frænka hans, hann leit bara á mig sem jafnaldra vinkonu sína. Ég gat alltaf treyst Inga og fengið góð ráð hjá honum. Elsku Ingi, við ætluðum saman á Þjóðhátíð og vorum orðin mjög spennt, enda mikil stemning hjá okkur. Þú verður alltaf með í huga okkar og hjarta.

Ingi var mjög hjartagóður strákur og hann gerði aldrei grín að nokkrum manni og honum var alveg sama hvað öðrum fannst.

Þú varst alltaf til í að skutla mér sama hvað klukkan var, ég elskaði að skutla þér þegar ég fékk bílprófið enda voru bílferðirnar okkar alltaf „bussin“!

Ég elska þig og sakna.

Þín frænka,

Fjóla Katrín.

Það var svo átakanlega sárt að fá fréttirnar að elsku Guðmundur Ingi væri látinn. Elsku Ingi frændi aðeins nítján ára gamall og svo stutt í að þú hefðir fagnað tvítugsafmæli með alvöru „burger“ með fjölskyldu og vinum. Og vini áttirðu marga, enda alltaf svo jákvæður og kátur og í kringum þig mikil lífsorka og gleði.

Við hjónin höfum frá því við byrjuðum að búa, ung að árum, átt því láni að fagna að hafa Rúnar og Hafdísi í sama hverfi og við. Vinátta, stuðningur og samgangur alltaf verið mikill og ómetanleg og kær tenging milli okkar elstu dætra. Ingi var svo stuðboltinn sem alltaf var hægt að treysta á að væri til í fjör og skemmtilegar samverustundir. En á einu augnabliki ertu tekinn frá okkur og eftir stöndum við orðlaus og syrgjum þann ljúfa og skemmtilega dreng sem þú varst.

Ég er svo þakklátur að þú skyldir velja að læra húsasmíði því það þýddi að okkar samverustundum fjölgaði og ég fékk að kynnast þér betur og öðruvísi. Ég fékk að reyna hvað þú varst flottur innan um jafningja og vini. Aldrei áhyggjufullur, alltaf glaður en líka til í að standa á þínu og verja þínar hugmyndir og vina þinna. Ef ég var að gagnrýna þig eða leiðrétta í náminu sagðirðu fátt og reyndir að hlusta en ef gagnrýnin beindist að vinum þínum varstu snöggur að grípa til varna og mótraka og með bros á vör og glampa í auga reyndirðu að rökræða hvers vegna þið voruð í fullum rétti að koma of seint úr mat. Það er stórt skarð sem þú skilur eftir þig í stórum vinahópi og í okkar fjölskyldu.

Elsku Rúnar, Hafdís og Telma, ykkar missir er mestur og sárastur og það er bæn okkar hjóna og dætra að við megum standa við hlið ykkar í gegnum storminn, að við með kærleika og þakklæti getum fundið leið til að takast á við það verkefni sem er fram undan. Megi Guð styrkja ykkur og hugga í sorginni og megi trúin veita okkur þá fullvissu að við munum hitta ástvini á ný þegar okkar tími kemur.

Með kærleikskveðju,

Jóhann og Hanna.

Ingi minn, okkar besti maður, það er ótrúlega skrítið og sárt að skrifa um þig minningarorð. Frá fyrstu tíð, frá því að þú og Viðar Ernir minn urðuð bestu vinir sex ára gamlir, horfði ég á ykkur út um eldhúsgluggann alla morgna kl. 7.45, samferða í skólann út alla skólagönguna. Þið voruð alltaf glaðir og kátir að hittast og labba saman og sjálfsagt að segja hvor öðrum misgáfulegar sögur, kannski af hljómsveitaræfingunum ykkar eða af einhverjum öðrum uppátækjum. Það var alltaf svo falleg og einlæg væntumþykja á milli ykkar, þið voruð alltaf bestu vinir. Ég man ekki eftir að það hafi einhvern tímann komið eitthvað upp á hjá ykkur, þið báruð það mikla virðingu hvor fyrir öðrum.

Ég veit að maður á ekki að gera upp á milli vina barna sinna en þú varst alltaf minn uppáhalds og þú vissir það. Ég kallaði þig oftast Ingimund minn og við gátum hlegið saman og haft gaman, þú elskaðir ef ég bakaði eitthvað gott handa þér og þá sérstaklega skinkuhornin mín. Bónusinn sem fylgdi með þér var besta kona sem ég hef á ævinni kynnst, hún mamma þín. Hvern hefði grunað að með besta vini sonar míns myndi ég líka eignast bestu vinkonu sem hægt er að eiga, hana Hafdísi mína, og alla fjölskyldu þína. Þvílíkur lottóvinningur að eiga ykkur að, alltaf gátum við hlegið saman og haft gaman og nánast alltaf gafstu þér tíma til að knúsa Guðnýju þína.

Við áttum svo dásamlegt spjall úti á palli heima hjá þér um daginn, í bongóblíðu þar sem þú varst nú aldeilis að segja mér að núna þyrftir þú að fara að „bölka“ þig upp (sem sagt vera duglegur að lyfta) – fara úr rúmum 80 kg og í 100 kg. Við vorum svo sammála um það að það væri gott að byrja á því að ná 90 kg.

Þú varst einn frábær strákur sem skilur eftir svo risastórt skarð hjá okkur öllum í Vættagili 16. Þú gast alltaf fíflast í yngri strákunum okkar að þú værir miklu sterkari en Viðar og með miklu stærri vöðva. Þér að segja þá varstu með miklu stærri vöðva. Þú varst líka með svo risastórt hjarta – þvílíkur gulldrengur, einstakur. Það sem þetta er allt sárt og ósanngjarnt, að missa þig frá okkur í þessu hræðilega slysi. Við áttum eftir að spjalla og hlæja svo mikið meira saman. Ég mun aldrei gleyma þér og ég mun alltaf sakna þín elsku strákurinn minn, Ingi minn. Ég mun gera mitt allra besta til að passa upp á fólkið þitt og Viðar Erni minn.

