Enski leikarinn Daniel Radcliffe og bandaríska leikkonan og framleiðandinn Angelina Jolie uppskáru vel á Tony-verðlaunaafhendingunni bandarísku um nýliðna helgi. Hlutu bæði Tony-verðlaun, Radcliffe sín fyrstu fyrir bestan leik karls í söngleik, fyrir frammistöðu sína í Merrily We Roll Along eftir Stephen Sondheim og Jolie sem framleiðandi sýningarinnar The Outsiders. Var hún verðlaunuð sem besti söngleikur og hlaut auk þess þrenn önnur verðlaun.
Bæði hafa gert það gott í heimi kvikmyndanna, Radcliffe í hlutverki Harrys Potters í upphafi aldarinnar, þá barnungur, og Jolie bæði í dramatískum hlutverkum og hasar. Hún hefur í auknum mæli sinnt framleiðslu hin síðustu ár auk þess að sinna mannúðarstörfum og þá m.a. fyrir Sameinuðu þjóðirnar.