Elska þig.

Þín vinkona,

Guðný Rut.

Það er sárt að þurfa að kveðja Inga okkar svona snemma.

Ingi var einstakur vinur, traustur og góður. Frá fyrsta degi í Giljaskóla var Ingi mesti skemmtikrafturinn í bekknum. Stundir okkar með honum einkenndust af miklum hlátri og prakkaraskap. Í byrjun skólagöngunnar var hann meðal annars yfir leynistaðnum í Vættagili, þar sem aðeins vel valdir fengu inngöngu. Það sem þau eyddu mestum tíma í var að sækja gömul raftæki á ruslahaugana og búa sér til herbergi úti í skógi, leynistaðurinn var aðalstaðurinn.

Sem betur fer breyttist húmorinn og karakterinn ekki með árunum, hann var alltaf jafn mikill gleðigjafi. Hann var líka algjör tuðari, en á besta hátt í heimi. Hann sá til þess að við fengum oft að fara fyrr úr tíma: „Við eigum völlinn, megum við plís fara fyrr út?“ var lykilsetningin hans Inga. Og viti menn, hún virkaði. „Getum við plís opnað gluggann?“ virkaði hins vegar ekki jafn vel þar sem hann og strákarnir völdu sætin lengst frá glugganum, en vildu alltaf hafa hann opinn. Stelpurnar voru hins vegar alls ekki til í það, sem Ingi og félagar voru misánægðir með.

Ingi var prakkari sem hafði mikið að segja, hann gerði alla skóladaga betri, bæði fyrir nemendur og kennara. Einu sinni var hann að hlaupa á göngunum (sem er bannað), henti símanum sínum niður af svölunum (sem er bannað), kennarinn sá það en gat ekkert gert nema hlæja. Þannig var Ingi, það var aldrei hægt að skamma hann. Eitt sinn voru Ingi og vinir hans að labba rétt hjá ruslahaugunum, þar kom kona sem varaði þá við að þarna gætu verið margir naglar, þeir þyrftu að passa sig að stíga ekki á þá. Ingi sá glitta í einn ryðgaðan nagla og sagði við strákana: „Það er ekki séns að þessi komist í gegn um skóinn minn!“ Á sama tíma tók hann tilhlaup og traðkaði á naglanum. Eins og flestir myndu giska endaði þetta með því að Ingi fór uppi á spítala, með ryðgaðan nagla í fætinum.

Ingi var líka góður vinur sem gerði allt fyrir þá sem honum þótti vænt um, hann hjálpaði til dæmis við að brjótast inn í hús vinar síns þegar hann var læstur úti. Það endaði þó ekki betur en svo að Ingi datt á leið niður af svölum ofan á vin sinn – sem var enn læstur úti.

Það var aldrei dauð stund með Inga, hann gerði alla skóladaga skemmtilegri og við getum ekki talið skiptin sem við komum hlæjandi heim úr skólanum með skemmtilegar sögur af Inga. Við munum halda fast í þessar skemmtilegu minningar okkar og með þeim ætlum við að halda minningunni um Inga okkar lifandi.

Fyrir hönd bekkjarfélaga úr Giljaskóla

Viðar Ernir Reimarsson.

Ingi hóf skólagöngu hjá okkur í Giljaskóla haustið 2010. Hann kom inn í skólann með hópi barna sem hafði verið saman á leikskólanum Kiðagili. Þetta var samheldinn hópur sem kom inn í skólann þetta haust og börnin höfðu mikinn styrk hvert af öðru.

Við undirritaðar fengum bekkinn hans Inga til okkar í umsjón í byrjun 8. bekkjar og fylgdum þeim til loka grunnskólans. Í upphafi munum við sérstaklega eftir því að hafa horft yfir hópinn og hugsað að þetta væri nú aðeins of hávær hópur fyrir okkur, en áttuðum okkur fljótt á að þau voru öll að vinna, voru hörkudugleg og við sáum að þessi „hávaði“ truflaði engan nema okkur. Þessi hópur er einn sá vinnusamasti sem við höfum kennt.

Eftir að námi lauk hjá okkur í Giljaskóla héldum við áfram að fylgjast með Inga, eins og við gerum jafnan með fyrrverandi nemendur okkar. Hann útskrifaðist frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í desember síðastliðnum og gladdi það okkur að sjá hann útskrifast úr smíðadeild þar sem hann var á heimavelli og styrkleikar hans fengu að njóta sín.

Við minnumst Inga sem glaðlegs stráks sem vildi hafa gaman og fjör í kringum sig og var fljótur á staðinn þar sem fjörið var. Ingi var hrókur alls fagnaðar og stórt skarð er nú höggvið í hópinn hans sem nú kveður einstakan félaga.

Við starfsfólk Giljaskóla sendum foreldrum hans, systur og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja þau í sorginni.

Hörpu þinnar ljúfa lag

lengi finn í muna.

Því ég minnist þín í dag,

þökk fyrir kynninguna.

(Á.K.)

Fyrir hönd starfsfólks Giljaskóla,

Ragna Kristjánsdóttir
og Steinunn Kristín Bjarnadóttir.

hinsta kveðja

Takk fyrir allt elsku Ingi okkar, við minnumst þín ætíð með hlýju í hjarta.

Davíð Ingi, Tinna Hlín, Anna Karen
og Anton Ingi.